fbpx
Eyjan

„Mætti helst ætla að sjávarútvegurinn hafi laðað til sín alveg einstaklega svikult starfsfólk“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 16. ágúst 2018 09:01

Samsett mynd DV

Kolbrún Bergþórsdóttir ritar leiðara Fréttablaðsins í dag, hvar hún fordæmir nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra um myndavélaeftirlit í sjávarútvegi, sem er sagt eiga að sporna við brottkasti og vigtunarsvindli. Tekur hún þar með undir gagnrýni Sambands ungra Sjálfstæðismanna í SUS, sem sögðu frumvarpið skref í átt að eftirlitssamfélagi. Virðist því sótt að Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegsráðherra, úr öllum áttum.

Kolbrún segir að með eftirlitinu séu allir í atvinnugreininni settir undir grun:

„Nauðsynlegt er talið að finna þá einstaklinga sem þetta stunda, en það er víst ekki heiglum hent að hafa uppi á þeim. Sennilega eru þeir bæði lævísir og liprir og kunna vel að felast. Þá er víst ekkert annað til ráða en að hefja umfangsmikla leit að þeim og í því skyni skal ekkert til sparað. Heimilað skal að nota myndavélar og fjarstýrð loftför til að skapa alsjáandi eftirlit. Þannig skal fylgst með öllum þeim sem vinna um borð í veiðiskipum, auk þeirra sem vinna við löndun, flutning og vigtun afla. Þetta er enginn smá hópur og allir innan hans virðast liggja fyrirfram undir grun. Engin önnur skýring getur verið á því að allt þetta fólk skuli vaktað. Af þessu umstangi öllu mætti helst ætla að sjávarútvegurinn hafi laðað til sín alveg einstaklega svikult starfsfólk.“

Ekki geðslegur veruleiki

„Það á ekki að teljast eðlilegt hlutskipti hins vinnandi manns að starfa á stað þar sem fyrirfram er gert ráð fyrir að hann stundi alls kyns blekkingar og svindl. Þar er honum ekki treyst til að vinna vinnu sína og talin er þörf á því að hafa alveg sérstakar gætur á honum. Vitanlega er það best gert með því að hafa hann stöðugt í mynd. Heppilegast er svo að stofnun haldi utan um allt eftirlit. Ekki er víst að ein stofnun anni því og þá gæti auðveldlega þótt ákjósanlegt að bæta við fleiri eftirlitsstofnunum. Ekki er þetta geðslegur veruleiki og fæstir vilja örugglega lifa í honum. Samt er verið að gera tilraun til að festa hann í sessi með frumvarpi.“

Hrollvekjandi frumvarp og forkastanlegt

Kolbrún segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, vel gera sér grein fyrir því að með frumvarpinu sé hann kominn í hlutverk Stóra bróður:

„Velviljaður sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, segir að hugsun hans með frumvarpinu sé alls ekki að skapa eftirlitsþjóðfélag. Kristján Þór er vel upplýstur maður og ætti því að gera sér góða grein fyrir því að þarna er einmitt verið að stíga skref í þá átt. Frumvarpið er ansi hrollvekjandi því þar er gert ráð fyrir að haft sé eftirlit með ákveðnum hópi vinnandi fólks. Eftirlitið er komið í hlutverk Stóra bróður og horfir haukfránum augum yfir sviðið, með aðstoð nútímatækni, í leit að einstaklingum sem hugsanlega geta brotið af sér.

Hugmyndin um öflugt og viðamikið myndavélaeftirlit í sjávarútvegi er vitanlega forkastanleg. Það má spyrja sig hver hafi fengið þessu furðulegu hugmynd, en enn brýnna er að spyrja hvernig hún hafi ratað inn í frumvarpsdrög ráðherra. Var enginn þátttakandi í þessari vegferð sem fylltist efasemdum um réttmæti slíks eftirlits og sagði: Augnablik, eigum við ekki að íhuga hvort við séum þarna á réttri leið? Hið augljósa svar er að með frumvarpinu eru menn á afar vafasamri vegferð – og er þá vægt til orða tekið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 18 klukkutímum

Alvarlegar aðfinnslur gerðar á starfssemi Samgöngustofu: „Full þörf á að ljúka þessari vinnu“

Alvarlegar aðfinnslur gerðar á starfssemi Samgöngustofu: „Full þörf á að ljúka þessari vinnu“
Eyjan
Fyrir 20 klukkutímum

Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða fríhöfnina í Leifsstöð

Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæða fríhöfnina í Leifsstöð
Eyjan
Fyrir 20 klukkutímum

Leiguverð í Reykjavík hærra en í höfuðborgum nágrannalanda

Leiguverð í Reykjavík hærra en í höfuðborgum nágrannalanda
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta er dýrasti þingflokkurinn

Þetta er dýrasti þingflokkurinn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hin endalausu Brexit-vandræði

Hin endalausu Brexit-vandræði