fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

50 ár frá innrásinni í Tékkó – feigðarboði kommúnismans

Egill Helgason
Miðvikudaginn 22. ágúst 2018 00:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var í blaðamannaskóla í París fyrir þrjátíu árum ræddum við nemendurnir stundum um hverja við vildum helst taka viðtal við. Einn af þeim sem var nefndur var Alexander Dubcek. En það þótti fjarlægur möguleiki, hann var einhvers staðar lengst inni í Tékkóslóvakíu. Ekkert hafði heyrst frá honum um langt árabil. Hafði víst unnið í skógræktinni í Slóvakíu.

Dubcek var aðalritari kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu þegar Sovétherinn ásamt fleiri Varsjárbandalagsríkjum gerði innrás 21. ágúst 1968 – fyrir nákvæmlega fimmtíu árum. Þetta var umbyltingasumarið 1968. Fyrst kom stúdentabyltingin svokölluð í París. Hin miklu uppþot á flokksþingi Demókrata í Chicago. Og mótmæli gegn Vietnamsstríðinu út ut um allan heim. Þetta hafði líka áhrif fyrir austan járntjald. Það hrikti í valdakerfum.

Dubcek komst til valda í Tékkóslóvakíu snemma árs 1968. Hann setti fram slagorðið „sósíalismi með mannlegri ásjónu“. Það átti ekki að henda kerfinu sem fyrir var, heldur freista þess að breyta því innan frá. Það upphófst frjálsræðistími í Tékkóslóvakíu – ritskoðun var aflétt og alls kyns sköpun blómstraði, kvikmyndir, bókmenntir, tónlist. Vinstri hreyfingin – sósíalistar og kommúnistar – horfði til þessa með ákveðinni von. Þess hafði verið beðið lengi að „Eyjólfur hresstist“ eins og það var gjarnan kallað – að kommúnisminn austantjalds hjarnaði við. Að fengi að spretta upp þó ekki nema vottur af frelsi og lýðræði en Austur-Evrópuríkin fengju aðeins að feta sína eigin slóð, óháð Moskvuvaldinu. 

Svarið var afdráttarlaust nei. Valdhafarnir í Moskvu með Brésnef í fararbroddi máttu ekki til þess hugsa að gerðar yrðu neinar breytingar á hinu staðnaða þjóðskipulagi. Þeir sendu skriðdreka á vettvang. Innrásin í Tékkóslóvakíu markaði í raun endalok, margir gengu af trúnni við uppreisnina í Ungverjalandi 1956, eftir Tékkó mátti segja að engin fylgdi sovétkommúnismanum að málum nema mestu kreddumenn, heimskingjar eða þrjótar. 

Meira að segja Sósíalistaflokkurinn á Íslandi sem hafði verið býsna trúr Moskvu gat ekki meir. Jafnvel Einar Olgeirsson fordæmdi innrásina, sló reyndar þann varnagla að hætt væri að hún yrði notuð af heimsvaldasinnum til að magna upp áróður gegn Sovétríkjunum vegna hinna „ægilegu mistaka“.

Svo kom flauelisbyltingin tékkneska – það var árið 1989 þegar kommúnisminn austantjalds hrundi eins og spilaborg. Þetta var orðið feyskið og fúið og einskis nýtt. En atburðina sá maður samt ekki fyrir. Ég var á ferðalagi í Tékkóslóvakíu sumarið 1989 og undraðist hvað kúgunin var mikil og þétt. Andrúmsloftið í Prag var þrúgandi.

Ég var með ferðahandbók á þýsku eftir rithöfund sem var bannaður, Pavel Kohut, það glitti í hana í vasa mínum á krá þar sem ég sat. Ég fann að fólk sem sat nálægt ókyrrðist. Svo fór ég á salernið og maður kom til mín og spurði um bókina, ég rétti honum hana og sagði að hann mætti eiga hana – maðurinn stakk henni undireins innanklæða og fór burt.

Dubcek birtist á nýjan leik. Hann var samt ekki hinn raunverulegi leiðtogi lengur, það féll í skaut Vaclavs Havel, andófsmannsins og leikskáldsins sem hafði mátt þola fangelsisvist vegna skoðana sinna. Dubcek varð forseti þingsins en fórst í bílslysi í nóvember 1992. Hann var Slóvaki og andsnúinn því að Tékkland og Slóvakía yrðu skilin að – en sú varð raunin 1993.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus