fbpx
Mánudagur 10.desember 2018
Eyjan

Vilhjálmur hjólar í Kristján Loftsson: „Þótt þú sért einn ríkasti einstaklingur landsins þá ertu ekki hafin yfir lög!“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 21. júní 2018 11:00

Kristján og Vilhjálmur-Samsett mynd DV

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, vandar Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf, ekki kveðjurnar á Facebook síðu sinni. Tilefnið er að verkalýðsfélagið vann mál gegn Hval hf á dögunum fyrir dómstólum, þar sem starfsmanni fyrirtækisins voru dæmdar 700 þúsund krónur vegna vanefnda á kjörum. Starfsmaðurinn var félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness. Segir Vilhjálmur að þetta sé stærsti sigur félagsins fyrir dómstólum, því dómurinn hafi fordæmisgildi fyrir starfsmenn Hvals á árunum 2013-2015 og geti dómurinn því skilað upp undir 300 milljónum nái fordæmisgildið til allra starfsmanna.

Vilhjálmur segir hinsvegar að nú ætli Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, að hefna sín á Verkalýðsfélagi Akraness, með því að meina starfsmönnum sínum að vera félagsmenn þar. Þess í stað þurfi þeir að vera hjá Stéttarfélagi Vesturlands, þó svo að starfsstöð Hvals í Hvalfirði sé á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur segir að þetta sé ofbeldi af hálfu Kristjáns og gróft brot á lögum um stéttarfélög:

„Nú ætlar Kristján Loftsson að reyna að refsa Verkalýðsfélagi Akraness með því að meina starfsmönnum að vera í VLFA vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness uppfyllti sínar lagalegu skyldur við að tryggja og varðveita réttindi sinna félagsmanna. Nú þegar hefur lögmaður Verkalýðsfélags Akraness sent forsvarsmönnum Hvals bréf þar sem þessum kolólöglegum aðgerðum er harðlega mótmælt enda er þetta ofbeldi Kristjáns Loftssonar gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 og andstætt öllum leikreglum á hinum almenna vinnumarkaði.“

 Vilhjálmur segist ætla að mæta þessu af fullri hörku:

„Þetta grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals mun Verkalýðsfélag Akraness mæta af fullri hörku því þessi aðgerð er siðlaus og lítilmannleg sem er fólgin í að stilla starfsmönnum upp með þeim hætti að ef þeir hafna ekki að vera í Verkalýðsfélagi Akraness munu starfsmenn jafnvel ekki fá starfið. Við þurfum ekki svona atvinnurekendur á íslenskum vinnumarkaði og mun félagið fylgja málinu eftir af fullum þunga og krefja líka að Samtök atvinnulífsins grípi inní þessa ólöglegu og grófu aðgerð hjá Kristjáni Loftsyni.Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki láta svona menn eins og Kristján Loftson reyna að þagga niður og kæfa lögbundið hlutverk stéttarfélagsins sem er að verja réttindi sinna félagsmanna sé verið að brjóta á þeim. Rétt að minna enn og aftur á að VLFA vann þetta gríðarstóra hagsmunamál fyrir sína félagsmenn gegn Hval hf. og því ætlar að Hvalur að reyna að refsa stéttarfélaginu sem stendur sína vakt með þessum hætti.“

 

Að lokum segir Vilhjálmur að Kristján sé ekki hafin yfir lög, þrátt fyrir auð sinn:

„Hafðu skömm fyrir Kristján Loftson og gleymdu því að þú komist upp með svona lagað, þótt þú sért einn ríkasti einstaklingur landsins þá ertu ekki hafin yfir lög!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af