fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Hafnaboltinn á Fenway-vellinum – og hrækingar í ýmsum íþróttum

Egill Helgason
Þriðjudaginn 31. júlí 2018 04:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hérna rétt hjá þar sem ég held til núna í Boston er frægur leikvangur, Fenway Park. Þetta er heimavöllur hafnaboltaliðsins Red Sox. Völlurinn rekur sögu sína aftur til 1912 og það var John F. Fitzgerald, þáverandi borgarstjóri Boston sem vígði hann með því að henda fyrsta boltanum. Hann var líka afi nafna síns, Johns F. Kennedy, sem varð forseti Bandaríkjanna. Red Sox liðið hefur unnið marga titla í heimsmeistarakeppninni eða World Series eins og það er kallað í Bandaríkjunum, fá lið eru sigursælli.

Það er leikið stíft yfir sumarið. Dag eftir dag streyma áhorfendur í átt að Fenway Park, íklæddir búningum og litum félagsins, mér sýnist leikvangurinn yfirleitt vera fullur. Þetta er mikil stofnun hér í bæ. Í kvöld var leikið við Philadelphia Phillies. Boston vann – liðinu gengur afar vel þessa dagana. Þess má geta að eigandi Red Sox er John William Henry II, en hann er einnig eigandi enska fótboltaliðsins Liverpool.

Þegar ég var hérna í fyrra ók John W. Henry framhjá mér í rauðum sportbíl með opnu þaki. Hann getur verið ánægður, það gengur líka þokkalega hjá Liverpool.

Ég hef samt aldrei komið inn á Fenway Park. Stundum eru haldir þarna tónleikar – Foo Fighters léku þar um daginn. Pearl Jam eftir nokkrar vikur. Springsteen hefur spilað þarna og Rolling Stones. Mér hefur ekki litist á að að fara á hafnaboltaleik. Mér er sagt að þeir séu mjög langir og það gerist afar lítið – geti jafnvel staðið í fimm klukkutíma. Ég held það sé líka nokkuð erfitt að skilja reglurnar, út á hvað leikurinn gengur. Það er ógurlega mikil tölfræði í kringum hafnaboltann og honum fylgir tungutak sem maður botnar ekkert í. Sérfræðingar geta setið í sjónvarpi og rætt leikinn og tölfræðina tímunum saman. Það eru til sjónvarpsrásir sem ganga eiginlega ekki út á neitt annað.

En svo skilst mér að fyrir áhorfendurna snúist hafnaboltaleikir aðallega um að innbyrða mikið af vökva, einkum bjór, og éta pylsur. Það eru meira að segja til sérstakar Fenway-pylsur.

 

 

En það er eitthvað notalegt við hafnaboltann. Leikmennirnir eru í gamaldags og fallegum búningum. Þeir virðast komast upp með að vera ansi þungir sumir  Að minnst kosti eru þeir ekkert sérlega mjóir að sjá í búningunum.. Það er engin snerting í leiknum og mjög erfitt að meiða andstæðinginn – ólíkt því sem gerist í hinum andstyggilega ameríska fótbolta þar sem heilsutjón er útbreitt meðal leikmanna og endingartími þeirra mjög stuttur. Hafnaboltamenn geta spilað langt fram eftir aldri. Þetta er líka íþrótt sem fjölskyldur leika heima á grasflötum – þær eru ófáar bíómyndirnar sem maður hefur séð sem tengjast hafnabolta, feður og synir að henda á milli sín bolta. Það er fátt amerískara en þessi íþrótt – á góðan hátt.

Það er þó eitt sem hefur vakið athygli mína þegar ég kíki aðeins á hafnabolta í sjónvarpi. Leikmennirnir eru sífellt hrækjandi. Ég ýki ekki, manni sýnist að einhver hræki á inna við mínútu fresti. Það er meira hrækt í hafnabolta en í knattspyrnuni – og oft hafa manni ofboðið hrækingarnar þar, til dæmis þegar leikmaður er nýkominn inn á og strax byrjaður að skyrpa í allar áttir. Eða þegar stórstjarna eins og Messi er allt í einu farinn að skyrpa á grasið.

Ég fór að furða mig á þessu, skrítið að þetta eigi sér stað í svo mikilli fjölskylduíþrótt. Nú er það ekki svo hérna vestra að fólk gangi almennt um hrækjandi á göturnar. Hér eins og víðast þykir þetta mikill ósiður. Svo ég fór að gúgla. Komst að því að þetta á rætur að rekja til útbreiddrar munntóbaksnotkunar í hafnaboltanum á árum áður. En svo fékk tóbakið á sig vont orð og því var útrýmt. Þá voru góð ráð dýr, leikmennirnir voru vanir að stytta sér stundir í hinum löngu leikjum með því að tyggja eitthvað. Í stað tóbaksins var farið að koma með fötur með sólblómafræjum, tyggigúmíi og sælgæti. Þessi siður mun hafa haldist. Og þótt margir hneykslist á hrækingunum, eins og sjá má á alnetinu, þá halda þær áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Ég nefndi hina nánu samleið knattspyrnu og hrækinga en í öðrum íþróttum er þettta illa séð. Tennisleikari mun varla komast upp með að hrækja á völlinn. Og hrækingar tíðkast yfirleitt ekki í íþróttum sem eru leiknar innan dyra – sem sýnir kannski að það er engin bein þörf sem skýrir hrækingar í sumum íþróttum. Golf er íþrótt sem er leikin á fallegum grasflötum og iðkendur hennar klæðast vönduðum og yfirleitt vel pressuðum fötum. Golfvellir eru svo stórir að maður skyldi ímynda sér að kylfingar geti laumast til að hrækja svo lítið beri á. En það þykir ekki góð latína. Á golfmóti 2011 varð uppi fótur og fit þegar Tiger Woods skyrpti á völl í Dubai. Og fyrir vikið þurfti hann að borga nokkuð háa sekt.

Hér er svo sena úr gamanmyndinni frægu Naked Gun. Þar er skopast með hrækingar í hafnabolta.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2