fbpx
Föstudagur 14.desember 2018
Eyjan

Sólveig Anna gefur lítið fyrir tal um stöðugleika: „Þetta er hræðsluáróður þeirra sem vilja viðhalda þessu ástandi“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 2. ágúst 2018 12:00

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Mynd:DV/Sigtryggur Ari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir allt tal um stöðugleika vera hræðsluáróður þeirra sem séu með margföld lágmarkslaun. Í pistli sem Sólveig Anna skrifar á vef Eflingar gefur hún lítið fyrir fullyrðingar um að svigrúm til almennra launahækkana sé lítið þar sem alltaf sé til svigrúm til launahækkana hjá þeim sem Sólveig Anna kallar „yfirstétt undir verndarvæng stjórnkerfisins“. Vitnar hún í viðtal við Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akranes, við Vísi þar sem hann rakti spá Samtaka atvinnulífsins um 20% verðbólgu í kjölfar launahækkana árið 2015 þegar raunin varð 2% verðbólga.

Bjarni Benediktsson gaf lítið fyrir fullyrðingar Vilhjálms í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni og sagði slíkt tal vera gegn betri vitund: „Það er auðvitað með ólík­ind­um að heyra verka­lýðsleiðtoga að því er virðist tala gegn betri vit­und um að það sé svig­rúm á al­menna markaðnum til tuga pró­senta launa­hækk­ana – kannski 20-30% launa­hækk­ana – og af því að það hafi ekki skilað verðbólgu í fortíðinni muni það ekki gera það í framtíðinni. Það er mjög und­ar­legt að hlusta á svona tal,“ sagði Bjarni.

Sólveig Anna segir að þessi skortur á svigrúmi til almennra launahækkana sé meðal þess sem fái verkafólk til að upplifa að kerfið sé útbúið til að svína á sér. Hér sé efnahagsleg forréttindastétt sem uppsker í uppsveiflum og fái afskrifað í kreppu eða fari með fé úr landi:

„Við sjáum á hverjum degi hversu einbeitt þau eru í að slá hvergi af sínum kröfum um auðæfi og völd sem má til að mynda sjá í því mikla „svigrúmi“ sem er til staðar fyrir ótrúlegar hækkanir hjá þeim sem lifa og starfa undir þeim verndarvæng sem stjórnkerfið heldur yfir sinni eigin yfirstétt. Á sama tíma hika þau aldrei við að krefja lágtekjuhópana um að gæta hófsemdar og stillingar. Efnahagslegir forréttindahópar hafa aðskilið sig frá viðmiðum alls almennings um hvað telst vera eðlilegt,“ segir Sólveig Anna.

Segir hún að leiðbeinendur á leikskólum Reykjavíkurborgar séu að meðaltali með 354.000 kr. í heildarlaun fyrir fullt starf og þurfi að vinna aðra vinnu til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. Með því að taka undir með hálaunafólki séu stjórnvöld að bregðast verka- og láglaunafólki: „Í stað þess að viðurkenna grundvallarmikilvægi okkar í efnahagskerfinu, í stað þess að viðurkenna að án vinnu okkar er það efnahagskerfi sem við lifum í steindautt, að án okkar hætta hjólin að snúast samstundis, hafa stjórnmálin tekið þátt í verkefni nýfrjálshyggjunnar um að „heilbrigðu efnahagslífi“ verði aðeins viðhaldið með því að láta þau sem tilheyra lægri stéttum samfélagsins halda áfram að axla það óréttlæti sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af