fbpx
Laugardagur 16.febrúar 2019
Eyjan

Alltof mikið af bílum – samanburður á nokkrum borgum

Egill Helgason
Miðvikudaginn 5. september 2018 19:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgarstjórnin ákvað í gær að breyta Bankastræti og Laugavegi í göngugötur til frambúðar. Það er ágætt. Ég held samt að það hafi ekki sérlega góð áhrif á þá verslun fyrir Íslendinga sem er eftir á Laugaveginum. Hún er reyndar ekki mikil, þarna eru aðallega veitingahús og minjagripabúðir. En staðreyndin er sú að þegar Íslendingar eru komnir upp í bílana sína nenna þeir alls ekki út úr þeim aftur til að labba einhverja vegalengd. Þeir geta hins vegar ekið í ræktina og ferðast þar marga kílómetra á þartilgerðum brettum.

Aldrei hefur bílamergðin í bænum verið meiri en þetta haust.  Bíleignin er komin langt umfram það sem gömlu hverfin í vesturborginni þola. Bílarnir troðast um þröngar göturnar, alls staðar er þeim lagt. Í raun eru þetta til ótrúlegra lýta á umhverfinu. Fallegustu götur bæjarins nánast hverfa á bak við bílana. Það verður að segja eins og er, það hefur alveg mistekist að koma Íslendingum upp á aðra samgöngumáta en bílinn. Kannski er góðæri um að kenna, tölur sýna að bílaumferð í bænum dróst saman á árunum eftir hrun.

Ég er sjálfur ekki undanskilinn, ég fer alltof mikið á bíl. Veit vel að aðrar aðferðir við að komast á milli staða væru miklu betri fyrir mig. Í sumar kom ég í þrjár borgir sem eru mjög ólíkar út frá sjónarhóli samgangna. Í tveimur þeirra voru samgöngurnar þannig að þær stuðla að hollustu, hreyfingu og umhverfisvernd, hin þriðja var dæmi um hið gagnstæða.

Fyrst er að nefna Amsterdam í Hollandi. Hún er ein mesta reiðhjólaborg í heimi. Þegar maður kemur þangað getur fjöldi reiðhjólanna jafnvel virkað yfirþyrmandi. Fólk fer ferða sinna á reiðhjólum. Þetta eru yfirleitt gamaldags reiðhjól, ekki nein kappaksturs- eða fjallahjól. Fæstir eru með hjálma. Maður tekur eftir því að íbúar borgarinnar eru yfirleitt vel á sig komnir, þeir eru grannir og hávaxnir. Og alls kyns verslun þrífst á götum borgarinnar – maður þarf ekki að fara í stórar verslunarkringlur utan hennar til að ná í nauðsynjavörur.

 

 

Svo er það Boston í Bandaríkjunum. Hún þykir einna evrópskust af borgum vestanhafs og um leið sú gönguvænasta. Þar var gert gríðarlegt – og rándýrt – átak til að koma stórum hluta bílaumferðarinnar í göng neðanjarðar. Maður getur gengið nánast allt í Boston, um miðbæinn, að höfninni, í útborgir sem eru sumar mjög skemmtilegar. Í slíku borgarumhverfi er margt að sjá og maður tekur ekki eftir því hvað maður gengur stundum langar leiðir. Á sumum dögum fórum við allt upp 15 kílómetra fótgangandi.

 

 

Það er samt talsverður troðningur bílaumferðar í Boston. Kerfi neðanjarðarlesta er þokkalegt, en tilkoma nýrrar tegundar af leigubílum hefur haft áhrif. Það er ótrúlega þægilegt að hlaða niður appi frá Uber eða Lyft – maður getur kallað á bíl í gegnum símann hvar sem maður er staddur og hann fer með mann nákvæmlega þangað sem maður þarf að komast. Yfirleitt er þjónustan ekki dýr. En vöxtur Uber og Lyft hefur þá skuggahlið að bílaumferð í borgum eykst á nýjan leik. Aftur þrengist um á götunum. Hermt er að vegna þessa hafi meðalhraði umferðar í New York minnkað enn, hún sniglast áfram eins og aldrei fyrr.

Fólk sem annars hefði notað almenningssamgöngur kýs þægindin við þessa skutlþjónustu. Sem aftur þýðir að útblástur frá bifreiðum eykst. Millistéttarfólk er almennt býsna eigingjarnt þegar kemur að eigin þægindum – við viljum fá að fljúga þangað sem við viljum komast og við viljum láta aka okkur heim að dyrum. Á meðan slökkvum við aðeins á áhyggjunum af loftslagsbreytingum; tuðum kannski um einhverja aðra birtingarmynd umhverfisspjalla eins og til dæmis plastpoka.

Þriðja borgin er Nashville í Tennessee. Það er eins og að koma í annan heim. Í borg eins og Nashville labbar enginn nema hann sé afar fátækur eða algjörlega utangarðs. Sums staðar ganga strætisvagnar – maður sér að enginn notar þá nema snauðasta fólkið. Það eru engar raunverulegar borgargötur. Vegirnir eru undarlega breiðir og meðfram þeim eru þyrpingar verslana og veitingahúsa (strip malls), meira og minna alllt með sama byggingalaginu og alls staðar hjá bandarískum vegum. Semsagt – ljótt og óaðlaðandi. Meira að segja í gegnum Broadway, sem er hjarta kántrítónlistarinnar í Nashville, liggur þriggja akgreina vegur. Og í úthverfunum eru gata á eftir götu en hvergi neinar gangstéttir.

 

 

Það fer enginn neitt án þess að vera á bíl. Maður gengur ekki einu sinni yfir götuna til að fara í hús sem er beint á móti, heldur sest upp í bílinn til að keyra þangað.

Nashville er ágætlega merkileg borg. Þar eru til dæmis nokkuð góðir háskólar. En lífshættirnir sem fylgja slíkri ofuráherslu á bílinn eru óþægilegir og óhollir. Og það ber að sama brunni í Reykjavík. Við getum þrasað fram og til baka um umferðina, en staðreyndin er sú að við notum bíla alltof mikið. Okkur er engin vorkunn að draga úr notkun þeirra.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gulvestungar boða mótmæli fyrir utan Tryggingastofnun

Gulvestungar boða mótmæli fyrir utan Tryggingastofnun
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Heimir illur og hneykslaður: „Ber þetta vott um skynsemi eða hálfvitagang?“

Heimir illur og hneykslaður: „Ber þetta vott um skynsemi eða hálfvitagang?“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar Þór segir ríkið stela af öldungum – Faðir hans vann alla ævi: „Hann er að fá úr kerfinu eftir skatt 141 þúsund krónur“

Ragnar Þór segir ríkið stela af öldungum – Faðir hans vann alla ævi: „Hann er að fá úr kerfinu eftir skatt 141 þúsund krónur“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Laun bæjarfulltrúa í Kópavogi lækka

Laun bæjarfulltrúa í Kópavogi lækka