Eyjan

Segir kosningakerfið á Íslandi vera gallað

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 9. júlí 2018 12:00

Haukur Arnþórsson. Mynd-sosialistaflokkurinn.is

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, segir úthlutunarkerfi þingsæta í kosningakerfi íslendinga gallað og endurspegli ekki niðurstöður kosninga með sanngjörnum hætti. Hann tekur þar með undir orð Grétars Þórs Eyþórssonar, prófessors í stjórnmálafræði við HA og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem báðir hafa hallmælt d´Hondt aðferðinni, sem notuð er á Íslandi, bæði í alþingis- og sveitastjórnarkosningum, til að útdeila sætum á kjörna fulltrúa.

Eyjan fjallaði um hvernig úrslit borgarstjórnarkosninganna hefðu farið ef d´Hondt reglan væri ekki við lýði, eftir útreikningum stærðfræðingsins Þorkels Helgasonar. Þá hefði Framsókn til dæmis náð inn manni, og Sósíalistaflokkurinn hefði náð inn tveimur mönnum í stað eins, á kostnað Samfylkingarinnar annarsvegar og Sjálfstæðisflokksins hinsvegar.

Haukur, sem skipaði 46. sætið á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík í yfirstöðnum sveitarstjórnarkosningum, sagði í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að um 27 þúsund atkvæði hefðu fallið dauð niður í alþingiskosningunum árið 2013 vegna aðferðarinnar:

„Í þessum kosningum 2013 er gerð tilraun til að brjóta upp veldi fjórflokksins. Það koma fram tvö hægriframboð, Flokkur heimilanna og Hægri græn, og það koma fram tvö sterk vinstriframboð, Dögun og Lýðræðisvaktin. Við getum sagt að 2013 eyðileggurðu atkvæði allra Kópavogsbúa, 2016 allra Hafnarfjarðarbúa og 2017 allra Akureyringa,“

segir Haukur og tekur fram að með norrænum reiknireglum hefðu nýju hægriframboðin fengið þrjá menn á þing og nýju vinstriflokkarnir fjóra. Enginn nýju flokkanna náði hins vegar inn manni.

Hann tók fram að 48% líkur hefðu verið á því að atkvæði þeirra sem kusu aðra flokka en fjórflokkinn svonefnda, nýttist ekki, í kosningunum 2013.

Regla d‘Hondts er eignuð nítjándu aldar Belganum Victor d’Hondt (1841-1901). Eins og aðrar svokallaðar deilireglur, er hún þannig útfærð, að deilt er í atkvæðatölu hvers lista með runu deilitalna. Deildunum sem þannig fást er skipað í stærðarröð og er sætum úthlutað til hæstu deildanna, jafnmörgum og sætum sem úthluta skal. Í reglu d‘Hondts eru deilitölurnar einfaldlega runa heiltalnanna 1, 2, 3 o.s.frv.

Haukur segir að reglan hygli stærri flokkunum og að 5 prósenta þröskuldurinn til að ná inn manni, sé með því hæsta sem gerist í heiminum. Þá nefndi hann að uppbótarþingsæti þyrftu að vera fleiri til að þingstyrkur endurspeglaði atkvæðafjölda betur.

Hann nefndi einnig að á Norðurlöndunum tíðkuðust kosningabandalög, þar sem flokkar með svipuð gildi nýtu atkvæðaleifar hvers annars:

„Þau atkvæði sem nýtast ekki, til dæmis vegna þröskuldar, eða þau atkvæði sem nýtast ekki sem atkvæðaleifar, þau færast á milli þeirra flokka sem eru í þessu kosningabandalagi. Það er samið um það fyrir fram. Kjósendur ganga að því sem vísu. Þetta myndi náttúrulega gerbreyta stöðu nýrra flokka hér. „Þetta hefur svo marga kosti að ég verð eiginlega óðamála. Ég hef trú á því að bæði hægrið og vinstrið styrkist á því að búa til kosningabandalög.“

Hann segir slík bandalög veikja „miðjuna“ og draga úr tækifærismennsku í pólitík og tekur dæmi af flugvallarmálinu:

„Maður hefur séð hluti eins og flugvallarmálið. Reykjavíkurflugvöllur getur ekki farið neitt. Þetta er dautt mál. Hvernig í ósköpunum er hægt að magna upp læti út af flugvelli sem að getur ekki farið? Það er bara gert vegna þess að þá geturðu fengið andstöðu úti á landi gegn flokkunum sem eru í meirihluta í Reykjavík. Þetta er dæmi um það hvað misjafnt vægi getur magnað upp hatur og illindi milli landshluta algjörlega að ástæðulausu.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Breskur auðkýfingur tryggir sér yfirráð yfir fleiri jörðum í Vopnafirði

Breskur auðkýfingur tryggir sér yfirráð yfir fleiri jörðum í Vopnafirði
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

„Tal um kynferðislega áreitni af minni hálfu á ekki við rök að styðjast“

„Tal um kynferðislega áreitni af minni hálfu á ekki við rök að styðjast“
Eyjan
Í gær

Vilhjálmur Birgisson: „Hugsið ykkur hvað leikurinn á milli atvinnurekenda, sveitafélaga og ríkis er hryllilega ójafn“

Vilhjálmur Birgisson: „Hugsið ykkur hvað leikurinn á milli atvinnurekenda, sveitafélaga og ríkis er hryllilega ójafn“
Eyjan
Í gær

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir ferðaþjónustuna aðeins vilja græða sem mest á náttúrunni og ekki greiða fyrir

Segir ferðaþjónustuna aðeins vilja græða sem mest á náttúrunni og ekki greiða fyrir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Undirverktakar hjá Strætó telja sig verða fyrir tjóni vegna framsals samnings úr þrotabúi Prime Tours – „Skýrt og augljóst kennitöluflakk“

Undirverktakar hjá Strætó telja sig verða fyrir tjóni vegna framsals samnings úr þrotabúi Prime Tours – „Skýrt og augljóst kennitöluflakk“