fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Staðfest að Steingrímur tók ákvörðunina um Piu Kjærsgaard – Kynnt með dags fyrirvara – „Óeðlileg vinnubrögð“ segir þingmaður

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 18. júlí 2018 14:45

Steingrímur J. Sigfússon og Pia Kjærsgaard í Kaupmannahöfn í apríl.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, er án efa ein umdeildasta kona landsins um þessar mundir. Ákvörðunin um að fá hana til að flytja hátíðarræðu á Þingvallafundi Alþingis í dag, í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands, hefur farið fyrir brjóstið á mörgum, vegna andstöðu hennar við innflytjendur. Þingflokkur Pírata ætlar til dæmis að sniðganga fundinn af þessum sökum.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, situr í forsætisnefnd Alþingis. Hann segir alveg ljóst að það sé Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sem beri ábyrgð á komu Piu en Jón Þór segir alla ákvörðunartöku í málinu óeðlilega:

„Ég hef farið gegnum allar fundargerðir forsætisnefndar og þar er hvergi minnst á Piu, nema fyrst í gær, degi fyrir hátíðarhöldin. Það er mjög óeðlilegt að forsætisnefnd sé tilkynnt um svo stóra ákvörðun með dags fyrirvara, ekki síst með hliðsjón af því að það er nú ekki á hverjum degi sem erlendur aðili talar á Alþingi Íslendinga, en um það gilda stífar reglur. Til samanburðar má nefna að þegar þingforseti sænska þingsins ákvað að koma hingað til lands í boði Alþingis þá var forsætisnefnd upplýst um það með tveggja vikna fyrirvara, þann 19. janúar, en þó hafði sá þingforseti ekkert hlutverk sem slíkt hér á landi. Þetta eru því mjög óeðlileg vinnubrögð,“

sagði Jón Þór við Eyjuna.

Vinnubrögðin af yfirlögðu ráði

Á vef Alþingis er minnst á komu Piu þann 20. apríl, í frétt sem fjallar um heimsókn Steingríms J. Sigfússonar til Kaupmannahafnar, hvar hann átti fund með Piu.

Jón Þór segist spyrja sig hvers vegna ákvörðunin sé kynnt með þessum hætti til forsætisnefndar, með dags fyrirvara:

„Forseti Alþingis sá ekki ástæðu til að nefna eða upplýsa forsætisnefnd sérstaklega um þetta mál, nema með dags fyrirvara. Þá spyr maður sig hvers vegna ? Vissi Steingrímur ekki að þetta yrði gert að bitbeini ? Að taka þessa ákvörðun fyrir mörgum mánuðum en tilkynna ekki um það fyrr en rétt deginum áður er afar sérstakt. Það virðist eins og að það hafi ekki átt að segja neinum frá þessu nema deginum áður, því vitað væri að það yrði mikil andstaða við Piu og ef fólk vissi af þessu með fyrirvara, hefði þurft að bakka með þessa ákvörðun. En alltaf væri hægt að benda á þá ´fjarvistarsönnun´ að fréttin hafi verið birt á vef Alþingis. Í rauninni er þetta bara þannig, að ekkert er verið að láta vita fyrr en það er of seint að bregðast við því, þannig liggur þetta fyrir mér.“

Jón Þór útilokar að um yfirsjón Steingríms sé að ræða:

„Ég trúi ekki öðru en að Steingrímur J. Sigfússon viti af hennar stjórnmálaskoðunum. Þessi kona er enginn nýgræðingur í stjórnmálum.“

Ekki hér sem einstaklingur-Málið blásið upp

Steingrímur sagði við RÚV eftir hádegið, að Pia væri stödd hér sem í krafti embættis síns, en ekki sem einstaklingur og því ætti ekki að blása málið upp

„Hún er ekki boðin hingað sem einstaklingur eða stjórnmálamaður og þaðan af síður vegna skoðana sinna. Hún er forseti danska þingsins og er hérna í krafti embættis síns.Við skulum minnast þess að þetta voru samningar milli þjóðanna og þjóðþingin léku þar lykilhlutverk. Þannig að það er forseti danska þingsins fyrir hönd gagnaðila að sambandslagasamningnum sem á þar í hlut en ekki einstaklingurinn Pia Kjærsgaard og mér þykir miður að fólk sé að blása upp málið á öðrum forsendum en þeim,“

sagði Steingrímur.

Í ræðu sinni á Þingvallafundinum í dag, sagði Steingrímur um Piu:

„Það er því Alþingi mikill heiður, að hafa hér forseta danska þjóðþingsins“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus