fbpx
Föstudagur 14.desember 2018
Eyjan

Segir að aðalvandi húsnæðislausra sé sá að enginn vilji hafa þá nálægt sér

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 4. ágúst 2018 09:36

Að mati Óttars Guðmundssonar geðlæknis er aðalvandi húsnæðislausra sá að enginn vill hafa útigangsmenn, sem eru hluti þeirra, nálægt sér. Segir hann að forðast sé að ræða þetta vandamál á fundum borgarstjórnar þar sem reynt er að finna lausnir á vanda húsnæðislausri.

Þetta kemur fram í pistli Óttars í Fréttablaðinu í dag. Þar segir:

Borgarstjórn Reykjavíkur hélt í vikunni fund um málefni húsnæðislausra og útgangsmanna í borginni. Engar skyndilausnir virtust í sjónmáli enda um flókinn vanda að ræða. Allir eru sammála um að útigangsmenn verði einhvers staðar að eiga höfði sínu að halla en enginn vill hafa slíkt athvarf í sínu nágrenni. Lengi vel var rekin næturgisting í gamla Farsóttarhúsinu við Þingholtsstræti en þetta voru engir aufúsugestir. Aðrir íbúar kvörtuðu undan óþrifum og alls kyns ágangi og sama er uppi á teningnum varðandi athvarf útigangsmanna við Lindargötu. Starfsmenn borgarinnar eru því að reyna að finna húsnæði sem liggur í alfaraleið en er án nágranna sem fetta fingur út í starfsemina. Umræða í borgarstjórn var skemmtileg og tilfinningarík. Mönnum tókst þó að sneiða hjá að tala um aðalvandamálið sem er að enginn vill hafa þessa starfsemi næst sér.

Óttar segir að allir vilji koma upp athvörfum fyrir heimilislausa annars staðar en þar sem þeir sjálfir búa:

Íbúar miðbæjarins vilja gjarnan sjá sem flest athvörf fyrir heimilislausa í Breiðholtinu en Breiðholtsbúar vilja hafa þetta fólk í Grafarvoginum. Fulltrúar allra annarra sveitarfélaga landsins eru sammála um að þessi starfsemi eigi að vera í Reykjavík en ekki á heimaslóðum. Ætli þeir endi ekki á því að byggja gistiskýli úti í Viðey eða Engey sem liggja innan seilingar en eru lausar við leiðindaseggi í næstu húsum?

Smíða athvarf úr orðaflaumi

Óttar hæðist að málæði og orðskrúði þeirra sem um véla án þess að þeir ræði kjarna málsins. Segir mann menn vilja smíða athvarf úr orðaflaumi:

Menn kölluðu eftir ýmsum óhefðbundnum lausnum eins og „óhagnaðartengdu leiguhúsnæði“. Þetta er skemmtilegt nýyrði þar sem forskeytinu ó er ætlað að umbreyta merkingu orðsins. Óhagnaður er þó ekki skilgreindur sem tap heldur sem enginn gróði. Óhúsnæðislaus maður væri á sama hátt einstaklingur með húsnæði. Þessi gagnmerki og óþýðingarlausi fundur borgarstjórnar einkenndist því af ólausnum þar sem menn sýndu óskilning á eðli vandans. Það er huggun fyrir útigangsmenn að menn hafa fullan vilja til að ræða málin og smíða glæsilegt athvarf úr orðaflaumnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af