fbpx
Föstudagur 18.janúar 2019
Eyjan

Davíð Snær var rekinn fyrir að birta grein um kynjafræði: „Ég lít á þetta mál sem eitt stórt samsæri“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 4. ágúst 2018 13:14

Davíð Snær Jónsson

Það vakti nokkra athygli fyrir skömmu er Davíð Snær Jónsson var rekinn úr embætti sínu sem formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) vegna greinar sem hann birti um kynjafræði í Fréttablaðinu og Vísir.is. Þar lýsti hann yfir ákveðnum efasemdum um að rétt væri að gera kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum. Í kjölfar birtingar greinarinnar vísaði stjórn sambandsins Davíð úr embætti þar sem skrifin gengju gegn stefnu stjórnarinnar varðandi kynjafræði og greinin hafi verið birt í óþökk framkvæmdastjórnar sambandsins. Í tilkynningu frá SÍF kom fram að Davíð hefði ítrekað virt kröfur um samþykki stjórnarinnar fyrir birtingu greinarinnar að vettugi (Sjá Vísir.is).

Davíð hefur nú birt grein um málið þar sem hann heldur því fram að brottvikning hans sé lögleysa. Til dæmis hafi fundargerð um greinaskrif stjórnarmanna og birtingarmynd þeirra í fjölmiðlum sem vísað er til varðandi brottvikningu hans aldrei verið samþykkt og tilheyri því ekki vinnureglum sambandsins.

Enn fremur segir Davíð:

„Í greininni greini ég aldrei frá þeirri skoðun að ég sé á móti því að gera kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum, sem er samþykkt stefna SÍF. Hins vegar skrifaði ég að „kynjafræði væri ekki töfralausnin til þess að ná árangri á sviði jafnréttismála“ og að sem dæmi væri „hægt að láta nemendafélög og skólayfirvöld vinna saman að ýmsum verkefnum tengdum jafnrétti, í stað þess að skylda alla að nema pólitíska hugmyndafræði.“ Í greininni tala ég aldrei á móti samþykktri stefnu SÍF, þó sumir geta smíðað sér ályktanir út frá greininni. Hins vegar vek ég upp ýmsar spurningar um t.d. gildi kynjafræðinnar og hvort kynjafræðin sé ekki byggð á pólitískri hugmyndafræði. Ef ekki má spyrja spurninga sem þessar, má álykta að allar skoðanir og spurningar um stefnumál SÍF séu með öllu ólögmætar og teljist brot á lögum sambandsins, og þeir sem gerast brotlegir, skulu þá víkja úr störfum.“

Gjaldkerinn sagði af sér

Davíð upplýsir við DV að málið hafi leitt til þess að gjaldkeri SÍF hafi sagt af sér. Davíð segir í samtali við DV:

„Ég sendi leiðréttingarbréf á framkvæmdarstjórn í gær og skrifaði um það grein sem var birt á Vísi og Fréttablaðinu. Í kjölfar bréfsins sem ég sendi á framkvæmdastjórn segir síðan gjaldkeri félagsins af sér og sakar stjórnina í vanhæfi í stjórnarháttum.“

Aðspurður um hvort möguleiki sé á að ákvörðun um brottvísun hans verið tekin til baka eftir þessi tíðindi segir Davíð:

„Ég sé ekki fram á það, enda engin prinsipp virt hjá sitjandi stjórnarmönnum. Það yrði þeim afar erfitt að stíga úr þessum villta dansi.“

Nokkuð athyglisvert er að Davíð álítur brottvikningu sína ekki vera brot á tjáningarfrelsi. Hins vegar sé þetta afar illa ígrunduð ákvörðun og um sé að ræða samsæri af hálfu stjórnarinnar:

„Ég lít á þetta mál sem eitt stórt samsæri af hálfu meirihluta framkvæmdastjórnar SÍF. Brottvísunin er í sjálfu sér ekki brot á tjáningarfrelsi einstaklings, þó eftirmálar greinaskrifanna geti þótt undarlegir í augum almennings. Brottvísunin er fyrst og fremst illa ígrunduð og tilefnislítil. Viðbrögð stjórnarinnar við greininni eru vægast sagt öfgafull.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum