fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Norður Kórea: líkur á kjarnorkuafvopnun?

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 8. júní 2018 19:00

Albert Jónsson, fyrrum sendiherra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albert Jónsson, fyrrum sendiherra, ritar:

Til að reyna að meta hvað gæti komið út úr Singaporefundi Trumps, Bandaríkjaforseta, og Kim Jong Un, leiðtoga Norður Kóreu, 12. júní næstkomandi þarf að hafa í huga eðli og einkenni alþjóðakerfisins og sögu kjarnavopna. Fyrsta dæmið um kjarnorkuafvopnun var Suður Afríka undir minnihlutastjórn hvítra manna. Aðstæður voru mjög sérstakar og eiga ekki við Norður Kóreu. Sama gildir um þegar Hvíta Rússland og Kasakstan skiluðu til Rússlands kjarnavopnum sem urðu eftir á landssvæði þeirra við hrun Sovétríkjanna 1991. Það gerði Úkræna einnig í sérstöku samkomulagi við kjarnavopnaveldi, sem eitt þeirra, Rússland, hefur þverbrotið með innlimun Krímar og hernaðaríhlutun í innanlandsátök í austurhluta Úkrænu. Önnur aðildarríki samkomulagsins hafa ekki komið henni til varnar. Stjórn Norður Kóreu hefur væntanlega dregið lærdóm af þessu máli, þótt afvopnun Úkrænu hafi átt sérstakar forsendur, sem eigi ekki við Norður Kóreu. Eftir stendur að almennt láta ríki sem eiga kjarnavopn þau ekki af hendi. Norður Kórea hefur ekki ástæðu til að fara öðru vísi að, reyndar enn síður ástæðu til þess en hin átta kjarnavopnaríkin í heiminum.

Alþjóðakerfinu er gjarnan lýst þannig að það sé anarkískt, sem er byggt á því að ekkert vald er æðra hinum fullvalda ríkjum. Það er ekkert yfirríkjavald. Kerfið geti því ekki tryggt öryggi aðildarríkjanna og þau verði að leita leiða til að treysta það. Þótt aðstæður ríkja að þessu leyti séu auðvitað breytilegar, á þetta klárlega við fámennt, fátækt ríki, eins og Norður Kóreu, hvers leiðtogi, Kim Jong Un, er vinafár alræmdur einræðisherra, harðstjóri og fangabúðastjóri. Hann er leiðtogi stjórnar, sem ásamt forverum ber ábyrgð á dauða fjölda norður kóreskra borgara. Tala þeirra sem hafa verið teknir af lífi, dáið í fangelsum og þrælabúðum, og vegna hungurs af völdum stjórnarinnar, nær að öllum líkindum milljónum frá lokum Kóreustríðsins 1953. Þá hefur Norður Kórea í áratugi ógnað Suður-Kóreu og unnið að þróun og smíði kjarnavopna og notað í þeim tilgangi lygar og undirferli og brotið alþjóðlega saminga. Kim er því í verðskuldaðri ónáð vestrænna ríkja og veit að Bandaríkin, voldugasta ríki heims, hafa viljað grafa undan honum til að losna við hann og stjórn hans.

Ríki verða sér ekki út um kjarnavopn til að nota þau til að ná tilteknum pólitískum markmiðum, eins og má gera með venjulegum herstyrk. Til þess er eyðingarmáttur kjarnavopna of mikill. Þvert á móti er litið á þau fyrst og síðast þannig að þau séu fælingarvopn og til þrautavara (last resort) gegn tilvistarógn (existential threat).

Stjórn Norður Kóreu hefur ærna ástæðu til að ætla að slík ógn steðji að henni. Jafnvel þótt Bandaríkjaforseti fullvissaði Kim um öryggi hans veit sá síðarnefndi að í alþjóðakerfinu er slíku ekki fyllilega treystandi og enn síður þegar í hlut á stjórnvald af því tagi sem hann er leiðtogi fyrir. Kim er og auðvitað kunnugt um sögu stjórnarskipta í ríkjum í þriðja heiminum í kjölfar hernaðar eða undirróðurs af hálfu bandarískra stjórnvalda. Nýjasta dæmið um það er fall Gaddafís einræðisherra Líbíu á árinu 2011.

Frá upphafi atómaldar 1945 hefur verið eftirsókn eftir kjarnavopnum í alþjóðakerfinu. Kjarnavopnaveldi í heiminum eru nú orðin níu. Fleiri hafa reynt að eignast þessi vopn en ekki tekist, s.s. Sýrland, Írak og Líbía.

Vegna hræðilegra afleiðinga átaka með kjarnavopnum og hættu á slíkum átökum vegna mistaka hefur verið reynt að vinna markvisst gegn útbreiðslu kjarnavopna. Það er önnur saga en einkum er horft til í þessum pistli, en grundvöllur hennar er sérstakur samningur gegn frekari útbreiðslu kjarnavopna til annarra ríkja (Non Proliferation Treaty) en þeirra fimm kjarnavopnavelda, sem voru til þegar samingurinn var gerður á árinu 1968. Þeim hefur þrátt fyrir þetta fjölgað frá 1968 um næstum helming sem í grunninn skýrist af því að litið er svo á að kjarnavopn séu hin endanlegu fælingarvopn og í þeim felist endanleg trygging tilvistarhagsmuna.

Kjarnavopn virðast einnig geta aukið mjög álit ríkja og virðingu jafnvel langt umfram það sem þau hafa burði til að öðru leyti. Kim Jong Un, einræðisherra yfir bláfátæku þróunarríki, er eftir öllum sólarmerkjum að dæma á leið til fundar við Bandaríkjaforseta eftir nokkra daga. Eina sjáanlega ástæðan fyrir því að Kim verður sýndur sá sómi er að Norður Kórea á kjarnavopn. Loks birtast þau áhrif kjarnavopna í þessu máli öllu að vegna þess að Norður Kórea á þau eiga Bandaríkin, langöflugasta herveldi heims, engra góðra kosta völ. Eyðingarmáttur kjarnavopna þýðir að hættan á því að Norður Kórea ætti, þó ekki nema örfá kjarnavopn eftir árás frá herveldinu mikla, fæli í sér óásættanlega áhættu og að árásin hefði misheppnast.

Ekkert hinna ríkjanna átta sem, auk Norður Kóreu, eiga kjarnavopn hefur í bígerð að hætta að eiga þau. Þetta eru Bandaríkin (6550 vopn), Bretland (215), Frakkland (300), Indland (130), Ísrael (80), Kína (270), Pakistan (140) og Rússland (7100). Norður Kórea er talin eiga 15 kjarnavopn og efni í 30-40 til viðbótar. (https://www.armscontrol.org/factsheets/Nuclearweaponswhohaswhat)

Í sögunni hafa fjögur ríki látið kjarnavopn af hendi. Fyrsta dæmið er þegar minnihlutastjórn hvítra manna í Suður Afríku afvopnaðist að þessu leyti áður en meirihluti svartra íbúa landsins tók við völdum 1994. Hvati minnihlutastjórnarinnar til að eiga vopnin hafði horfið með kalda stríðinu og þeirri  hættu, sem stjórnin trúði að henni stafaði frá Sovétríkjunum í bandalagi við nágrannaríki Suður Afríku. Jafnframt óttaðist minnihlutastjórnin að Bandaríkin yrðu hlutlaus í þeim átökum vegna andstyggðar á kúguninni og aðskilnaðarstefnunni sem beitt var gagnvart svarta meirihlutanum í landinu. Fljótlega eftir að þessi hætta var liðin hjá hvarf stjórn hvítra manna frá aðskilnaðarstefnunni og ákvað að láta af völdum. Kjarnavopnin voru orðin án tilgangs fyrir þá sem höfðu smíðað þau, og þau höfðu enga  hugsanlega kosti í för með sér fyrir öryggi landsins eða þær áskoranir sem það stóð frammi fyrir.

Eftir fall Sovétríkjanna 1991 afhentu Hvíta Rússland, Kasakstan og Úkræna rússneskum stjórnvöldum sovésk kjarnavopn, sem höfðu verið staðsett í þessum þremur fyrrum sovétlýðveldum. Hvíta Rússland var þá og er enn í afar nánu sambandi við Rússland og þessi tvö ríki stofnuðu ríkjasamband, sem reyndar hefur enn ekki orðið formlega að veruleika. Kasakstan lét sovésku kjarnavopnin greiðlega af hendi og er í nánu sambandi við Rússland. Hvorugt þessara dæma um kjarnorkuafvopnun á því við Norður Kóreu, og eru ekki sambærileg við dæmið um Suður Afríku, sem gaf upp á bátinn vopn sem þarlend stjórnvöld höfðu þróað og smíðað.

Dæmið um Úkrænu skiptir máli að einu mikilvægu leyti þegar kemur að Norður Kóreu. Úkræna lét af hendi nokkur þúsund sovésk kjarnavopn ásamt langdrægum eldflaugum og sprengjuflugvélum. Í staðinn hétu Rússland, Bandaríkin og Bretland að virða sjálfstæði, fullveldi og landamæri Úkrænu sem og að beita hana ekki valdi eða hóta því. Þetta allt var í sérstöku samkomulagi sem var undirritað á fundi í Búdapest (Budapest Memorandum) um aðild sovétlýðveldanna fyrrverandi að áðurnefndum samningi frá 1968 gegn útbreiðslu kjarnavopna.  Tvö kjarnavopnaveldi til viðbótar, Frakkland og Kína, gáfu ríkjunum þremur álíka loforð í sérstökum yfirlýsingum.

Í Búdapest samkomulaginu fékk Úkræna áðurnefndar tryggingar og skuldbindingar í Helskinki sáttmálanum um samvinnu og frið í Evrópu, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna voru ítrekaðar í samhengi við kjarnorkuafvopnun Úkrænu. Búdapest samningurinn var hins vegar ekki bindandi, var til að mynda ekki lagður fyrir Bandaríkjaþing til staðfestingar.

Eins og fyrr segir á ekkert framangreindra dæma um kjarnorkuafvopnun við aðstæður Norður Kóreu. Eftir stendur að almennt láta ríki, sem eignast    kjarnavopn, þau ekki af hendi.

Rússland braut Búdapest samkomulagið 2014 með innlimun Krímar og með því að hefja íhlutun í átök í austur hluta Úkrænu. Bandaríkin og Bretland hafa ekki komið Úkrænu til varnar og veitt henni takmarkaða aðstoð að öðru leyti í deilum við Rússa. Það var því lítið að marka Búdapestsamninginn og hér má væntanlega finna eina ástæðu enn í huga stjórnarherra í Norður Kóreu að treysta ekki loforðum sem þeir fengju gegn því að láta af hendi kjarnavopnin.

 

Trump virðist framan af ekki hafa áttað sig á að Singaporefundinum gæti ekki lokið þannig að leiddi beinlínis til kjarnorkuafvopnunar Norður Kóreu. Nú hafa yfirlýsingar breyst og virðist Bandaríkjastjórn sátt við að afvopnunin verði í skrefum. Hins vegar hefur Norður Kóreustjórn ekki, svo vitað sé að minnsta kosti, fallist á það í undirbúningi fundarins að lokaskrefið verði kjarnorkuafvopnun. Það er í takt við það sem margir sérfræðingar álíta, sem er að Kim-stjórnin muni ekki fallast á kjarnaorkuafvopnun og hafi ekki ástæðu til. Þvert á móti. Aðstæður hafa ekki breyst að því leyti að ætla má að Kim Jong Un geri ráð fyrir að tilvistarógn steðji áfram að stjórn hans, og enn frekar en áður fái hún ekki notið skjóls frá kjarnavopnum. Loforðum um annað verður trauðla treyst.

Það er viðbúið að Singaporefundurinn fari annað hvort út um þúfur eða marki upphaf ferils, sem gæti jafnvel tekið mörg ár. Í þessu fælist væntanlega að stöðva tilraunir og smíði nýrra vopna, að fækkað yrði í kjarnorkuherstyrk Norður Kóreu og dregið úr getu hans að öðru leyti svo sem með því að takmarka eða stöðva eldflaugasmíði. Einnig er hugsanlegt að Kim féllist á að fækka venjulegum vopnum, einkum fjölmörgum stórskotavopnum sem ógna Seoul, höfuðborg Suður Kóreu, og veita norður kóreska hernum sterka stöðu. Lokatakmarkið, frá sjónarhóli Bandaríkjastjórnar, kjarnorkuafvopnun Norður Kóreu, yrði hins vegar í besta falli almennt orðað í niðurstöðu Singaporefundarins og framkvæmdin ófrágengin.

Heimildir

Heimasíða Alberts

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“