fbpx
Föstudagur 18.janúar 2019
Eyjan

Sjónvarpið og heimsmeistaramótin – næst verður leikið á jólunum

Egill Helgason
Sunnudaginn 15. júlí 2018 18:32

Fyrsti úrslitaleikurinn í heimsmeistarakeppni sem ég man eftir var 1966. Þá léku Englendingar við Þjóðverja á Wembley, sigruðu 4-3, með marki sem síðan hefur verið umdeilt, var líklega ekki mark. En á þeim árum héldu allir með Englandi og þekktu Bobby Charlton, Geoff Hearst, Bobby Moore og Gordon Banks – jafnvel þótt enskur fótbolti væri ekki farinn á sjást í sjónvarpi.

Þetta var jú fyrir tíma íslenska sjónvarpsins. Ég man að haldin var sérstök sýning á  hápunktum keppninnar niðri í KR-húsi, það var sett upp tjald og kvikmyndavél, og svo horfðu bæði ungir og gamlir. Einnig var sýnd kvikmynd um heimsmeistaramótið í Nýja bíói – þá fékk maður loks að sjá Eusebio frá Portúgal sem þótti besti leikmaður mótsins.

1970 voru það Brasilíumenn sem áttu mótið. Stákar á Landakotstúni ímynduðu sér að þeir væru Pelé, Jairzinho eða Tostao. Yfir engu fótboltaliði fyrr og síðar hefur verið jafnmiklill ljómi. En það var sama og ekkert sýnt af þessu í sjónvarpi – maður varð bara að ímynda sér hvernig leikmenn þetta væru, nöfn þeirra virkuðu sterkt á ímyndunaraflið.

1974 voru Þjóðverjar komnir til skjalanna. Mig minnir að voða fáir hafi haldið með þeim, en stjörnurnar þeirra voru svosem nógu stórar, Beckenbauer, Gerd Müller og Sepp Maier. Manni þótti meira varið í hollenska liðið með Cruyff, Neeskens og Rensesnbrink. Þeir voru sagðir spila nýja tegund af fótbolta þar sem boltinn gekk manna á milli úr vörn og sókn og mátti oft ekki sjá hver lék hvar. Það er ein sorgarsaga fótboltans að þetta hollenska lið, eitt hið besta í sögu íþróttarinnar, vann aldrei heimsmeistaratitil þrátt fyrir að komast í tvo úrslitaleiki.

Ekki minnist ég þess að hafa séð úrslitaleikinn 1974, ég var að vinna í Vestmannaeyjum og hafi hann verið sýndur í sjónvarpinu var það löngu eftir að hann var leikinn. Úrslitaleikinn 1978 horfði ég hins vegar á í glugga raftækjaverslunar í París. Það var ekkert hljóð, sjónvörp þess tíma voru ekki sérlega skýr. En ég rétt greindi að Argentína vann.

Það var ekki fyrr en 1982 að heimsmeistarakeppnin kom til Íslands. Sjónvarpið fór að vanda í frí í júlí, slökkt var á útsendingum, en þá greip um sig mikil reiði meðal knattspyrnuáhugamanna. Það endaði svo með því að 11. júlí 1982 var opnað fyrir og Íslendingar fengu í fyrsta sinn að sjá úrslitaleik á heimsmeistaramóti í beinni útsendingu. Þá unnu Ítalir Þjóðverja 3-1.

Við þetta brustu allar gáttir. Á mótinu 1986 fékk ég lánað risastórt sjónvarp – mjög þungt, þetta var löngu fyrir tíma flatskjáa. Sjónvarpið sýndi leiki í gríð og erg og ég missti varla af mínútu. Þetta var líka frekar gott mót, með frábær brasilísk og frönsk lið, þótt það væri á endanum Argentína með Maradonna í aðalhlutverki sem varð heimsmeistari.

Núorðið þykir ekkert sjálfsagðara en að sýna alla leiki í heimsmeistarakeppn í beinni útsendingu. Maður kemur varla á þann stað að ekki sé hægt að sjá leikina. Undanfarna áratugi hef ég séð mest af mótunum suður í Grikklandi, á útikaffihúsum, það er afar þægilegt. Úrslitaleikinn í dag sá ég svo í tölvu í Boston – mér tókst að kaupa nokkurra daga áskrift til að sjá síðustu leikina í mótinu.

En í næstu keppni, 2022, gæti komið babb í bátinn. Keppnina á að halda í Katar. Að sumarlagi er hiti þar yfir 40 stig. Þess vega er gripið til þess ráðs að halda keppnina að vetrarlagi. Fyrsti leikurinn verður 21. nóvember og úrslitaleikurinn 18. desember.

Þetta verður dálítið skrítið fyrir þá sem búa á norðurhveli jarðar. Almennt er fólk í vinnu eða prófum á þessum tíma. Þetta riðlar mjög stóru deildakeppnunum sem eru í fullum gangi í Evrópu á þessum tíma. Og svo er það jólaundirbúningur – það er einkennileg tilhugsun að liggja í fótbolta á aðventunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Helga Vala um fundinn: „Ég missi ekki svefn yfir því hvernig þeir kjósa að velja orð sín“

Helga Vala um fundinn: „Ég missi ekki svefn yfir því hvernig þeir kjósa að velja orð sín“
Eyjan
Í gær

Segir Hildi beitta þrýstingi og borgarstjóri sé ábyrgur: „Ég er bara alls ekkert í að verja braggann“

Segir Hildi beitta þrýstingi og borgarstjóri sé ábyrgur: „Ég er bara alls ekkert í að verja braggann“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Skautasvell á Austurvelli – rykmengunin í bænum

Skautasvell á Austurvelli – rykmengunin í bænum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga