fbpx
Fimmtudagur 21.febrúar 2019
Eyjan

Fjölmiðlarnir og ræningjabarónarnir hjá Facebook og Google – hverju breytir það að taka RÚV af auglýsingamarkaði?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 13. september 2018 07:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki víst að áhrif þess að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði hafi mikil áhrif á tekjuöflun annarra fjölmiðla. Stefnt er að því að draga úr auglýsingum á RÚV um 560 milljónir, meðal annars með því að stytta auglýsingatíma

Það er auðvitað gott og göfugt markmið að efla einkarekna fjölmiðla – og veitir ekki af. Sá sem þetta skrifar hefur eytt stærstum hluta starfsævi sinnar á einkareknum fjölmiðlum.

Yfirleitt var það basl. Til voru fjölmiðlar eins og Mogginn og síðar Stöð 2 sem stóðu ágætlega um tíma. En þeir eru fleiri fjölmiðlarnir sem börðust í bökkum, áttu erfitt með að greiða laun, komu peningum ekki í lífeyrissjóði – lögðu loks upp laupana. Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef unnið hjá mörgum dauðum fjölmiðlum.

Sumpart er þetta enn erfiðara núna. Flokksblöðin nutu á sínum tíma styrkja frá ríkinu. Það var nokkuð blómlegur auglýsingamarkaður – sumir tölu sér skylt að auglýsa eftir flokkslínum. En svo voru aðrir fjölmiðlar eins og Helgarpósturinn þar sem helst enginn vildi auglýsa – blaðið var of umdeilt.

En blöð eru að deyja drottni sínum út um allan heim. Ég var í Bandaríkjunum í sumar og ég held að allan þann tíma hafi ég séð einn mann lesa blað. Hins vegar horfði ég á þúsundir manna einblína í farsíma. Þessari þróun verður ekki snúið við. Lesendur blaða gerast hallir úr heimi og það bætast ekki nýir við.

En hugmyndin var sú að miðlar á netinu tækju við. Yrðu öflugir, sinntu hlutverki fjórða valdsins. En það hefur ekki gengið eftir. Menn héldu að einn daginn yrði hægt að fjármagna netmiðlana eins og blöðin áður – með auglýsingum. Það hefur ekki gengið eftir. Og það er fjáranum erfiðara að selja áskrift að netmiðlum. Fólk vill núorðið fá ókeypis fréttir, ókeypis tónlist, ókeypis sjónvarpsefni. Eða borga fyrir eins lítið og hægt er að komast upp með.

Þetta er skelfileg staða fyrir fjölmiðla. Það flökrar að manni að sú stétt sem nefnist blaðamenn (journalists) kunni að verða útdauð eftir fáeina áratugi. Við taki allsherjar þvarg á internetinu.

En aftur að auglýsingatekjunum. Vandinn þar er að peningarnir sem eru notaðir í auglýsingar – og þeir eru ennþá miklir – fara í stóru netfyrirtækin. Þeir renna til Facebook og Google. Fjölmiðlarnir framleiða efnið, það gera blaðamenn eftir sem áður, en svo er því dreift á Facebook og Google. Og það eru þessir netrisar sem hirða arðinn. Ekkert virðist geta stöðvað þessa þróun – viti menn, þessari grein hérna verður dreift á Facebook.

Sigurður Már Jónsson, gamall blaðamaður, skrifar um þetta í pistli á Mbl.is. Pistillinn er ansi mikið í anda þess sem ég hef stundum skrifað hér á netið. Sigurður notar meira að segja sama  orð og ég hef slett fram: Ræningjabarónar. Það var notað um karla sem urðu ofurríkir á upphafstíma járnbrauta og í árdaga olíualdar. Bandaríkjastjórn lét um síðar til skarar skríða gegn þeim, þá var Teddy Roosevelt forseti.

Sigurður Már segir að Google og Facebook taki nú um 55 prósent af öllum auglýsingatekjum á netinu í Bretlandi – ætlað sé að 2020 verði hlutfallið orðið 70 prósent.

Aukin krafa á er á Evrópusambandið að setja þessari notkun ramma með löggjöf sem taki til höfundarréttar og notkunar á efni fjölmiðla. Um leið og augljóslega er gengið á höfundarrétt annarra fjölmiðla vefst fyrir mörgum hvernig beri að skilgreina samfélagsmiðlana sem eru ekki fjölmiðlar í hefðbundinni merkingu þess og rekstraraðilar þeirra því ekki útgefendur. Því getur vafist fyrir mörgum að skilja hlutverk þeirra á samkeppnismarkaði á meðan hefðbundnum fjölmiðlum blæðir út. Samfélagsmiðlarnir eru því að nokkru eins og ræningjabarónar nútímans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 22 klukkutímum

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“
Eyjan
Í gær

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“
Eyjan
Í gær

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi
Eyjan
Í gær

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“
Eyjan
Í gær

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“
Eyjan
Í gær

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna