fbpx
Föstudagur 18.janúar 2019
Eyjan

Stóru liðin komast áfram eins og venjulega, má spá því að Þýskaland og Argentína verði í úrslitaleiknum?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 26. júní 2018 22:26

Merkilegt hvernig þessi íþrótt, fótbolti, spilast. Stóru liðunum sem eiginlega eru alltaf með er velgt undir uggum í undankeppni, maður heldur jafnvel að þau komist ekki áfram – en svo gerist það einhvern veginn og hinir smáu og veikari sem virtust eiga séns, jafnvel býsna góðan, detta út. Mörg þeirra liða eru býsna hugprúð eins og Ísland – meðan maður finnur fátt ti að dást að hjá stóru fótboltaþjóðunum.

Argentína einhvern veginn tróðst áfram í kvöld. Það munu Þjóðverjar líka gera á morgun.Hvorugt liðið hefur spilað vel, en þau léku í úrslitum í síðustu heimsmeistarakeppni.

Væri nokkuð vitlaust að spá því að þau leiki aftur til úrslita í ár? Ég kann ekki að veðja – en mér þætti það ekki fráleitara en hvað annað veðmál.

Svo  breytast hlutirnir þegar komið er upp úr riðlakeppninni. Frægt dæmi er Ítalía á heimsmeistaramótinu 1982. (Ítalía er reyndar ekki með núna sem er nánast tilefni til að aflýsa keppninni.). Þá fór Ítalía upp úr riðli sínum með því að gera þrjú sérlega óglæsileg jafntefli, við Pólland, Perú og Kamerún. Markatala liðsins úr riðlinum var 2-2.

Flestir voru á því að þetta væri mjög lélegt ítalskt lið. En svo tók það upp á því þegar komið var í sjálfa úrslitakeppnina að vinna bæði Argentínu og Brasilíu. Brassar voru þá með skemmtilegasta fótboltalið allra tíma, skipað eintómum snillingum, en það var fyrir neðan virðingu þeirra að verjast. Svo Pólland, loks Þýskaland í úrslitaleik, 3-1.

Úrslitaleikurinn var að mig minnir sá fyrsti sem var sýndur í beinni útsendingu í sjónvarpi á Íslandi. Þá var í liðinu stórkostlegur leikmaður sem hét Paolo Rossi. Hann sást aldrei í leikjum, kom varla nokkurn tíma við boltann. Nema þá þegar hann var mættur inn á markteig og potaði boltanum inn. Skoraði sæg af mörkum, en þau voru aldrei falleg eða neitt slíkt. Ég verð að segja eins og er að fáa leikmenn hef ég dáð meira en þennan náunga – hann náði árangri en var ekkert að ofreyna sig. (Sjá mynd hér fyrir neðan.)

En Ísland er semsagt dottið út. Frammistaða liðsins var ágæt. Það er glæsilegt að hafa komist svona langt, og heldur ólíklegt að það gerist aftur (nema þá ef liðum verður fjölgað á HM.) Það verður að segjast eins og er að í öllum leikjunum í Rússlandi voru Íslendingarnir að spila við mótherja sem eru sterkari og flinkari en þeir.

Um tíma var smáséns að komast áfram – að baráttan næði að skila sér. Króatar eru einhvern veginn svo miskunnarlausir í eðli sínu að þeir voru ekki að fara að leyfa okkur að vinna, jafnvel þótt þeir væru nánst með varaliðið inn á. Eiginlega hefðu Nígeríumenn átt skilið að fara upp úr riðlinum, en auðvitað var það stórveldið Argentína sem á endanum komst upp – reynslan sýnir að svoleiðis fer þetta eiginlega alltaf.

Lionel Messi hefur því ennþá tækifæri til að sýna að hann sé ekki bara besti fótboltamaður heims núna – heldur besti fótboltamaður allra tíma. Það gerir hann ekki nema með því að vinna HM.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga

Leikskólagjöldin hæst í Garðabæ – Mikill verðmunur milli sveitarfélaga
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæp 68% á þremur árum