fbpx
Eyjan

Starfsgreinasambandið vill hertar aðgerðir: „Ólíðandi að uppsveifla í efnahagslífinu sé að hluta tildrifin áfram af misnotkun á vinnandi fólki“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 10. september 2018 10:35

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar -Iðju, og SGS

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands komu saman til fundar á Akureyri síðastliðinn föstudag og tóku sérstaklega fyrir eftirlit með félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Á fundinum var þess krafist að stjórnvöld grípi til aðgerða þar sem stéttarfélögin hafi takmörkuð úrræði til viðbragða:

„Að mati formanna Starfsgreinasambands Íslands er ekki nóg að gert. Þörf er á grettistaki af hendi stjórnvalda við að berjast gegn ótal birtingamyndum félagslegra undirboða. Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins krefjast þess að stjórnvöld hefji þegar í stað vinnu við úrbætur á sviði eftirlits og lagasetningar og leggist á árarnar með stéttarfélögunum til að uppræta félagsleg undirboð. Það er óþolandi og með öllu ólíðandi að uppsveifla í efnahagslífinu sé að hluta tildrifin áfram af misnotkun á vinnandi fólki,“

segir í tilkynningu.

Það sem Starfsgreinasambandið vill koma í veg fyrir er þetta helst:

  • Ólögleg sjálfboðaliðastarfsemi
  • Launastuldur
  • Ófullnægjandi ráðningasamningar
  • Misnotkun á vinnandi fólki
  • Brot á ákvæðum um hvíldartíma
  • Óviðunandi aðbúnaður
  • Misnotkun í tengslum við útleigu íbúðarhúsnæðis í eigu atvinnurekanda

SGS vill sameina aðgerðir hlutaðeigandi stofnana og auka eftirlit:

„Samræma þarf og þétta vinnustaðaeftirlit út um allt land. Þegar best hefur til tekist hafa Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóri, lögreglan og stéttarfélögin sameinast um aðgerðir á ákveðnum svæðum og nýtt þau úrræði sem hver og ein stofnun hefur. Því miður hefur verið misbrestur á þessari samræmingu síðustu misseri og ljóst að flókið getur reynst að samræma svo marga aðila til aðgerða. Nauðsynlegt er að greina hver hefur hvaða heimildir og formgera samráð og samstarf betur. Þá þarf að styrkja stoðir eftirlitsins þannig að fulltrúar viðkomandi stofnana geti einnig haft eftirlit með aðbúnaði og kjörum vegna húsnæðis ef atvinnurekandi er jafnframt leigusali.“

Þá vill sambandið taka upp sektargreiðslur þegar atvinnurekendur snupra launþega um réttmæt laun:

„Að mati SGS er kominn tími til að sérstaklega verði refsað fyrir launaþjófnað með sektargreiðslum. Í dag geta stéttarfélögin einungis gert kröfu um afturvirkar launagreiðslur með dráttarvöxtum. Þeir atvinnurekendur sem vísvitandi stela launum af starfsfólki standa því einungis frammi fyrir því að þurfa að greiða launin ef upp um þá kemst og viðkomandi starfsmaður krefur þá um launin. Stéttarfélögin gera annars vegar greinarmun á þeim atvinnurekendum sem vegna vanþekkingar greiða rangt og leiðrétta laun gagnvart öllum starfsmönnum eftir athugasemdir og hins vegar þeim atvinnurekendum sem síendurtekið og meðvitað stela launum frá starfsfólki. Hörð refsing verður að fylgja slíku háttalagi.“

Sjálfboðaliðastörf hafa færst í aukana á Íslandi, en Starfsgreinasambandið vill taka á með fullum þunga:

„Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gert samkomulag um hvað telst til vinnu sem greitt skal fyrir. Bændasamtök Íslands og Starfsgreinasamband Íslands hafa einnig gert með sér svipað samkomulag. Stéttarfélögin hafa ítrekað orðið þess áskynja að atvinnurekendur fara á svig við þennan ramma og lög sem gilda um endurgjald fyrir vinnu. Það er sjálfstætt verkefni að rannsaka sjálfboðastörf hér á landi, sérstaklega í landbúnaði og ferðaþjónustu. Rík áhersla á sjálfboðaliðastörf í þessum atvinnugreinum grafa undan vinnumarkaðnum og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áríðandi er að benda á að sjálfboðaliðar eru oftar en ekki ótryggðir ef eitthvað kemur uppá. Slík brot eru skýr dæmi um félagsleg undirboð sem brýnt er að taka á með fullum þunga og beita sektarákvæðum ef til þarf.“

Starfsgreinasambandið vill einnig aðgerðaráætlun gegn mansali:

„Ein versta mynd félagslegs undirboðs er mansal á vinnumarkaði og hafa stéttarfélögin beðið eftir aðgerðaráætlun síðustu tvö árin. Það er löngu tímabært að stjórnvöld geri það sem til þeirra friðar heyri til að uppræta mansal enda þolinmæði þeirra sem sjá skelfilegar afleiðingar mansals löngu þrotin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 18 klukkutímum

Alvarlegar aðfinnslur gerðar á starfssemi Samgöngustofu: „Full þörf á að ljúka þessari vinnu“

Alvarlegar aðfinnslur gerðar á starfssemi Samgöngustofu: „Full þörf á að ljúka þessari vinnu“
Eyjan
Fyrir 19 klukkutímum

Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða fríhöfnina í Leifsstöð

Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða fríhöfnina í Leifsstöð
Eyjan
Fyrir 20 klukkutímum

Leiguverð í Reykjavík hærra en í höfuðborgum nágrannalanda

Leiguverð í Reykjavík hærra en í höfuðborgum nágrannalanda
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta er dýrasti þingflokkurinn

Þetta er dýrasti þingflokkurinn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hin endalausu Brexit-vandræði

Hin endalausu Brexit-vandræði