Eyjan

Helgi hellir sér yfir Ásmund: „Ótrúlegur dómgreindarbrestur eða vítaverður óheiðarleiki“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 8. júní 2018 22:36

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lætur Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, heyra það á Facebook síðu sinni í dag. Ástæðan er ummæli Ásmundar í garð Halldóru Mogensen úr pontu Alþingis í fyrradag, hvar hann sakaði hana um trúnaðarbrest og gagnaleka til Stundarinnar sem formaður velferðarnefndar í máli Braga Guðbrandssonar og velferðarráðuneytisins.

Helgi Hrafn skrifar:

„Eins og vonandi er vel þekkt, þá hafa Píratar verið óþolandi duglegir við að fá fram mikilvægar upplýsingar sem annars eru leyndar, til dæmis með þeim afleiðingum að einstaka greiðslur Alþingis til einstakra þingmanna eru núna birtar opinberlega. Þökk sé alræmdri forvitni Björns Levís Gunnarssonar (nf. Björn Leví Gunnarsson), sem þurfti að hafa nokkuð fyrir því að fá þessar upplýsingar, eins sjálfsögð og birting þeirra hefði nú átt að þykja.

Sömuleiðis hefur formaður velferðarnefndar og þingmaður Pírata, Halldóra Mogensen, verið alltof dugleg við að sinna eftirlitshlutverki þingsins gagnvart velferðarráðherra, sér í lagi um það hvort að ráðherrann hafi sinnt sannleiksskyldu sinni gagnvart þinginu, en hún gerðist sek um það, að kalla eftir gögnum frá ráðuneytinu sem skiptu öllu máli við að komast til botns í því hvort ráðherrann hefði sagt þinginu allan sannleikann.

Viðbrögðin hjá einum tilteknum þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Ásmundar Friðrikssonar, eru bæði fyrirsjáanleg og ómerkileg, en núna heldur hann því fram að formaður velferðarnefndar, Halldóra Mogensen, beri ábyrgð á því að trúnaðargögn um málefni barna hafi ratað til Stundarinnar. Hið rétta er að Halldóra Mogensen sá ekki einu sinni gögnin fyrr en þau höfðu þegar verið umfjöllunarefni fjölmiðla. Þetta hlýtur Ásmundur að vita mætavel, enda hefur þetta margsinnis komið fram. Tímalínan einfaldlega stenst ekki.

Þessi viðbrögð eru þó fyrirsjáanleg af hálfu þeirra sem er illa við þetta aukna gegnsæi og virkara eftirlitshlutverk Alþingis, en Ásmundur Friðriksson virðist sérstaklega sár yfir útreiðinni sem hann fékk í kjölfar þess að Björn Leví Gunnarsson fékk loksins fram upplýsingar um akstursgreiðslur til þingmanna, gegn vilja Ásmundar. Ásmundur hafði sjálfur harðneitað að gefa upp útgreiddan aksturskostnað til sín, ólíkt þáverandi þingmanni Pírata, Evu Pandoru Baldursdóttur (nf. Eva Pandora Baldursdóttir), sem gaf hann að sjálfsögðu allan upp, opinberlega og hiklaust. Síðan þá hafa þessar greiðslur, og fleiri, verið gefnar upp á vefsíðu Alþingis.

Núna ætlar Ásmundur því að mála upp þá mynd að Píratar vilji alltof mikið af upplýsingum og að þeim sé í þokkabót ekki treystandi fyrir trúnaðargögnum. Þetta eru dæmigerð viðbrögð þeirra sem óttast gegnsæi og að eftirlitshlutverk Alþingis sé virkt.

Samanber þessu reyndi Ásmundur Friðriksson, með einstakri rökleysu í pontu Alþingis nýlega, að klína því á formann velferðarnefndar og þingmann Pírata, Halldóru Mogensen, að trúnaðargögn um barnaverndarmál hafi ratað í Stundina. Svo það sé sagt strax, þá er þetta uppspuni og lygi, byggður á farsakenndri rökleysu Ásmundar Friðrikssonar, bersýnilega vegna þess að honum er í nöp við velgengni Pírata við að fá fram gögn og taka ábyrgð ráðherra gagnvart þinginu alvarlega.

Það furðulega og reyndar næstum því áhugaverða, er hvernig Ásmundur dregur þessa ályktun. Hann gerir það út frá því, að ómerkilegt komment hans í garð Pírata og Stundarinnar, sem hann sjálfur sendi langtum fleiri aðilum en formanni velferðarnefndar, rataði í frétt Stundarinnar á sínum tíma. Hann ýtti á „Reply-All“ takkann við tilkynningu um opinn fund, hreytti út úr sér einhverjum ómerkilegum ónotum í samstarfsfólk sitt og kenndi síðan formanni velferðarnefndar um að þau „trúnaðargögn“ hafi lekið í fjölmiðla. Í pontu kallaði hann það nánar til tekið „óvarlega meðferð tölvupósta“ af hálfu formannsins.

Nú finnst mér sjálfum ekkert sniðugt að pósturinn hans hafi ratað í fjölmiðla, en það að Ásmundur hreyti ónotum í samstarfsfólk sitt á fullt af fólki, og að fleira fólk frétti af því, er ekki það sama og að leka trúnaðargögnum. Þetta var tilkynning um opinn fund, sem hefði rétt eins mátt senda á alla fjölmiðla landsins í CC. Að kenna formanninum um „óvarlega meðferð tölvupósta“ er galið, sérstaklega með hliðsjón af því að ef þetta átti að vera þvílíkur trúnaðarpóstur, þá ætti Ásmundur væntanlega að hafa lært þá lexíu, sem flest okkar læra eflaust með svipuðum hætti, að athuga hverjir séu viðtakendurnir þegar svarað er með „Reply-All“.

Ég hef sjálfur gert þau mistök að nota óvart „Reply-All“ og þau eru algjörlega skiljanleg. Það er auðvelt að gera grín að því en þetta er samt eitthvað sem kemur eflaust fyrir langflesta ef ekki alla. En að nota sína eigin óvarlegu meðferð tölvupósta sem rök fyrir því að viðtakandi ónota í sinn garð hljóti að hafa lekið viðkvæmum trúnaðargögnum um barnaverndarmál er annað. Það er annaðhvort ótrúlegur dómgreindarbrestur eða vítaverður óheiðarleiki. Þar sem þetta snýst ekki um persónu Ásmundar læt ég í friði að velta fyrir mér hvort það sé; punkturinn er sá að þetta er rangt.

Ásmundur Friðriksson ætti að biðja Halldóru Mogensen afsökunar á þessum ómerkilegu, innihaldslausu og röklausu dylgjum sínum.

Síðan mætti hann gjarnan velta fyrir sér, hvort það eigi almennt gera ráð fyrir því að fólk sem fái hreytt í sig ónotum af samstarfsfólki sínu beri að þegja um það. Við vorum reyndar sum farin að vona að fólk væri hætt að gera ráð fyrir sérstökum trúnaði um dólgslega framkomu sína við annað fólk í kjölfar nýlegrar umræðu um framkomu, mörk og ábyrgð. Það er þó önnur spurning, sem kemur trúnaðargögnum um barnaverndarmál ekkert við, eins og Ásmundur hlýtur að sjá og vita sjálfur.

Þetta er léleg tilraun Ásmundar Friðrikssonar til að gera gegnsæi og virkt eftirlitshlutverk Alþingis tortryggileg. Það hefur verið skortur á hvoru tveggja of lengi og það er deginum ljósara að Ásmundur Friðriksson óttast einfaldlega það sem er satt, að Píratar séu ekki bara viljugir heldur einnig megnugir um að breyta því.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 21 klukkutímum

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin
Eyjan
Fyrir 22 klukkutímum

Segir tryggingarfélögin „mergsogin“ af eigendum: „Má ekki kvikna í húsi án þess að félögin sendi frá sér afkomuviðvörun“

Segir tryggingarfélögin „mergsogin“ af eigendum: „Má ekki kvikna í húsi án þess að félögin sendi frá sér afkomuviðvörun“
Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Furðulegt frumhlaup sendiherra

Furðulegt frumhlaup sendiherra
Eyjan
Í gær

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“
Eyjan
Í gær

Kvika kaupir GAMMA á lækkuðu verði

Kvika kaupir GAMMA á lækkuðu verði