fbpx
Föstudagur 18.janúar 2019
Eyjan

Kínversk hjón, fjöldabrúðkaup og framtíðin í fluginu

Egill Helgason
Laugardaginn 14. júlí 2018 21:35

Fáar myndir hef ég séð sem lýsa ferðamannastraumnum til Íslands betur en þessi. Þarna er par sem nokkuð öruglega er frá Kína, nýbúið að gifta sig, situr fyrir á ljósmynd – en myndin er tekin fyrir utan sjoppu sem heitir Drekinn og er á horni Frakkastígs og Njálsgötu, á svæði þar sem þéttleiki ferðamennskunnar er hvað mestur í borginni.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, samstarfskona mín á RÚV, tók myndina og gaf mér leyfi til að birta hana.

Drekinn sjálfur, þ.e. sjoppan, hefur svo líka ákveðnar austrænar tilvísanir í útliti sínu, þótt þetta sé líka háþjóðlegur grillstaður og söluturn, eins og það kallast á góðri íslensku.

Oft og einatt má sjá brúðhjón frá Kína á Skólavörðuholtinu. Stundum fleiri en eitt par, jafnvel mörg í einu. Ég veit ekki hvar þau láta gefa sig saman – það eru þó varla kirkjubrúðkaup að lútersk-evangelískum hætti?

Þetta er greinilega eitthvað sem þykir spennandi austast í Asíu – að fara á framandi slóðir að gifta sig. Kínverjar fjölmenna til dæmis til eyjarinnar Santorini í Grikklandi til að ganga í hjónaband. Þar eru haldin mikil fjöldabrúðkaup; það eru sérstök fyrirtæki í Kína sem sérhæfa sig í að koma þessu í kring.

Grikkir eru svosem bara ánægðir með þetta, Kínverjarnir sem þangað koma eru yfirleitt ekki að sækjast eftir því að dvelja á baðströndum eða stunda sjóböð – svo ferðamannatíminn hefur verið að lengjast vegna þeirra. Áður fyrr lét enginn sér til hugar koma að fara til Santorini í febrúar – nú er fullt af Kínverjum á eyjunni á þeim tíma. Veðrið er oftast alveg ágætt og jafnmikil tækifæri til að taka myndir þá og á sumrin – maður á auðvitað að forðast alhæfingar, en aðaláhugamál kínverskra ferðamanna virðist vera að taka nógu mikið af ljósmyndum.

Reyndar er sagt að margt af þessu fólki sé þegar búið að gifta sig heima og brúðkaupin á erlendri grund séu bara sjónarspil.

 

 

En talandi um ferðamennsku, þá hljóta tölurnar frá íslensku flugfélögunum að vekja miklar áhyggjur. Gríðarlegt tap hjá WOW og hrun á hlutabréfum Icelandair. Hagvöxtur á Íslandi síðustu ár hefur nær eingöngu byggst á túrisma. Íslensku flugfélögin bera þetta uppi, en þau hafa bæði veðjað á að verða geysilega fyrirferðarmikil í fólksflutningum yfir Atlantshafið, milli Bandaríkjanna og Evrópu. Miðstöðin er Keflavíkurflugvöllur og þar hefur farið fram gríðarleg uppbygging til að anna þessu flugi – er gert ráð fyrir því að í hana verði að auki varið milljörðum á milljarða ofan.

Þetta er aðalatvinnuvegur Íslendinga núorðið en um leið áhættubisness. Samkeppnin í fluginu yfir Atlantshafið fer vaxandi en verð á olíu er að hækka. Í leiðara í Fréttablaðinu les maður beinlínis kröfu um að laun verði lækkuð hjá Icelandair. WOW heldur kostnaði niðri með þeim afleiðingum að flugfélagið er talið eitt hið lakasta í heimi, fær hrikalega útreið á vefsíðum þar sem lýst er reynslu flugfarþega. Maður man þá tíð að íslenska ríkið þurfti að grípa inn í til að bjarga fluginu, þá hét félagið líklega Flugleiðir – en slíkt er líklega óhugsandi í nútímanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum