fbpx
Fimmtudagur 21.febrúar 2019
Eyjan

Sænskir kjósendur óöruggir

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 18. ágúst 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á aðeins sjö árum hefur morðum, frömdum með skotvopnum, fjölgað um 120 prósent í Svíþjóð. Þá hefur bílbrunum, skotárásum og hópnauðgunum fjölgað undanfarin misseri. Því er ekki að undra þótt lög og regla í samfélaginu séu eitt heitasta málið í kosningabaráttunni en Svíar kjósa til þings þann 9. september. Í nýjustu könnun sænska forvarnarráðsins, BRÅ, kemur fram að 30 prósent kvenna og 19 prósent allra íbúa landsins finna til óöryggis þegar þeir fara út að kvöldlagi, hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt síðan 2013. Um 38 prósent Svía telja að „mikil“ fjölgun hafi orðið á afbrotum á undanförnum þremur árum. Um 29 prósent eru „mjög óróleg“ vegna afbrotatíðninnar.

Erfitt er að horfast ekki í augu við staðreyndir í málaflokknum því tölfræðin sýnir að þróunin hefur verið neikvæð. Almenningur er meðvitaður um að Svíar standa frammi fyrir stóru samfélagslegu vandamáli sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir ýmsar aðgerðir.

Fleiri morð og nauðganir

Mynd úr safni.

Það er ekki úr lausi lofti gripið þegar fólk segist telja að afbrotum hafi fjölgað. Á milli áranna 2016 og 2017 fjölgaði kærum vegna nauðgana um rúmlega átta prósent þegar búið er að taka tillit til fjölgunar landsmanna. Frá 2011 nemur fjölgunin tæplega 21 prósenti. Einnig hefur öðrum kynferðisbrotum fjölgað.

Fjögur prósent sænskra kvenna segjast aðspurð hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi á síðasta ári, flestar eru þær á aldrinum 16 til 24 ára. Hvað varðar skotárásir er tölfræðin jafnvel enn verri. Á síðasta ári skráði lögreglan 320 slík mál, 40 létust í þessum málum þar af aðeins ein kona. Þetta er 120 prósenta aukning frá 2011. Það er þó jákvætt að það sem af er ári hefur skotárásum fækkað en þær eru enn mjög margar. Í Malmö hafa 10 verið skotnir til bana það sem af er ári. Þar af voru þrír menn skotnir til bana og þrír særðir í einni skotárás í sumar. Almenningur er þó ekki í skotlínunni öllum stundum að sögn BRÅ og líkurnar á að vera skotinn eru ekki meiri nú en fyrir nokkrum árum. Skotárásirnar snúast um átök glæpagengja og þau hafa hreyft við tölfræðinni. Í raun hefur morðum vegna afbrýðisemi og í hópum þeirra sem minna mega sín fækkað en átök glæpagengja vega þar upp á móti í tölfræðinni og rúmlega það. Flest fórnarlömbin eru ungir karlmenn í stóru borgunum Malmö, Gautaborg og Stokkhólmi. Átökin snúast að miklu leyti um yfirráð yfir fíkniefnamarkaðinum.

Hvað varðar kynferðisbrotin hefur dómum ekki fjölgað en kærðum málum hefur fjölgað. Hjá BRÅ telja sérfræðingar líklegt að kynferðisbrotum hafi fjölgað, það sé ekki bara þannig að fólk sé frekar farið að kæra þau en það geti líka spilað inn í fjölgun kæra.

Hverjir fremja afbrotin

Ein af skýringunum á þessari auknu glæpatíðni er að innflytjendur eigi hlut að máli, og nýtur sú skýring sífellt meiri hylli. Málefni innflytjenda og flóttamanna hafi lengi verið einhvers konar tabú í umræðunni í Svíþjóð en breyting hefur orðið þar á á undanförnum misserum. Áður fyrr var sem þjóðin væri nokkuð samstíga um stefnuna í þessum málum en það hefur verið að breytast. Svíþjóðardemókratarnir eru í fararbroddi þeirra sem benda á að innflytjendur eigi hér hlut að máli en flokkurinn vill gjörbreyta stefnunni í innflytjendamálum. Það er erfitt að styðja þetta með tölum því frá 2005 hefur ekki verið safnað gögnum um hverjir fremja afbrot, hvort það eru innfæddir eða innflytjendur eða afkomendur þeirra.

