fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Gagnaveita Reykjavíkur fagnar niðurstöðu PFS

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 4. júlí 2018 12:00

Erling Freyr Guðmundsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er mikilvæg niðurstaða fyrir neytendur og samkeppni á fjarskiptamarkaði. Nú er mikilvægt að þessu lögbroti linni og neytendur fái að njóta þess valfrelsis sem fjölmiðlalögum er ætlað að tryggja þeim,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, í tilkynningu, um þá niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar að hömlur á dreifingu tímaflakks og frelsis Sjónvarps Símans feli í sér brot á lögum. Í afgerandi ákvörðun PFS kemur fram að stofnunin líti svo á að lögbrot Símans hafi staðið yfir í þrjú ár og geri enn.

Ítarleg ákvörðun

Forsaga málsins er að haustið 2015 hætti Síminn að gera viðskiptavinum annarra fjarskiptafyrirtækja kleift að nýta sér svokallað tímaflakk og frelsi í sjónvarpi Símans. Vodafone kærði þetta ráðslag til Póst- og fjarskiptastofnunar og síðar öðlaðist Gagnaveita Reykjavíkur, sem rekur Ljósleiðarann, aðild að málinu. Ástæðan er að með því að útiloka önnur fjarskiptafyrirtæki útilokaði Síminn einnig dreifingu efnisins um Ljósleiðarann en beindi viðskiptum um þau grunnet sem Míla, dótturfyrirtæki Símans, ræður fyrir.

Niðurstaða PFS er í stuttu máli að Síminn hafi með þessu brotið fjölmiðlalög sem kveði skýrt á um að fjölmiðill á borð við Sjónvarp Símans megi ekki beina viðskiptum sinna viðskiptavina að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Neytendur eigi að geta valið myndefni án þess að binda sig í viðskiptum við eitt tiltekið fjarskiptafyrirtæki. Ákvörðun PFS telur 187 blaðsíður og í frétt á heimasíðu stofnunarinnar er boðuð enn ítarlegri lýsing á málvöxtum í þessu mikilvæga hagsmunamáli neytenda.

Hvorki sanngjörn né eðlileg aðgangsbeiðni

Í ákvörðun PFS kemur fram að Síminn hefði getað komið í veg fyrir lögbrotið með samningum um dreifingu efnisins við önnur fjarskiptafyrirtæki. Hvað Gagnaveitu Reykjavíkur varðar segir stofnunin að „…Síminn hafi á því tímabili sem liðið er frá því að brotið var framið ekki komið fram með sanngjarna og eðlilega aðgangsbeiðni að neti GR.“

Þá segir PFS að jafnvel þótt samið hefði verið við GR hefði það ekki komið í veg fyrir brot Símans gagnvart öðrum fjarskiptafyrirtækjum, sem ekki fengu að dreifa tímaflakkinu.

Erling Freyr segir að kröfur Símans hafi verið hvorki sanngjarnar né eðlilegar:

„Ég tel að þessi ákvörðun marki tímamót í samkeppni á fjarskiptamarkaði hér á landi. Starfsemi Ljósleiðarans byggist á því að samkeppni blómstri. Þess vegna er það okkur mikið fagnaðarefni að niðurstaðan í þessu máli, þar sem tekist er á um samþættingu fjarskipta og fjölmiðla, sé þessi. Hún er neytendum til góða. Það er mikilvægt að broti Símans ljúki sem fyrst, almenningi til hagsbóta. Við hjá GR höfum sætt ásökunum af hálfu Símans um óbilgirni af því Síminn hefur ekki fengið nákvæmlega það sem fyrirtækið hefur viljað í viðræðum um kaup þess á þjónustu Ljósleiðarans. Í því samhengi er mjög mikilvæg sú niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að kröfur Símans um aðgang að Ljósleiðaranum séu hvorki sanngjarnar né eðlilegar. Ef að þeim yrði gengið fæli það einmitt í sér að samkeppni yrði minni, ekki meiri, og valkostir neytenda færri. Niðurstaða PFS stuðlar að aukinni samkeppni, sem neytendur njóta góðs af.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“