fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Heildarlaun hækkuðu um 4,9%

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 12. júlí 2018 10:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hagstofan gefur í dag út nýja vísitölu, vísitölu heildarlauna, sem miðar að aukinni upplýsingagjöf um íslenskan vinnumarkað. Vísitala heildarlauna varpar ljósi á þróun launa þar sem að breytingar á samsetningu vinnuafls og vinnutíma hafa áhrif. Útreikningar byggja á samtölu allra staðgreiðsluskyldra launa á greidda vinnustund. Vísitala heildarlauna verður gefin út ársfjórðungslega og eru upplýsingar birtar aftur til ársins 2008.

Á 1. ársfjórðungi 2018 var árshækkun heildarlauna á greidda stund 4,9%. Á almennum vinnumarkaði var hækkunin 4,4% og 5,1% í opinbera geiranum. Árshækkun var nokkuð misjöfn eftir atvinnugreinum eins og sjá má á mynd 1. Í atvinnugreininni vatns- og fráveita (E) var mest hækkun eða 7,6%, og í gisti- og veitingarekstri (I) 6,5%. Minnst hækkun var í fjármálastarfsemi (K) eða 0,2% sem skýrist af háum kaupaukagreiðslum á 1. ársfjórðungi 2017. Árshækkun var á bilinu 4,1% til 6,2% í öðrum atvinnugreinum.

Skýring: Atvinnugreinar: Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), rekstur gististaða og veitingarekstur (I), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), fasteignaviðskipti (L), sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi (M) og leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta (N). Atvinnugreinaflokkur OTS er samtala atvinnugreinanna opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q), menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi (R) og félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi (S). Launþegahópar: Starfsmenn á almenna vinnumarkaði (Alm) og opinberir starfsmenn (Opi).

Í hækkunum milli 1. ársfjórðungs 2017 og 2018 gætir áhrifa almennra launahækkana sem kveðið var á um í kjarasamningum, auk stofnana- og fyrirtækjasamninga. Til að mynda var kveðið á um 4,5% almenna launahækkun á almennum vinnumarkaði í maí 2017 og á bilinu 3,0%–4,5% hjá hinu opinbera í júní 2017. Samsetning vinnuaflsins hefur breyst á tímabilinu og var til dæmis hlutfall innflytjenda af fjölda starfandi 17,5% á 1. ársfjórðungi 2018 en hafði verið 15,1% á sama ársfjórðungi 2017. Á sama tímabili jókst fjöldi starfandi um 4,6% sé tekið mið af vinnuaflstölum samkvæmt skrám.

Vísitala heildarlauna og launavísitalan segja ólíka sögu
Milli áranna 2008 og 2017 hækkuðu heildarlaun samkvæmt vísitölu heildarlauna um tæp 72% en á sama tíma hækkaði launavísitalan um tæp 79%. Við samanburð verður ætíð að hafa í huga að vísitölurnar segja ólíka sögu, hafa ólíkan tilgang og byggja á mismunandi aðferðum.

Vísitala heildarlauna byggir á öllum greiddum launum deilt með heildarfjölda greiddra stunda eftir atvinnugreinum og sýnir launaþróun sem endurspeglar verðbreytingu vinnustundar, breytt hlutfall vinnuafls með há eða lág laun, breytt hlutfall yfirvinnustunda eða samspil þessara þátta. Vísitala heildarlauna tekur þar með tillit til yfirvinnu, kaupauka, árlegra eingreiðslna og annarra óreglulegra þátta sem eru ekki hluti af launavísitölu, enda er launavísitölu ætlað að sýna verðbreytingar á vinnustund fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Launavísitalan byggir á breytingum reglulegra launa þar sem hvorki er tekið tillit til tilfallandi yfirvinnu né óreglulegra greiðslna.

Sé þróun vísitölu heildarlauna og launavísitölu skoðuð eftir ársfjórðungum, sjá mynd 2, sést að vísitala heildarlauna er sveiflukenndari en launavísitalan og hefur skýrar ársfjórðungssveiflur. Til að mynda lækka heildarlaun á greidda stund alltaf á 3. ársfjórðungi sem má rekja til töluverðrar fjölgunar starfsmanna á sumarmánuðum. Fjölgunin breytir samsetningu vinnuaflsins í þá veru að hálaunastörf vega minna. Að sama skapi hækka heildarlaun á 4. ársfjórðungi þegar áhrifa gætir ekki lengur af sumarstarfsfólki, auk þess sem til koma ótímamældar greiðslur eins og desemberuppbót án þess að deilitala greiddra stunda hækki. Breytt samsetning vinnuaflsins, þegar ódýrara vinnuafl eins og sumarstarfsfólk kemur inn á vinnumarkaðinn, hefur áhrif til lækkunar á vísitölu heildarlauna. Það hefur hinsvegar ekki áhrif á launavísitölu sem mælir verðbreytingu á greidda vinnustund en við útreikning á þess háttar verðbreytingum er reynt eftir megni að halda samsetningu fastri milli mælitilvika.

Saman geta þessir tveir mælikvarðar, vísitala heildarlauna og launavísitala, gefið góða heildarmynd sérstaklega þegar miklar breytingar eru á vinnumarkaði. Sé til dæmis fjármálastarfsemi skoðuð frá árinu 2016 (sjá mynd 3) sjást mismunandi niðurstöður milli vísitölu heildarlauna og launavísitölu. Ársbreytingar vísitölu heildarlauna eru umtalsverðar á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2017 sem meðal annars liggur í kaupaukum sem greiddir voru út á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2017. Þessar greiðslur skýra einnig lága árshækkun milli 1. ársfjórðungs 2018 og 2017 þrátt fyrir að almennar kjarasamningshækkanir í atvinnugreininni á tímabilinu hafi verið um 5%. Hækkanir launavísitölu endurspegla hinsvegar fyrst og fremst breytingu á einingarverði greiddra stunda.

Einnig má benda á að samsetning atvinnugreina með tilliti til hlutdeildar í heildarlaunum á vinnumarkaði hefur mismunandi áhrif á vísitölurnar. Samsetningin hefur breyst mjög á tímabilinu 2008 til 2017, sbr. mynd 4. Í launavísitölu er þessari samsetningu haldið óbreyttri innan árs milli árlegra grunnskipta, en samsetningin hefur hinsvegar bein áhrif á vísitölu heildarlauna á hverjum ársfjórðungi.

Skýring: Atvinnugreinar: Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), Rekstur gististaða og veitingarekstur (I), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), fasteignaviðskipti (L), sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi (M) og leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta (N). Á myndina vantar atvinnugreinar O til S (opinber stjórnsýsla (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q), menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi (R) og félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi (S)) en samanlagt var hlutdeild þeirra 34% árið 2008, 37% árið 2012 og 34% árið 2017.


Um vísitölu heildarlauna

Vísitala heildarlauna tekur mið af aðferðum Labour Cost Index samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 450/2003. Vísitala heildarlauna er sambærileg við launaþátt Labour Cost Index (WAG — wages and salaries) að því undanskildu að byggt er á greiddum stundum í stað unninna, auk þess sem greiðslur vegna veikinda eru hér taldar til launa í stað launatengdra gjalda (OTH — labour costs other than wages and salaries) í Labour Cost Index. Vísitala heildarlauna nær til allra sem fá greidd laun frá launagreiðendum sem hafa 10 eða fleiri launamenn nema þeirra sem starfa við fiskveiðar og landbúnað (A), atvinnurekstur innan heimilis til eigin nota (T) og starfsemi stofnana og félagasamtaka með úrlendisrétt (U).

Um er að ræða bráðabirgðatölur sem endurskoðaðar verða ársfjórðungslega. Um er að ræða niðurstöður þróunarverkefnis sem Hagstofan hefur unnið að síðustu misseri þar sem útreikningar byggja á hagnýtingu fjölbreyttra gagna. Upplýsingar um heildarlaun eru staðgreiðsluskyld laun samkvæmt stjórnsýslugögnum. Greiddar stundir eru fengnar með fjölþættu tölfræðilegu mati og byggja meðal annars á gögnum úr rannsóknum Hagstofunnar, einkum launarannsókn, en einnig á stjórnsýslugögnum.

Grunnár vísitölunnar er meðaltal ársins 2012 og breytist grunnárið fjórða hvert ár til samræmis við aðferðir Labour Cost Index. Áætluð ársfjórðungsleg uppfærsla á vísitölu heildarlauna helst einnig í hendur við útgáfu Eurostat á Labour Cost Index eða rúmlega 70 dögum eftir að viðmiðunartímabili lýkur.

Talnaefni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Í gær

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun