fbpx
Mánudagur 10.desember 2018
Eyjan

Helgi Hrafn hraunar yfir Trump og frábiður sér að „sjálfskipaðir mannorðsverðir“ úr Sjálfstæðisflokknum hneykslist á orðum sínum

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 20. júní 2018 15:00

„Það hefur aldrei verið neitt erfitt að sjá að Donald Trump forseti Bandaríkjanna sé vitfirringur. En einhvern veginn hefur stuðningsmönnum hans hérna á Íslandi tekist að láta eins og að það sé þó eitthvað honum til varnar; að hann sé samt skárri en Hillary Clinton og svo fram eftir götunum. Það er ekki lengur í boði. Það eru engar afsakanir fyrir því að styðja Donald Trump. Ekkert bendir til þess að það séu neins staðar nokkurs konar mörk fyrir þennan mann. Mannvonska og hrottaskapur er algjörlega sjálfsögð fyrir honum, hvort sem það er gagnvart einstaklingum eða heilu þjóðfélagshópunum. Framkoma hans við alla ber öll einkenni valdasjúks vitfirrings sem hugsar ekki um neitt nema eiginn mikilfengleika,“

segir Helgi Hrafn Gunnlaugsson, þingmaður Pírata, um stefnu Donald Trump og aðgerðir Bandarískra yfirvalda gagnvart börnum við landamæri Mexíkó, þar sem þau eru aðskilin frá foreldrum sínum. Talið er að um 2000 börn hafi verið aðskilin frá foreldrum sínum á síðustu sex vikum og dvelji í vörslu yfirvalda.

Helgi frábiður sér að „sjálfskipaðir mannorðsverðir“ úr Sjálfstæðisflokknum geri athugasemdir við orðalag hans:

„Ef einhverjir sjálfskipaðir mannorðsverðir Íslands úr Sjálfstæðisflokknum ætla að fara að hneykslast yfir þessum orðum, þá skulu þeir sjálfir aðeins líta niður á gólf og athuga hvar þeir standa. Því jafnvel þótt hvert og eitt okkar geti svosem staðið þar sem því sýnist, þá finnur fólk sig stundum röngu megin sögunnar.

Helgi leyfir sér að bera Trump saman við Mussolini og Hitler, en slíkur samanburður hefur hingað til þótt falla illa í kramið, ekki síst hjá fólki sem telur sig pólitískt rétt þenkjandi:

„Og ég veit að það má ekki tala um seinni heimsstyrjöldina, Mussolini eða Hitler, vegna þess að af einhverjum fjandans ástæðum ber okkur núna skylda til að láta eins og þeir hafi aldrei verið völd og að ekkert við það tímabil sé nokkurn tíma sambærilegt við nokkuð annað, en þetta hefur bara fjandakornið víst gerst áður. Aðstæðurnar voru öðruvísi, það voru aðrir einstaklingar í spilinu og stefnur sem hétu öðrum nöfnum. En fasisminn í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar byggði á þessu sama grundvallaratriði; að hafna frelsi og lýðræðislegri hugsjón, grafa undan lýðræðisstofnunum og lýðræðisgildum, afneita staðreyndum og beita fólk harðræði sem áður þótti óhugsanlegt, vegna öryggis ríkisins. Það voru hinsvegar ekki nógu góðar afsakanir þá og eru það ekki núna.“

 

Pistill Helga Hrafns:

Það hefur aldrei verið neitt erfitt að sjá að Donald Trump forseti Bandaríkjanna sé vitfirringur. En einhvern veginn hefur stuðningsmönnum hans hérna á Íslandi tekist að láta eins og að það sé þó eitthvað honum til varnar; að hann sé samt skárri en Hillary Clinton og svo fram eftir götunum.

Það er ekki lengur í boði. Það eru engar afsakanir fyrir því að styðja Donald Trump. Ekkert bendir til þess að það séu neins staðar nokkurs konar mörk fyrir þennan mann. Mannvonska og hrottaskapur er algjörlega sjálfsögð fyrir honum, hvort sem það er gagnvart einstaklingum eða heilu þjóðfélagshópunum. Framkoma hans við alla ber öll einkenni valdasjúks vitfirrings sem hugsar ekki um neitt nema eiginn mikilfengleika.

Ef fólk þarf í alvörunni einhverjar frekari rök og staðreyndir til að hætta að styðja Trump, þá hefur það sama fólk einfaldlega staðsett sig röngu megin sögunnar og skal fá að sitja undir því. Enn sem komið er, er þetta deila sem er háð með orðum og diplómatík. En Donald Trump gerir það sífellt erfiðara að ímynda sér framtíð án átaka um það hver grundvallargildi frjálslyndra, vestrænna lýðræðissamfélaga eigi að vera.

Og ég veit að það má ekki tala um seinni heimsstyrjöldina, Mussolini eða Hitler, vegna þess að af einhverjum fjandans ástæðum ber okkur núna skylda til að láta eins og þeir hafi aldrei verið völd og að ekkert við það tímabil sé nokkurn tíma sambærilegt við nokkuð annað, en þetta hefur bara fjandakornið víst gerst áður. Aðstæðurnar voru öðruvísi, það voru aðrir einstaklingar í spilinu og stefnur sem hétu öðrum nöfnum. En fasisminn í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar byggði á þessu sama grundvallaratriði; að hafna frelsi og lýðræðislegri hugsjón, grafa undan lýðræðisstofnunum og lýðræðisgildum, afneita staðreyndum og beita fólk harðræði sem áður þótti óhugsanlegt, vegna öryggis ríkisins. Það voru hinsvegar ekki nógu góðar afsakanir þá og eru það ekki núna.

Og meðan ég man, þá þýðir ekkert að benda á einhverja löggjöf eða demókrata. Donald Trump valdi sjálfur að gera þetta. Hann sjálfur stendur fyrir þessum aðgerðum, hann sjálfur ver þær á grundvelli þjóðaröryggis og það þýðir ekkert að kenna einhverjum öðrum um þær.

Eitt að lokum: ef einhverjir sjálfskipaðir mannorðsverðir Íslands úr Sjálfstæðisflokknum ætla að fara að hneykslast yfir þessum orðum, þá skulu þeir sjálfir aðeins líta niður á gólf og athuga hvar þeir standa.

Því jafnvel þótt hvert og eitt okkar geti svosem staðið þar sem því sýnist, þá finnur fólk sig stundum röngu megin sögunnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af