Eyjan

Moskítóflugurnar í gömlu Stalíngrad

Egill Helgason
Þriðjudaginn 19. júní 2018 08:34

Um daginn las ég grein sem hefur valdið mér miklum áhyggjum, og svo er ábyggilega um fleiri. Fjallaði um heimsslit sem eru þess eðlis að skordýrum er útrýmt. Þetta hefur skelfilegar afleiðingar á lífríkið, því skordýrin frjóvga og eru fæða fyrir önnur dýr, þau þrífa líka og eru hluti lífmassans á jörðinni.

Það er ekkert lát á því hvernig við mennirnir beygjum jörðina og íbúa hennar undir okkur og tortímum þeim ef okkur þykir henta. Helsti skaðvaldurinn er skordýraeitur sem er notað algjöru óhófi – þetta eitur berst út um alla lífkeðjuna. Notkun DDT var bönnuð á sínum tíma, síðustu árin hefur aðaleitrið verði Roundup frá auðhringnum Monsanto. Mörg ríki í heiminum eru farin að banna þetta efni, en það er seint í rassinn gripið.

Skordýr eru gagnleg, en vissulega geta þau verið hvimleið. Maður veltir því til dæmis stundum fyrir sér, eftir að hafa orðið fyrir biti, hver sé tilgangurinn með hinum blóðþyrstu kvikindum moskítóflugum. Af hverju voru þær búnar til? Við Íslendingar búum í umhverfi þar sem þrífast afar fáar tegundir skordýra, en við höfum þó mýið við Mývatn sem hefur verið óvenju skætt í ár. Íslendingarnir sem fluttu til Vesturheims á árunum frá 1875 til 1914 lentu margir á svæðum sem eru sannkallað flugnahelvíti, kalt á vetrum en moskítóbit á sumrum.

Nú eru moskítóflugur til umræðu vegna leiks Íslands og Nígeríu í Volgograd. Volgograd hét einu sinni Stalíngrad, varð tákn um sigurinn yfir Hitlers-Þýskalandi. (Það er eiginlega bara tímaspursmál hvenær Pútín nefnir borgina Stalíngrad upp á nýtt.) En meðal þess sem hrelldi þýsku innrásarherina voru moskítóflugur á mýrum, í fenjum og vatnasvæðum Rússlands. Við erum að tala um alvöru flugur með stóra stingi, þær reka þá djúpt inn í holdið og blóðið spýtist út. Sjá meðfylgjandi mynd.

Nú safnast moskítóflugur saman undir flóðljósum á leikvangnum í Volgograd og gæða sér á áhorfendum og leikmönnum. Það er ekki þægilegt. Hvað er til ráða? Á Facebook þar sem var umræða um þetta var talað um gagnsemi b-vítamíns, neftóbaks og svo eru náttúrlega til einhver efni í úðabrúsum. Reynslan er þó sú að moskítóflugur kæri sig kollótta um svona og haldi bara áfram að stinga eins og enginn sé morgundagurinn.

Leikur Íslands og Nígeríu er á föstudaginn. Gera má ráð fyrir því að Nígeríumennirnir séu vanari skordýrum en Íslendingarnir og hafi jafnvel meira viðnám gegn skordýrabiti. Getur þetta skipt sköpum? Kannski á hitinn eftir að leika okkar menn verr, en spáð er allt að 35 stiga hita og líkast til er fjarskalega rakt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Breskur auðkýfingur tryggir sér yfirráð yfir fleiri jörðum í Vopnafirði

Breskur auðkýfingur tryggir sér yfirráð yfir fleiri jörðum í Vopnafirði
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

„Tal um kynferðislega áreitni af minni hálfu á ekki við rök að styðjast“

„Tal um kynferðislega áreitni af minni hálfu á ekki við rök að styðjast“
Eyjan
Í gær

Vilhjálmur Birgisson: „Hugsið ykkur hvað leikurinn á milli atvinnurekenda, sveitafélaga og ríkis er hryllilega ójafn“

Vilhjálmur Birgisson: „Hugsið ykkur hvað leikurinn á milli atvinnurekenda, sveitafélaga og ríkis er hryllilega ójafn“
Eyjan
Í gær

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir ferðaþjónustuna aðeins vilja græða sem mest á náttúrunni og ekki greiða fyrir

Segir ferðaþjónustuna aðeins vilja græða sem mest á náttúrunni og ekki greiða fyrir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Undirverktakar hjá Strætó telja sig verða fyrir tjóni vegna framsals samnings úr þrotabúi Prime Tours – „Skýrt og augljóst kennitöluflakk“

Undirverktakar hjá Strætó telja sig verða fyrir tjóni vegna framsals samnings úr þrotabúi Prime Tours – „Skýrt og augljóst kennitöluflakk“