fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Svona læðist fasisminn að okkur

Egill Helgason
Miðvikudaginn 20. júní 2018 10:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við horfum á hvernig fasismi skríður áfram hægt og bítandi og lætur ekki stöðva sig. Nýjasta og versta dæmið er hvernig ríkisstjórn Donalds Trump í Bandaríkjunum lætur stía í sundur börn og foreldra, en lokar börnin inni í búrum á landamærum Bandaríkjana og Mexíkó.

En öfgamennirnir sem eru hvarvetna að komast til áhrifa valdefla hver aðra. Í Ungverjalandi hafa verið sett svokölluð Soros-lög, það er regluverk sem takmarkar starfsemi hjálparsamtaka – í raun eru þetta lög gegn mannúð. Og það er ekki tilviljun að blóraböggullinn er gyðingurinn Soros, það vekur upp fornar og ljótar kenndir.

Á Ítalíu er kominn til valda innanríkisráðherra úr flokki sem lengi vel aðhylltist hreinan fasisma, dáir Mussolini, og boðar nú umfangsmikla skráningu á Rómafólki. Hvenær kemur þá sá dagur að farið verður að merkja það sérstaklega?

Hvarvetna eru innflytjendur blórabögglar. Austurríki hefur afar ljóta sögu þegar hatur á framandi fólki er annars vegar – Simon Wiesenthal sagði mér eitt sinn að Austurríki hefði aldrei verið hreinsað af nasismanum eftir stríðið – en nú boðar ungur kanslari Austurríkis sérstakan möndul gegn innflytjendum ásamt Ungverjalandi og Ítalíu.

Orðið möndull hljómar sérlega illa í þessu samhengi – Austurríki var hluti af hinum illræmdu möndulveldum í stríðinu.

Hin nýja samsteypustjórn í Þýskalandi er í uppnámi vegna þess að CSU, hinn bæverski systurflokkur, CDU, flokks Angelu Merkel, hótar að sprengja stjórnina – flokkurinn vill í raun taka upp útlendingastefnu hægriöfgaflokksins AfD. Kannski verður Bæjaraland þá líka huti af möndinum?

Það er stöðugt ýtt á mörk þess sem hefur verið talið heimilt og siðlegt í frjálslyndum lýðræðisríkjum. Og það er kannski ekki síst tilgangurinn. Svona læðist fasisminn smátt og smátt að okkur.

Birna Anna Björnsdóttir rithöfundur, sem er búsett í New York, skrifar litla grein um þetta á Facebook. Birna segist óttast að Trump vilji ganga miklu lengra og að það séu sterk öfl sem vilji leyfa honum það:

Mín reiði akkúrat núna beinist minna að sjálfum manninum, þetta er bara einn snarskemmdur maður, hún beinist að kerfinu og flokknum sem leyfir honum að vaða uppi með alla sína illsku, leyfir honum að rífa börn úr fangi foreldra sinna og setja þau í búr. Það er heill hópur fólks, heill flokkur sem heitir Repúblikanaflokkurinn, sem gæti stöðvað þetta allt saman með einu pennastriki, á einni mínútu. Þau hafa hingað til kosið að gera það ekki. Þau hafa á undanförnum dögum kosið að gera það ekki. Þetta sér forsetinn og það eru skilaboð til hans um að það sé í lagi að setja börn í búr og nú geti hann haldið áfram að ganga lengra og lengra í sinni illsku. Þessi flokkur og hans kjörnu fulltrúar, þessi hópur sem leyfir þessari illsku að viðgangast finnast mér mun óhugnanlegri en einn skemmdur maður. Að völdin sem hann færir þeim með því að færa þeim kjósendahóp sem vill þetta, séu mikilvægari en allt annað. Ég óttast framhaldið og græt yfir landinu þar sem ég bý og fólkinu sem þjáist þar núna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt