fbpx
Laugardagur 16.febrúar 2019
Eyjan

Grikkland útskrifast úr neyðaráætluninni en skuldirnar eru óviðráðanlegar, hagvöxturinn of lítill og framtíðin ekki sérlega björt

Egill Helgason
Mánudaginn 20. ágúst 2018 23:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru engin rosaleg fagnaðarlæti í Grikklandi nú þegar lýkur björgunaráætluninni vegna efnahagskreppunnar í landinu. Jú, í sjálfu sér fagnaðarefni, en það er þversögn að við völd í Grikklandi er stjórnmálaflokkur, Syriza, og forsætisráðherra, Alexis Tsipras, sem komust til valda vegna andstöðu við plön svokallaðrar Þrenningar (ESB, AGS og Evrópubankans). Syriza efndi meðal annars til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið – svarið var hátt og snjallt nei. En þá sneri Tsipras við blaðinu og er nú mjög í náðinni hjá Þrenningunni miðað við það sem þá var.

Grikkland situr enn uppi með skuldir sem eru algjörlega ógreiðanlegar. 180 prósent af landsframleiðslu. Þegar evran var tekin upp var kreddan sú að aldrei kæmi til þess að þyrfti að veita ríkjum sem hefðu aðild að henni neyðaraðstoð. En reyndin var önnur. Grikkland var nokkrum sinnum næstum dottið út úr evrunni, en það mátti ekki gerast – þá var hættan að önnur ríki með laskaðan efnahag yrðu næst fyrir árásum spákaupmanna – þar er Ítalía annað skotmark.

Grikkjum hefði sjálfsagt ekki vegnað betur til skamms tíma með því að taka aftur upp drökmuna, en með þessa skuldastöðu er framtíðin varla björt. ESB má ekki heyra að skorið sé af skuldunum, þótt AGS hafi hvatt til þess. Í staðinn er lengt í lánum út í það óendanlega og vextir eru afar lágir. En það breytir því ekki að skuldirnar vofa enn yfir og gera endurreisn hagkerfisins til langframa miklu erfiðari. Enda verður Grikkland áfram undir ströngu eftirliti lánadrottnanna.

Það er smáhagvöxtur í Grikklandi núna. Hann er þó ekki mikill miðað við að hagkerfið hefur dregist saman um fjórðung á síðustu tíu árum. Svo lítill er hann að mun taka óratíma að bæta skaðann sem hefur orðið í samfélaginu. Niðurskurðurinn þarf að halda áfram, þess er krafist að áfram verði afgangur af fjárlögum – meiri en grískt samfélag í raun ræður við. Það hjálpar heldur ekki að mikill fjöldi Grikkja hefur forðað sér úr landi – og það á ekki síst við um klárasta og best menntaða fólkið. Gríska þjóðin er líka að verða eldri, barneignir eru litlar og hafa dregist saman á tíma kreppunnar. Skattar og alls kyns álögur hafa hækkað upp úr öllu valdi á tíma kreppunnar og leggjast með miklum þunga bæði á fyrirtæki og einstaklinga. Grikkir hafa líka miklar áhyggjur af efnahagshruninu í Tyrklandi, það getur haft margvíslegar afleiðingar fyrir þá,bæði pólitískar og peningalegar.

Það er talað um að þetta sé sigur fyrir Tsipras forsætisráðherra. Hann er það að vissu leyti – en verður þó að skoða í ljósi þess að hann rekur allt aðra stefnu en hann hafði þegar hann kosinn í upphafi. Um langt skeið hefur allt bent til þess að Nea Demokratia – hliðstæða íslenska Sjálfstæðisflokksins – myndi ná aftur völdum í kosningum sem verða í síðasta lagi haustið 2019. Forskot ND hefur verið mikið í skoðanakönnunum, en upp á síðkastið hefur dregið aðeins saman með flokkunum. Þó er líklegt að forsætisráðherratíð Tsipras sé brátt á enda. Sennilega verður litið á feril hans og Syriza sem gríðarleg vonbrigði fyrir hið „nýja vinstri“ sem var talsvert talað um í árdaga valdatíðar hans. Þegar á reyndi var hann nánast alveg eins og þeir sem á undan komu, bara aðeins mælskari og fyllri af órum um eigið mikilvægi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gulvestungar boða mótmæli fyrir utan Tryggingastofnun

Gulvestungar boða mótmæli fyrir utan Tryggingastofnun
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Heimir illur og hneykslaður: „Ber þetta vott um skynsemi eða hálfvitagang?“

Heimir illur og hneykslaður: „Ber þetta vott um skynsemi eða hálfvitagang?“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar Þór segir ríkið stela af öldungum – Faðir hans vann alla ævi: „Hann er að fá úr kerfinu eftir skatt 141 þúsund krónur“

Ragnar Þór segir ríkið stela af öldungum – Faðir hans vann alla ævi: „Hann er að fá úr kerfinu eftir skatt 141 þúsund krónur“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Laun bæjarfulltrúa í Kópavogi lækka

Laun bæjarfulltrúa í Kópavogi lækka