Eyjan

Grikkland útskrifast úr neyðaraðstoðinni en tölurnar úr kreppunni eru skelfilegar

Egill Helgason
Föstudaginn 22. júní 2018 08:46

Því er fagnað að samið hefur verið um síðasta hluta neyðaraðstoðar Grikkja, fjármálaráðherrar ESB náðu að koma sér saman um þetta í gær. Skuldir Grikkja eru áfram algjörlega óviðráðanlegar, en aðstoðin felst meðal annars í því að mikið er lengt í lánunum. Það er samt gríðarleg byrði sem gríska ríkið þarf að rogast með. Og Grikkland verður áfram undir eftirliti.

Það er algjört metár í grískum túrisma, því er spáð að til Grikklands komi 32 milljónir ferðamanna á þessu ári. Sums staðar, eins og á Santorini, er túrisminn orðinn óbærilegur, bæði fyrir náttúruna og byggðina. En þetta hefur leitt af sér að dálítill hagvöxtur er í Grikklandi eftir langt samdráttarskeið, hann er áætlaður 1,9 prósent á þessu ári.

Maður finnur fyrir því að vegna þessa fer verðlag hækkandi í Grikklandi. Önnur skýring á því eru gríðarlegar skattahækkanir – til dæmis er nú 24 prósenta virðisaukaskattur á veitingahús.

En tölurnar tala sínu máli. Þær eru í raun ótrúlegar – við getum ímyndað okkur hvernig ástandið hefði orðið á Íslandi ef við hefðum þurft að ganga í gegnum þvíumlíkt eftir hrunið. Grikkir bera almennt gríðarlega virðingu fyrir Íslendingum, og telja að þeir hafi staðið sig frábærlega með því að neita að borga skuldir eftir efnahagshrunið og með því að draga fjárglæframenn fyrir dóm.

Gríska hagkerfið hefur dregist saman um fjórðung, eða 26 prósent, síðan 2010. Niðurskurðurinn á hinu opinbera kerfi er svipaður, um fjórðungur. Eftirlaun hafa lækkað um allt að 70 prósent. Laun hafa lækkað um 20 prósent. Gríðarlegur fjöldi ungs fólks hefur flúið land og leitað tækifæra erlendis. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er um 40 prósent. Fátækt er mjög útbreidd. Á sama tíma hefur farið fram mikil einkavæðing – sumt í því var reyndar tímabært – en meðal þess sem hefur verið einkavætt eru hafnir og flugvellir. Kínverjar fengu höfnina fornu í Piraeus þar sem eru gríðarlega mikil umsvif, en fyrirtæki í eigu Rússa, Frakka og Þjóðverja tók yfir höfnina í Þessaloniki.

Hvort ástandið fer nú batnandi í Grikklandi? Það er spurning. Veltur mikið á því hvort ungt fólk sér einhverja framtíð í að búa í landinu, engin þjóð þolir spekileka eins og hefur verið á síðustu árum. Ástandið í stjórnmálunum boðar ekki endilega gott. Framkvæmd síðasta hluta neyðaráætlunarinnar lenti í höndum Syriza, vinstri flokks sem á sínum tíma boðaði uppreisn gegn hinum hörðu skilmálum. En Syriza breytti í raun engu – á endanum varð neiið sem hljómaði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grikklandi 2015 að hjáróma jái hjá Tsipras forsætisráðherra.

Líklegt er að Nea Demokratia, sem er eins konar Sjálfstæðisflokkur Grikklands, komist að í næstu kosningum sem á að halda ekki síðar en haustið 2019. Nea Demokratia átti stóran þátt í að koma Grikklandi í kreppuna, en er nú með mikið forskot á aðra flokka. Nýtt lýðræði heitir flokkurinn upp á íslensku og er mjög evrópusinnaður.

Atburðir í Tyrklandi hafa svo sín áhrif, sókn Erdogans í átt til einræðis. Bandaríkin vantreysta nú Tyrklandi mikið og þá eykst mikilvægi nágrannanna í Grikklandi. Þetta er ein skýring þess að fundin var lausn á einni heimskulegustu milliríkjadeilu seinni tíma, um nafnið á Makedóníu, sem eitt sinn var hluti Júgóslavíu. Bandaríkin ýttu mjög á að deilan yrði leyst, meðal annars svo hægt yrði að taka Makedóníu inn í Nató.

Niðurstaðan olli miklum deilum í Grikklandi – mótmælin beindust reyndar gegn ótal hlutum sem hafa farið aflaga síðustu árin – þetta var vatn á myllu þjóðernissinna, meðal annars ný-nasistanna í Gylltri dögun svokallaðri. Nú fær ríkið fyrir norðan Grikkland að heita Norður-Makedónía og þá er sagt í háði að Grikkland sé Suður-Makedónía.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Ungir sjálfstæðismenn um myndavélaeftirlit með sjávarútvegi: „Hættulegt skref í átt að eftirlitssamfélagi“

Ungir sjálfstæðismenn um myndavélaeftirlit með sjávarútvegi: „Hættulegt skref í átt að eftirlitssamfélagi“
Eyjan
Í gær

Mynd dagsins: Fór sigurför um netheima – Svona tekur sænska lögreglan á móti flóttabörnum

Mynd dagsins: Fór sigurför um netheima – Svona tekur sænska lögreglan á móti flóttabörnum
Eyjan
Í gær

Segir Bjarna Ben hafa verið þátttakanda í „sviðssetningu“ kínverska kommúnistaflokksins

Segir Bjarna Ben hafa verið þátttakanda í „sviðssetningu“ kínverska kommúnistaflokksins
Eyjan
Í gær

Bullað um Danmörku og sósíalismann

Bullað um Danmörku og sósíalismann
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sturla Böðvarsson brjálaður út í borgina fyrir „virðingarleysi“ og „skemmdarverk“ – Segir listaverk vera „forljótan grjóthnullung“ staðsett Alþingi til „háðungar“

Sturla Böðvarsson brjálaður út í borgina fyrir „virðingarleysi“ og „skemmdarverk“ – Segir listaverk vera „forljótan grjóthnullung“ staðsett Alþingi til „háðungar“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Furðar sig á tímasetningu skólasetningar grunnskóla: „Foreldrar eru löngu búnir með öll frí fyrir árið“

Furðar sig á tímasetningu skólasetningar grunnskóla: „Foreldrar eru löngu búnir með öll frí fyrir árið“