fbpx
Föstudagur 14.desember 2018
Eyjan

Segir Snorra hafa „misnotað“ kirkjuna: „Það eru þessi skemmdu epli sem skemma fyrir öðrum“ – Ætlar ekki að biðjast afsökunar

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 7. ágúst 2018 08:28

Snorri Ásmundsson

Listamaðurinn Snorri Ásmundsson framkvæmdi gjörning í Hríseyjarkirkju á föstudag, hvar hann klæddi sig í tvo messuskrúða úr kirkjunni, steig í predikunarstólinn og ræddi um sjálfan sig við um 30 gesti kirkjunnar. Þá gæddi hann sér á Prins póló súkkulaði og bað gesti um að syngja með sér Ó Jesú bróðir besti og Bjart er yfir Betlehem, við undirleik Snorra sjálfs á píanó og orgel. Fréttablaðið greinir frá.

„Við getum öll orðið ljósberar. Bara að elska, elska. Elskaðu móður þína, elskaðu föður þinn, elskaðu börnin þín. Bara elska allt saman, þá líður okkur svo vel,“

sagði Snorri meðal annars og vonaðist til að fá að halda fleiri messur á öðrum stöðum.

Hér má sjá myndband af Facebook-síðu Snorra, en viðburðinum var streymt í beinni útsendingu á Facebooksíðu hans á föstudag:

 

Kirkjan mun hætta að treysta fólki

Narfi Björgvinsson, formaður sóknarnefndar í Hrísey, segir að Snorri hafi misnotað kirkjuna og nú sé því ekki lengur hægt að lána kirkjuna út til tónleika eins og tíðkast hafi til þessa.

„Okkur þykir leitt að fólk skuli misnota kirkjuna.Við höfum lánað kirkjuna fólki sem hefur komið og haft notalega tónleika. Ég kveikti ekki á þessu nafni, Snorri Ásmundsson, þegar ég sagði já. Hann fer þarna í messuklæði og annað sem hann hafði engin leyfi til að gera og eiginlega dettur engum í hug að gera. Sennilega er tilgangurinn að stuða.“

Narfi segist ekki hafa leyft slíkan gjörning, hann hafði haldið að um tónleika væri að ræða:

 „Jáið var við tónleikum en þetta voru engir tónleikar og ekkert í ætt við neitt svoleiðis. Það er hægt að teygja það og toga að það þurfi að hreinsa þessi klæði. En ég ætla ekki að segja að hann hafi eyðilagt neitt. Sennilega stendur næst okkur að sýna fyrirgefningu. Þetta verður náttúrlega til þess að það er ekki hægt að treysta neinum. Ef einhverjir óska eftir afnotum þá þarf það að vera undir einhverjum öðrum formerkjum heldur en við höfum gert; að treysta fólki. Það eru þessi skemmdu epli sem skemma fyrir öðrum.“

Finnur ekki ástæðu til þess að biðjast afsökunar

Snorri hefur tjáð sig á Facebook um að eyjaskeggjar séu ósáttir við gjörning hans. Honum finnst sem að boðskapur Jesú sé misskilinn:

„Fallega messan mín hefur sært fjölda Hríseyinga og eitthvað finnst mér þau vera að misskilja boðskap Jesú. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að biðja þetta blessaða fólk afsökunar en ég bara finn ekki ástæðu til þess. Jesús var með mér í messunni og honum fannst gaman. En ég hef samt ákveðið að gefa þessu fólki í Hrísey 50% afslátt af aflátsbréfunum mínum.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af