fbpx
Eyjan

Sólveig um stefnuræðu forsætisráðherra: „Þegar við erum búin að komast að ásættanlegri og mannsæmandi niðurstöðu getum við kannski farið að ræða ís og fullveldi“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 13. september 2018 12:10

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Mynd:DV/Sigtryggur Ari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags, gagnrýnir stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra á Alþingi í gær. Sólveig Anna telur að Katrín hafi misst marks er hún talaði um fullveldið og verð á ís:

„Börn eru frábær, ís er góður, það er gaman að spjalla um liðna tíð og sumum er fullveldið hugleikið. En getum við ekki verið sammála um það að á meðan stórum hópi fólks er haldið, með öllum tiltækum ráðum, pikkföstum á botni hins efnahagslega stigveldis, að á meðan 70 fermetra blokkaíbúð í Breiðholtinu er leigð af harðsvíruðum kapítalistum á 240.000 krónur á mánuði og 43 fermetra íbúð á 171.000 krónur á mánuði, á meðan manneskja á lágmarkslaunum fær útborgað til framfærslu 235.508 krónur á mánuði, að á meðan staðan er svona í blessuðu fullveldinu, þá er kannski hægt að geyma samtöl um ís og einbeita sér að því sem skiptir máli sem hlýtur meðal annars að vera þetta:
Hvað teljum við vera í lagi að bjóða fullorðnu vinnandi fólki uppá í íslensku samfélagi? Þegar við erum búin að komast að ásættanlegri og mannsæmandi niðurstöðu getum við kannski farið að ræða ís og fullveldi.“

 

Sturlaður leigumarkaður

Sólveig tekur dæmi um þá erfiðu stöðu sem fólk er í á Íslandi:

„Katrín Jakobsdóttir hitti börn sem vildu lækkun á ís og gamalt fólk sem gladdist með henni yfir fullveldinu. Ég vil ekki gera lítið úr henni, börnunum eða gleðinni yfir fullveldinu, alls ekki, en mig langar samt að segja þetta:

Ég hitti konur sem leigja bílskúr fyrir 150.000 krónur á mánuði, sem vinna burtu sumarfríin sín (sem ég hef líka gert) af því þær vantar alltaf meiri pening af því að þrátt fyrir að þær vinni eins og skepnur þá hafa þær í ráðstöfunartekjur 260.000 kall á mánuði, ég hitti konur sem eru enn að reyna að krafsa sig undan Hruninu, sem eru í viðbjóðslegum skuldafjötrum 10 árum eftir að sturlaðir kapítalistar rústuðu lífi alþýðufólks á Íslandi, ég hitti konur sem hafa unnið „konustörf“ alla sína ævi og aldrei fengið neitt fyrir nema rétt nóg fyrir ferðunum í Bónus, konur sem hafa þurft að þola það að í þær sé kastað þúsundkalli hér og þúsundkalli þar og það kallað „kaupmáttaraukning“,
ég hitti konur sem geta ekki leigt í Reykjavík, sem er ýtt útaf sturluðum leigumarkaði þar og þurfa því að fara langar vegalengdir til að sækja vinnu, með öllum þeim tryllta kostnaði sem því fylgir, ég hitti konur sem misstu húsnæðið sitt og fengu þau „ráð“ hjá kerfinu að leita skjóls hjá Kvennaathvarfinu (það þarf kannski að fara að opna athvarf fyrir þau sem verða fyrir efnahagslegu ofbeldi samræmdar láglaunastefnu?), ég hitti konur héðan og þaðan sem vinna á útsölumarkaði íslensks atvinnulífs, alla sína ævi, frá því að þær eru unglingsstelpur og fram á gamals aldur og geta samt aldrei, aldrei strokið um frjálst höfuð efnahagslega.“

 

Réttmætur skerfur

„Ég vil gjarnan, líkt og Katrín, skila ungu kynslóðinni góðu búi en ég sætti mig ekki við að góða búið sé byggt upp á vinnu fólks sem fær ekki réttmætan skerf af búsældinni.
Það er einfaldlega svo einfalt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Samanburður við lýðveldishátíð og kristnitökuafmæli út í hött

Samanburður við lýðveldishátíð og kristnitökuafmæli út í hött
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Félagsbústaðir fá fjárveitingu – Utangarðsfólk fær smáhýsi

Félagsbústaðir fá fjárveitingu – Utangarðsfólk fær smáhýsi