fbpx
Föstudagur 18.janúar 2019
Eyjan

Klúðrið að leyfa fullveldishátíð að snúast um Piu Kjærsgaard – og ímyndaðar móðganir gagnvart Dönum

Egill Helgason
Miðvikudaginn 18. júlí 2018 21:44

Ég segi eins og er að mér er frekar illa við tal um stjórnmálaelítu og stjórnmálastétt. Það gerir lítið úr stjórnmálunum, gengur út á að sami rassinn sé undir öllum stjórnmálamönnum sem gangi það helst til að skara eld að eigin köku. En staðreyndin er sú að alls konar fólk fer í stjórnmál. Það staldrar mislengi við. Það er heldur ekki hægt að segja að stjórnmál séu endilega eftirsóknarverður starfsvettvangur.

Tal um stjórnmálastétt er líka vatn á myllu pópúlista og þeirra sem hafa horn í síðu lýðræðisins.

En það er samt dálítið erfitt að nota ekki þessi orð um fullveldishátíðina í dag. Firringin frá almenningi, kjósendum, virðist svo himinhrópandi. Það er reistur pallur undir þingfund úti í móa á Þingvöllum. Þaðan er sjónvarpað. Það eru settar fram fyrirskipanir um hvernig umferð skuli háttað á svæðinu, líkt og búist sé við gríðarlegum fjölda fólks til að fylgjast með þingfundinum.

En staðreyndin er sú að það kom hérumbil enginn. Tölur frá Vegagerðinni munu sýna að það var minni umferð til og frá Þingvöllum í dag en í gær. Það leiðir hugann að tímasetningunni. Oft er kvartað undan því hversu Alþingi er mikið í fríi. En dagurinn sem var valinn undir hátíðina á Þingvöllum er miðvikudagur klukkan 2. Þetta er almennur vinnudagur. Margir kæmust ekki þótt þeir vildu.

Þá flögrar að manni að „stjórnmálaelítan“ hafi ekki viljað fá almenning á þessa samkomu. Honum er auðvitað ekki heldur boðið í veisluna sem er í kvöld.

Og þá víkur sögunni að heiðursgestinum, Piu Kjærsgaard. Pólitískt séð er Kjærsgaard í hópi með stjórnmálamönnum eins og Marine le Pen, Matteo Salvini Geert Wilders, Jimmie Åkesson, Victor Orbán og Donald Trump. Það hefur meira að segja fallið hæstaréttardómur í Danmörku um að heimilt sé að kalla Kjærsgaard rasista.

Það mátti hverjum manni vera ljóst að ef Kjærsgaard kæmi hingað myndi hátíðin fara að snúast um hana. Annað er óhugsandi. Það má í raun segja að hún hafi eyðilagt hátíðarhöldin í dag. Hún er það sem verður munað frá þessum degi og það er stórundarlegt að skipuleggjendur hátíðarinnar hér heima hafi leyft þessu að gerast.

Varla var það forgangsatriði í þessu öllu að móðga ekki Kjærsgaard eða hugsanlega danska þingið og  – sem maður reyndar stórefast um að hefði móðgast ef beðið hefði verið um annan ræðumann. Hvað þá danska þjóðin! Getur það virkilega verið satt að þingheimur hafi almennt ekki vitað að hún yrði þarna í aðalhlutverki? Hér segir að Steingrímur J. Sigfússon hafi tekið ákvörðunina um Kjærsgaard og tilkynnt hana með dags fyrirvara.

Og því miður er voða erfitt að tala um þetta öðruvísi en að þarna hafi verið að verki stjórnmálastétt – úr tengslum við allt og alla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum