fbpx
Fimmtudagur 21.febrúar 2019
Eyjan

Ferðaþjónusta á veikum grunni

Egill Helgason
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 02:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það mætti halda að Íslendingar séu í eðli sínu áhættufíklar – jafnvel fjárhættuspilarar. Við erum varla búin að gleyma hruninu 2008 – í október eru liðin 10 ár frá því. En misserið áður var allt á hrunbraut. Það var kominn krepputónn í viðskiptalífið og stjórnendur þess og stjórnmálamenn voru á þönum að reyna að sannfæra fólk bæði á Íslandi og í útlöndum um að allt væri í lagi – allt myndi blessast.

Sem það gerði ekki.

En við megum samt eiga að við náðum okkur furðufljótt upp úr hruninu. Það var með sérstakri blöndu af heppni, nokkuð glúrinni lagasetningu, með því að losna undan að borga hluta skuldanna – og svo kom til aukning í atvinnugrein sem áður var frekar smá, ferðamennnskunni.

Svo þróuðust málin í þá átt að óvæntur og gríðarlegur vöxtur hljóp í ferðamennskuna. Þetta var á tíma að túrismi var að aukast víðast hvar í heiminum. Ísland fékk mikla auglýsingu – ekki síst út á eldgos. Og flugfélög sem bjóða lágt verð fóru að selja ferðir til Íslands í gríð og erg. Umfang flugsins til Íslands margfaldaðist og farþegafjöldinn sömuleiðis.

En þá erum við aftur komin út í áhættufíknina. Flugfélögin tvö íslensku, hið gamla, Icelandair, og hið nýja, WOW, ákváðu bæði að fara út í mjög viðamikið flug yfir Atlantshafið sem gengur fyrst og fremst út á að flytja Bandaríkjanna milli Ameríku og Evrópu – með viðkomu á Íslandi. Ísland skyldi verða gríðarleg miðstöð farþegaflutninga – hub eins og það er kallað á ensku. Staður þangað sem fólk flýgur, hefur stutta viðkomu og skiptir um flugvélar.

Gríðarlegur kraftur var settur í þetta plan og stjórnvöld fylgdu með í líki Isavia – en í raun voru það flugfélögin sem réðu ferðinni, mörkuðu stefnuna. Stjórnmálamenn komu þar hvergi nærri. Samt er þetta feikilega áhættusamt. Þessi markaður er óhemju ótryggur og samkeppnin á honum fer sívaxandi. Nú riðar annað íslenska flugfélagið til falls. WOW á í stórum vandræðum með að borga reikningana sína. Það er vafasamt að félagið geti sótt sér meira fé. Fargjöldin er ekki hægt að hækka, því þá hverfa viðskiptavinirnir. Þá er varla annað til ráða en að skera niður eða reyna að ná meiru út úr rekstrinum. Eina leiðin til þess er að reyna að taka aðeins meira af farþegunum i alls kyns aukagjöldum, en hængurinn þar er að WOW er þegar frekar illa þokkað fyrir ýmiss konar ófyrirséðar álögur.

Fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi væri það gríðarlegt högg ef WOW færi á hausinn. En flugfélög hverfa – það getur gerst eins og hendi sé veifað. Allt í einu er búið að mála yfir merkin á vélunum og þær komnar eitthvað allt annað. Þetta myndi hafa áhrif víða um íslenskt samfélag. Manni skilst jafnvel að unnið sé að einhvers konar áætlun um hvernig bregðast eigi við. En það er ekki einfalt, varla fer ríkið eða lífeyrissjóðirnir að taka á sig stórar skuldbindingar til að halda áfram að fljúga með Bandaríkjamenn yfir hafið. Eða gæti það gerst?

Það er stundum talað um að ekki eigi að setja öll eggin í sömu körfu. Sjálfur hef ég stundum varað við hinni ríkjandi stefnu – að leggja svo mikla áherslu á Bandaríkjaflugið. Það má lítið út af bera og í raun fullkomin óvissa um að þetta muni ganga til lengdar. Þetta gæti eins reynst vera enn eitt íslenska ævintýrið. Líkt og áður segir fer samkeppnin í lágfargjaldaflutningunum yfir Atlantshafið harðnandi. Bandarísk flugfélög eins og Jet Blue hafa áform um að blanda sér í baráttuna. Það koma til skjalanna langdrægari flugvélar – sem hefur áhrif á gildi Íslands sem viðkomustaðar. Nú er hækkandi olíuverð farið að bíta– en íslensku flugfélögin geta tæplega þrýst upp farmiðaverði að missa markaðshlutdeild.

Á sama tíma og þetta hefur gerst höfum við hrakið frá okkur þá sem eitt sinn voru tryggustu viðskiptavinir íslensku ferðaþjónustunnar, ferðamenn frá meginlandi Evrópu, ekki síst Þýskalandi og Frakklandi, sem komu hingað og fóru í langar ferðir um náttúruna, fjöll og firnindi.

Ferðamennskan varð á fáum árum langstærsta atvinnugreininn, rétt eins og bankarnir og fjármálavafstrið gnæfði yfir allt á árunum fyrir 2008. Við höfum einblínt á ferðaþjónustuna  síðustu sjö til átta árin og sett gríðarlegt fjármagn og mannauð í hana. En þegar nú íslensku flugfélögin rata í vandræði sjáum við að þetta er byggt á veikum grunni – sem er víst ekkert nýtt á Íslandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“
Eyjan
Í gær

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“
Eyjan
Í gær

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi
Eyjan
Í gær

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“
Eyjan
Í gær

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“
Eyjan
Í gær

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna