fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Trump kallar innflytjendur óværu – hvort er verra, forseti Bandaríkjanna eða pólitískur rétttrúnaður?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 27. júní 2018 22:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að mörgu leyti gengur Donald Trump allt í haginn í Bandaríkjunum. Hæstiréttur staðfesti umdeilt ferðabann hans. Hæstaréttardómarinn Kennedy er að hætta og þá getur Trump komið einhverjum inn sem honum er þóknanlegur. Í forvali Demókrata vegna öldungadeildarsætis sigraði ung kona sem kallar sig sósíalista gamlan flokkshest. Þetta bendir til þess að Demókratar gangi klofnir til kosninga eins og síðast – það er vatn á myllu Trumps.

Efnahagur Bandaríkjanna er sterkur – ekki er það sérstaklega Trump að þakka en það hjálpar honum. Fylgið sem forsetinn nýtur er svo einkennilegt að það er alls ekki víst að myndir af börnum sem hafa verið skilin frá foreldrum sínum við landamæri Bandaríkjanna skaði hann til frambúðar.

Evrópusambandið býst við hinu versta frá Trump. Þar er átt við viðskiptastríð og þá tilhneigingu Trumps að líta á öll ríki eins og þau séu fjandsamleg, líka gamla bandamenn eins og Kanada og Þýskaland. Leiðtogar þessara ríkja sitja undir stöðugum skeytum frá Trump.

En þetta gæti staðið lengi yfir. Það er nefnilega talsverður möguleiki á því að Trump verði endurkjörinn og sitji þá allt til 2024. Þá verður hann orðinn 78 ára, ábyggilega engu skárri, en búinn að breyta Bandaríkjunum mikið.

Samt er það staðreynd að stjórn Trumps er gjörsamlega blöskranleg. Siðferðisstigið er löngu komið niður úr gólfinu. Bandaríkin eru land innflytjenda. Það er einn stórkostlegasti kafli mannkynssögunnar hvernig fátækt fólk út um alla veröld tók saman föggur sínar og flutti vestur um haf til Ameríku. Upp til hópa var þetta dugmikið fólk sem forðaði sér undan fátækt, basli og kúgun. Almennt vegnaði því vel vestanhafs – það er merkilegt hversu fljótt Bandaríkin urðu að stórri, auðugri og voldugri þjóð.

Allt gerðist þetta vegna hinna miklu þjóðflutnininga – þeir sem töpuðu voru innfæddir íbúar álfunnar sem voru reknir af landi sínu, strádrepnir eða hrundu niður úr sjúkdómum sem innflytjendurnir komu með.

Trump segir nú að innflytjendur séu óværa. Enska orðið sem hann notar er infestation. Þetta er orð sem er notað þegar fjöldi af rottum, kakkalökkum eða veggjatítlum fer úr böndunum.

Þetta er nasistatal. Svona töluðu liðsmenn Hitlers um gyðinga. Þeim var líkt við óværu – meindýr. Þannig voru þeir afmennskaðir – það var eitt skrefið í átt þess að hægt var að fara að einangra þá í fangabúðum eða gettóum og loks myrða þá í massavís. Það er nánast ólýsanlegt hvað svona tal er ljótt og siðlaust.

Á Íslandi er þingmaður sem setur fram þá kenningu að eitthvað sem hann kallar pólitíska rétthugsun sé meiri ógn við lýðræðið í heiminum en Trump – Brynjar Níelsson telur Pútín reyndar líka með.  Það er reyndar svo með pólitíska rétthugsun svokallaða að maður fær sjaldnast að vita við hvað er átt, hvað þetta sé eiginlega – heldur er vísað í einhvern graut sem fer í taugarnar á þeim sem eru yst til hægri  – aðallega sýnist manni það vera fúllyndi yfir því að núorðið séu ákveðin takmörk á því hvað menn geta leyft sér að vera ömurlegir við konur, samkynhneigða, þá sem eru af annarri trú en maður sjálfur eða hafa annan hörundslit.

Sé skoðaður pistill þingmannsins má reyndar sjá að hann ruglar við þetta hugtakinu „samfélagsverkfræði“. Það hefur fyrst og fremst verið notað í tengslum við umbyltingu Stalíns á sovésku samfélagi   – og afar erfitt að sjá hvernig það tengist hinum meinta pólitíska rétttrúnaði.  Eða hvernig hann á að leiða af sér almennar hörmungar og kúgun. Hverjir verða hinir kúguðu í samfélagi pólitísks rétttrúnaðar – hver verður birtingarmynd hörmunganna? Hverjir verða leiddir til slátrunar?

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Í gær

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun