fbpx
Fimmtudagur 21.febrúar 2019
Eyjan

Ekki í verkahring Steingríms að snupra þingmenn eða biðja afsökunar á framgöngu þeirra

Egill Helgason
Föstudaginn 20. júlí 2018 19:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steingrímur J. Sigfússon er farinn að harma það í dönskum fjölmiðlum, að sumum þingmönnum hafi verið ofboðið vegna komu Piu Kjærsgaard á fullveldishátíðina á miðvikudaginn. Hann er semsagt í senn farinn að snupra íslenska þingmenn á erlendum vettvangi og um leið má segja að hann sé að biðja afsökunar á framferði þeirra.

Þetta er satt að segja dálítið skrítin hegðun hjá þingforseta. Hann hefur það hlutverk að gæta þess að þingfundir fari rétt og skipulega fram og að starfsaðstaða þingmanna sé nægilega góð. Hann er nokkurs konar upphafinn fundarstjóri og húsvörður í senn. En það er ekki í verkahring hans að túlka skoðanir þingmanna eða með hvaða hætti þær birtast. Forseti þingsins hefur nákvæmlega ekkert um það að segja.

Steingrímur virðist vera sármóðgaður yfir viðtökunum sem Pia Kjærsgaard fékk.En það þarf ekki að hafa mikið pólitískt nef – eða eigum við frekar að nota orðið þefvísi – til að sjá að aldrei hefði getað orðið friður um opinbera heimsókn svo umdeilds stjórnmálamanns til Íslands. Hvað þá þegar hún er sett á pall á Þingvöllum við hiðina á sjálfum Guðna forseta – sem hefur af fremsta megni reynt að vera fulltrúi  mannréttinda, umburðarlyndis og fjálsræðis í orði og æði.

Það virðist hafa orðið gríðarlegt kappsmál hjá stjórnendum þingsins að halda hátíð í tilefni fullveldisins þar sem þingið er aðal. Það var valin þessi dagsetning, 18. júlí, sem enginn kannast við að hafi sérstaka merkingu, og svo haldinn þingfundur úti í móa á Þingvöllum – á miðjum vinnudegi þegar var ekki að vænta neinna gesta úr hópi almennings. Leikurinn var heldur ekki gerður til þess, heldur átti þetta að vera skrautsýning þingsins, með tilheyrandi göngutúr niður annars lokaða Almannagjá.

Þingmönnum var ekið austur á Þingvelli í rútum – með í för voru ökutæki frá lögreglunni með blikkandi sírenur. Heiðursgestir í limósínum í bílalestinni.

Allt mistókst þetta heldur illilega og bar vott um mikinn skort á tengingu við líf og veruleika almennings. Hugmyndaleysi er kannski partur af því; það er ekki erfitt að láta sér detta í hug ýmislegt skemmtilegt sem hefði mátt gera í staðinn. Eitt af því var ekki að bjóða senuþjófinum Piu Kjærsgaard. Áhrif hennar voru þau, og það gat ekki farið öðruvísi, að hátíðin leystist upp í deilur sem voru um síðar orðnar að þrasi um innflytjendamál – sem barst alla leið á síður Extrablaðsins og slíkra fjölmiðla í Danmörku.

Kannski var þó gagnlegt að við vorum minnt á það í öllu fárinu Íslendingar að við stöndum okkur ekki sérlega vel í innflytjendamálum og höfum ekki úr háum söðli að detta þar? En það var ábyggilega ekki tilgangur Steingríms og Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.

Pia Kjærsgaard  er þekkt fyrir ýmislegt annað en háttvísi og um síðir var hún svo farin að hrauna yfir íslensku þingmennina sem tóku henni ekki fagnandi. Sakaði meðal annars Pírata um að vera með unglingaveiki. Það er ekki við öðru að búast af þessari konu sem hefur tröllriðið dönskum stjórnmálum í meira en tvo áratugi. Fas heiðursgesta er henni heldur framandi.

En það versnar í því þegar Steingrímur J. Sigfússon fer að taka undir slíkan málflutning – snupra þingmenn fyrir afstöðu þeirra eða biðja afsökunar á framgöngu þeirra. Eins og segir fyrr er það einfaldlega ekki hluti af verkefnum þess fundarstjóra sem þingforseti er. Og það að vera ósáttur við þennan tiltekna stjórnmálamann getur ekki verið móðgun við Dani á neinn hátt. Það er alveg víst að skoðanasystkini Steingríms á vinstri væng stjórnmálanna í Danmörku upplifa það ekki þannig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“

Vilhjálmur: „Ég vona að launafólk fyrirgefi mér“
Eyjan
Í gær

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“

Minnihlutinn stormaði út: „Það er algert fundarofbeldi í borgarstjórn“
Eyjan
Í gær

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi

Verkalýðsforystan nýtur stuðnings frá Alþingi
Eyjan
Í gær

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“

Inga Sæland um Klaustursmálið: „Þetta var kjaftshögg og maður í rauninni vildi ekki trúa því að þeir væru að svíkja okkur“
Eyjan
Í gær

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“

Dugnaður Björns Leví sagður skaðlegur: „Vanhugsaðar lýðskrumstillögur“
Eyjan
Í gær

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“

Vilhjálmur sótillur og rauk af sáttafundi: „Ég gat ekki setið þarna inni leng­ur“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“

Krónan braut verkferla um matarsóun: „Þetta stingur í hjartað“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna

Þórólfur hyggst sækja um forstjórastöðuna