fbpx
Eyjan

Upp með veskið – Samgönguráðherra boðar vegatolla

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 14. ágúst 2018 08:37

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgangna- og sveitastjórnarmála

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, skrifar pistil í Fréttablaðið í dag, hvar hann fjallar um vegakerfið á Íslandi og þá miklu viðhaldsþörf sem það krefst eftir stórfelldan niðurskurð á liðnum árum. Hann segir að ein þeirra leiða sem séu í skoðun til fjármögnunar séu vegatollar, sem nú heitir hinu viðmótsþýða nafni „notendagjald“ sem þýðir í raun aukna skattheimtu á almenning:

„Aukinni umferð fylgir aukinn kostnaður. Á síðustu árum hafa framlög til vegakerfisins verið í öfugu hlutfalli við fjölda notenda og ekna kílómetra á vegum. Afleiðing þess er að ýmsar brýnar framkvæmdir til að auka umferðaröryggi, hafa setið á hakanum. Hægt yrði að tvöfalda þá upphæð sem rynni til vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum, s.s. brúm og göngum. Það er ein þeirra leiða sem eru í skoðun til að tryggja aukið fjármagn í vegakerfið til framtíðar – til hagsbóta fyrir okkur öll.“

Sigurður Ingi segir að umferð um hringveginn hafi aukist um 30 prósent  á síðustu tíu árum, að mestu vegna aukins ferðamannastraums, en vegakerfið á Íslandi er um 12.000 kílómetrar. Á sama tíma hafi vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð, sé víða laskað og þörfin á viðhaldi og þjónustu sé mikil:

„Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.“

Sigurður Ingi þverneitaði í upphafi kjörtímabilsins að hann hyggðist beita vegtollum, sem forveri hans, Jón Gunnarsson hafði lagt til í síðustu ríkisstjórn. Síðan hefur málið þróast hægt og rólega í aðra átt og í strax í janúar vildi Sigurður Ingi ekki útiloka slík gjöld.

Sigurður Ingi fer því gegn stefnu síns eigin flokks verði af vegtollum, veggjöldum eða notendagjöldum, þar semFramsóknarflokkurinn talaði gegn slíkri skattheimtu í kosningabaráttu sinni. Þá er ekkert minnst á slík gjöld í stjórnarsáttmálanum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þeir eru dýrustu þingmennirnir

Þeir eru dýrustu þingmennirnir
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hversu vel þekkir þú íslensk stjórnmál? – Taktu prófið!

Hversu vel þekkir þú íslensk stjórnmál? – Taktu prófið!