fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Tilnefningar til Fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 12. september 2018 11:35

Verðlaunagripurinn Jarðarberið, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarssyni. Mynd/stjornarrad.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða mánudaginn 17. september í tilefni af Degi íslenskrar náttúru. Tilnefnd til verðlaunanna eru í stafrófsröð: Kjartan Kjartansson, Sunna Ósk Logadóttir og teymið Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu er eftirfarandi:

Kjartan Kjartansson, blaðamaður á Vísir.is, Bylgjunni og Stöð 2 fyrir umfjöllun um loftslagsmál

Kjartan hefur á tímabilinu fjallað á vandaðan og upplýsandi hátt um brýnasta umhverfismál samtímans: loftslagsmál. Í umfjöllun sinni hefur Kjartan flutt fréttir og skrifað greinar um hinar ýmsu hliðar loftslagbreytinga, varpað ljósi á nýjar rannsóknir og sett í samhengi við íslenskar aðstæður. Umfjöllunin hefur verið stöðug og umfangsmikil á tímum mikilla breytinga í íslenskri fjölmiðlun. Kjartani er lagið að útskýra áhrif loftslagsbreytinga á aðgengilegan hátt fyrir almenna lesendur. Með umfjöllun sinni hefur hann vakið athygli á loftslagsmálum og áhrifum þeirra á samfélag og umhverfi á Íslandi og í heiminum öllum.

Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður á Mbl.is fyrir greinaflokkinn Mátturinn og dýrðin

Sunna Ósk fjallar í greinaflokknum Mátturinn eða dýrðin sem birtist á Mbl.is og í Morgunblaðinu í október 2017 um togstreitu nýtingar og náttúruverndar. Sérstaklega er fjallað um virkjunaráform á Vestfjörðum og áhrif þeirra á staðbundið samfélag og umhverfi. Sunna Ósk fjallar af vandvirkni og næmni um mál sem er umdeilt og vakið hefur heitar tilfinningar. Hún leitar víða fanga og veltir upp ólíkum sjónarmiðum í umfjöllun sinni. Sunna Ósk tengir tölulegar staðreyndir, skýringarmyndir og viðhorf saman á áhugaverðan hátt fyrir lesandann og gefur heildstæða og yfirgripsmikla mynd af þeim hagsmunum og sjónarmiðum náttúrverndar og náttúrunýtingar sem vegast á.

Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fyrir myndefni, upplýsingar og greinaskrif um íslenska náttúru

Tómas og Ólafur hafa á árinu nýtt fjölmiðla og samfélagsmiðla til að fjalla um íslenska náttúru, friðun og verðmæti náttúruminja. Þeir hafa heimsótt fjölmarga staði og sótt þangað nýtt efni, bæði ljósmyndir og myndskeið og nýtt sér til hins ítrasta möguleika samfélagsmiðla til að koma þessu efni á framfæri. Þeir hafa afhent fjölmiðlum efnið til afnota og þannig náð til enn stærri hóps lesenda og áhorfenda. Með því hafa þeir haft bein áhrif á að lítt þekktar náttúruperlur, s.s. fossaröð á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar, hafa komist í almenna umræðu. Umfjöllun þeirra er lýsandi fyrir þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi fjölmiðla, þar sem efni kemur í auknum mæli frá almenningi fremur en sérhæfðu fréttafólki eða ljósmyndurum.

Dómnefnd skipa Ragna Sara Jónsdóttir, formaður, Jón Kaldal og Valgerður Anna Jóhannsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt