Eyjan

Dagur áfram borgarstjóri – „Vonbrigði fyrir borgarbúa“ segir Eyþór Arnalds

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 12. júní 2018 11:21

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verður áfram borgarstjóri næstu fjögur árin. Þetta kom fram á blaðamannafundi hins nýja meirihluta sem haldinn var í Breiðholtinu í dag.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, verður formaður borgarráðs og Pawel Bartoszek, Viðreisn, verður forseti borgarstjórnar síðustu þrjú árin á kjörtímabilinu.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, verður forseti borgarstjórnar fyrsta árið áður en Pawel tekur við.

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, verður varaformaður borgarráðs og formaður umhverfis- og hverfismála, sem er nýtt svið.

 

Samkvæmt tilkynningu frá meirihlutanum kemur fram að umhverfismál, jafnréttismál, lýðræði, samfélag fyrir alla, þjónusta borgarinnar, húsnæðismál og borgarlína verði meginatriði hjá nýjum meirihluta.

Farið var yfir helstu atriði samstarfssáttmála flokkanna en í upphafsorðum sáttmálans segir:

„Við sem myndum meirihluta borgarstjórnar höfum sammælst um að gera góða borg betri. Við ætlum að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir okkur öll með nægu framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, heilnæmu umhverfi, skilvirkum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og einfaldri, aðgengilegri og lýðræðislegri umsýslu. Við ætlum að auka lífsgæði fólks og búa til borg þar sem það er gott að vera og gera. Við sem myndum meirihluta borgarstjórnar á kjörtímabilinu spönnum breitt pólitískt litróf. Við höfum fjölbreytta sýn og ólíkar áherslur en það sem sameinar okkur eru hagsmunir og lífsgæði borgarbúa og skynsamleg uppbygging Reykjavíkur til framtíðar. Að því marki stefnum við í þessum sáttmála.“

Önnur ráð:

Umhverfis- og heilbrigðisráð: Líf Magneudóttir

Formaður Mannréttinda- og lýðræðisráðs: Dóra Björt Guðjónsdóttir

Skóla- og frístundaráð: Skúli Helgason

Velferðarráð: Heiða Björg Hilmisdóttir

Skipulags- og samgönguráð: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Menningar- og íþróttaráð: Pawel Bartoszek fyrsta árið en Hjálmar Sveinsson tekur svo við

 Ný borgarstjórn tekur við á borgarstjórnarfundi sem haldinn verður 19. júní nk.

 

„Vonbrigði fyrir borgarbúa“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, líst ekki vel á nýjan meirihluta. Hann segir það vonbrigði fyrir borgarbúa að fá sama borgarstjórann og sama meirihlutann sem endurspegli ekki vilja kjósenda:

 

„Mér sýnist þetta ekki vera neinn nýr meirihluti. Hann er í raun bara framlengdur og reistur við, en þetta er auðvitað bara gamli meirihlutinn og endurspeglar ekki niðurstöður kosninga. Þetta eru ekki breytingar. Þetta eru vonbrigði fyrir borgarbúa, því þeir kusu breytingar, en fengu þær ekki.“

Eyþór segist tilbúinn til að vinna með Sósíalistum og öðrum flokkum í öflugri andstöðu:

„Munurinn núna frá fyrri tíð er að nú eru komnir fleiri flokkar í andstöðu, átta manna öflugur Sjálfstæðisflokkur, ásamt Sósíalistum, Miðflokki og Flokki fólksins. Við viljum vinna með öllum sem stunda uppbyggilega gagnrýni á þennan meirihluta. Hann var gagnrýndur frá bæði hægri og vinstri fyrir kosningar og ég á von á að það verði áfram.“

Eyþór vildi ekki gefa upp hver ásteytingarsteinninn var í viðræðum Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eftir kosningar:

„Við áttum ágætt spjall við Viðreisn, bæði við Pawel og Þórdísi og vildum fara í breytingar. En þau völdu það hinsvegar að verja gamla meirihlutann, sem ég tel vera mistök hjá þeim. Ásteytingarsteinn?  Það er margt sem sameinar kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar í borgarmálum, við viljum lækka skatta og álögur til dæmis, þannig að ég tel að við hefðum klárlega verið betri samstarfsaðili,“

sagði Eyþór.

Aðspurður hvort það hefði verið inni í myndinni á einhverjum tímapunkti að ráða utanaðkomandi borgarstjóra sagði Eyþór:

„Viðreisn verður að svara fyrir það. En margir sem kusu Viðreisn bjuggust eflaust ekki við að fá sama borgarstjórann og sama meirihlutann.“

Sögusagnir hafa hermt að Eyþór hyggðist ekki sitja í minnihluta í borgarstjórn, þar sem honum mistókst að verða borgarstjóri.

Ætlar hann að sitja í minnihluta ?

 „Já já. Ég er kjörinn og við komum saman 19. júní, það er planið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
í gær

Leiga í samræmi við greiðslugetu í almenna íbúðakerfinu

Leiga í samræmi við greiðslugetu í almenna íbúðakerfinu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hjörleifur Guttormsson og Júlíus Sólnes fá aðstöðu í Jónshúsi

Hjörleifur Guttormsson og Júlíus Sólnes fá aðstöðu í Jónshúsi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sanna útskýrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn: „Rangt að stilla því svo fram að sósíalistar hafi verið að auka veg Sjálfstæðismanna“

Sanna útskýrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn: „Rangt að stilla því svo fram að sósíalistar hafi verið að auka veg Sjálfstæðismanna“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ný bæjarstjórn tekin við í Hafnarfirði

Ný bæjarstjórn tekin við í Hafnarfirði
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Forsætisráðherra opnar EURAM ráðstefnu og heimsækir Háskóla Íslands

Forsætisráðherra opnar EURAM ráðstefnu og heimsækir Háskóla Íslands
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Innviðafjárfesting á Íslandi næstum tvöfalt heimsmeðaltal

Innviðafjárfesting á Íslandi næstum tvöfalt heimsmeðaltal
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Páll Gunnar Pálsson: „Ekki heppileg staða útfrá sjónarhóli samkeppninnar“

Páll Gunnar Pálsson: „Ekki heppileg staða útfrá sjónarhóli samkeppninnar“