Sænskir fjölmiðlar, þá helst Dagens Nyheter, Expressen og Aftonbladet, hafa því tekið að sér að kafa ofan í refsidóma til að geta skýrt frá hverjir fremja afbrotin.

Dagens Nyheter fór til dæmis yfir mál 47 grunaðra og 53 sakfelldra fyrir morð og morðtilraunir með skotvopnum, allt mál sem komu fyrir dómstóla. Niðurstaðan var að annað foreldri gerendanna, hið minnsta, var útlent. Helmingur þeirra fæddist utan Svíþjóðar. Flestar fjölskyldurnar voru frá Norður-Afríku eða Mið-Austurlöndum.

Í maí birti Aftonbladet umfjöllun um hópnauðganir. Farið var í gegnum 58 mál frá 2012 en 112 höfðu verið sakfelldir í þeim. Niðurstaðan var að gerendurnir voru yfirleitt ungir, undir áhrifum vímuefna og þekktu fórnarlambið. En það sem vakti mesta athygli og umtal var að tæplega þrír af hverjum fjórum voru fæddir utan Evrópu.

Í kjölfar umfjöllunar Aftonbladet í maí um gerendur í hópnauðgunarmálum kröfðust margir stjórnmálaflokkar þess að BRÅ myndi aftur byrja að skrá afbrot innflytjenda sérstaklega. BRÅ ætlar að verða við þessu og hefja slíkar skráningar á næsta ári. Hjá stofnuninni eru þó skiptar skoðanir um þetta og sumir telja mikilvægara að rannsaka hvernig hægt sé að hjálpa ungum piltum, sem koma til landsins, að skilja sænskar venjur og gildi.

Er samfélaginu um að kenna?

Flóttamenn í Svíþjóð. Umburðarlyndi Svía virðist vera á undanhaldi

Þessar tölur hafa haft mikil áhrif á umræðuna en afbrotafræðingar og félagsfræðingar höfðu fram að þessu vísað því á bug að menning og erlendur uppruni væri eitthvað sem þyrfti að hafa sérstaklega í huga við rannsóknir á afbrotum. Einn vinsælasti viðmælandi fjölmiðla þegar kemur að umfjöllun um afbrot er afbrotafræðingurinn Jerzy Sarnecki. Aftonbladet hafði eftir honum að hlutfall innflytjenda í afbrotatölfræðinni væri hátt, of hátt, en það væri aðallega vegna þeirra aðstæðna sem þeir búa við í Svíþjóð, til dæmis vegna stéttaskiptingar. Þá taldi hann einnig hugsanlegt að réttarkerfið mismuni þeim og ekki sé útilokað að lögreglan sé viljugri til að rannsaka mál þeirra en innfæddra Svía.

En sífellt fleiri Svíar sætta sig ekki við skýringar sem þessar. Það getur hugsanlega skýrt mikla fylgisaukningu Svíþjóðardemókratanna þessa dagana. Svíar hafa fram að þessu almennt ekki spáð mikið í uppruna fólks, það hefur frekar verið dæmt út frá gerðum sínum en ekki uppruna eða húðlit. En þetta viðhorf gæti verið að breytast vegna umræðunnar um innflytjendur en Svíar hafa tekið við miklum fjölda innflytjenda og flóttamanna á undanförnum árum. Nú er svo komið að mörgum Svíum þykir fáránlegt að tengsl afbrota og fjölgunar innflytjenda séu ekki rannsökuð. Það sé eins og yfirvöld séu í afneitun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“
Eyjan
Í gær

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“
Eyjan
Í gær

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi
Eyjan
Í gær

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“
Eyjan
Í gær

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“
Eyjan
Í gær

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna