fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Stjórnendur trompa sérþekkingu

Egill Helgason
Mánudaginn 2. júlí 2018 23:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umferðar- og samgönguverkfræði er sérstakt fag. Reyndar mjög spennandi í okkar flókna samtíma. Samgöngur og umferð má líka nálgast út frá skipulagsfræðum. Þetta útheimtir nokkuð langt háskólanám – bak við þetta eru mikil fræði sem margt hefur verið ritað um.

Þetta er ekkert sem maður kynnir sér og nær tökum á með því að gúgla smá.

Nú hefur verið ráðinn nýr vegamálastjóri. Þetta er ábyggilega hin mætasta kona, Bergþóra Þorkelsdóttir heitir hún. En hún er dýralæknir að mennt. Hefur stjórnað heildsölu og setið í stjórnum, meðal annars í Viðskiptaráði. Engar heimildir eru um að hún hafi þekkingu á fræðunum sem nefnd eru hér að ofan. Einhver gárunginn sagði að hún myndi þó máski hafa þekkingu á lausagöngufé við þjóðvegi.

Hún er ráðin af því hún er „stjórnandi“ – eða svo er sagt. Ég ætla ekki að gefa mér að hún hafi fengið djobbið vegna tengsla við fólk í ríkisstjórninni, eins og einhverjir hafa sagt.. En þetta er reyndar orðið mjög algengt. Stjórnendamenntunin toppar allt – viðskipta-, rekstrar og markaðsfræðin. Og aðilar sem hafa slíkan bakgrunn, MBA eða eitthvað slíkt, velja aðra af sama sauðahúsi í háar stöður og svo koll af kolli.

Sérþekking er hins vegar minna metin – líka í tilvikum eins og þessu þar sem um er að ræða mjög flókinn málaflokk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt