fbpx
Föstudagur 14.desember 2018
Eyjan

Gistinætur ferðamanna standa nánast í stað milli ára – Nýtingin best á Suðurnesjum

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 1. ágúst 2018 17:30

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í júní síðastliðnum voru 1.188.600, en þær voru 1.195.000 í sama mánuði árið áður. Standa þær nánast í stað á milli ára.

Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti í dag.

Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að gistinætur á hótelum og gistiheimilum hafi verið 589.200, gistinætur á öðrum tegundum gististaða (svo sem farfuglaheimilum, svefnpokaplássi og tjaldsvæðum) voru 408.600, og 190.800 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Til viðbótar voru gistinætur erlendra ferðamanna utan hefðbundinna gististaða áætlaðar 55.400 í júní. Þar af voru 26.600 í bílum utan tjaldsvæða og 28.800 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 4% í júní

Gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 410.800, sem er 4% aukning frá sama mánuði árið áður. Um 54% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 221.300.

Um 90% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 369.100. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (131.200), síðan Þjóðverjar (43.900) og Bretar (31.300), en gistinætur Íslendinga voru 41.600.

78% nýting herbergja á hótelum í júní

Herbergjanýting í júní 2018 var 77,7%, sem er lækkun um 3,2 prósentustig frá júní 2017 þegar hún var 80,9%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,5% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í júní var best á Suðurnesjum, eða 84,7%.

Tölur fyrir 2017 og 2018 eru bráðabirgðatölur. Unnið er að endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta 2017 en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af