Eyjan

Markaðsvæðing eða félagslegar lausnir?

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 21. maí 2018 09:00

Þorvaldur Þorvaldsson. Trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.

Nú í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna er mjög látið í veðri vaka að allt sé í lukkunnar velstandi í Reykjavík, borgin sé lifandi, skemmtileg og mikið að gerast. Skóflustungur eru teknar og klippt á borða sem aldrei fyrr. Víst er að miklir peningar eru í umferð, ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega og miklar framkvæmdir eru í gangi. Vandinn er bara sá að í Reykjavík er stærstur hluti uppbyggingarinnar knúinn áfram af fjármagninu, og þegar markaðslögmál kapítalismans ráða ferðinni, safnast auðurinn á fáar hendur á kostnað okkar hinna. En þegar slær í bakseglin er gróðanum líka bjargað á kostnað hins fátæka almúga. Þá kemur það líka niður á velferðinni, skólunum, atvinnutækifærum og lífskjörunum í víðum skilningi. Þessar sveiflur þekkjum við af nýlegri reynslu.

Bak við glansmyndina

Bak við þá glansmynd sem fráfarandi meirihluti bregður upp af lífinu í borginni eru þúsundir fjölskyldna sem ekki hafa borið sitt barr eftir fjármálahrunið fyrir áratug, og sér ekki fram á að geta það. Þar ræður mestu að braskarar drottna yfir húsaleigumarkaðnum, og leigan hækkar stöðugt. Á sama tíma eru lúxusíbúðir til sölu á Hafnartorgi fyrir yfir milljón á fermetrann. Heimilislausum hefur fjölgað tvöfalt á þessu kjörtímabili þrátt fyrir yfirlýst góðæri. Kvíðaröskun og þunglyndi hefur aukist mikið og leggst þungt á einstaklingana og samfélagið.

Mikill fjöldi fólks er fastur í fátækt og margvíslegum félagslegum vanda. Leikskólar hafa þurft að loka deildum vegna manneklu. Grunnskólakennarar eru langþreyttir á lökum kjörum og slæmri vinnuaðstöðu, og við blasir langvarandi skortur á menntuðum kennurum vegna lítillar aðsóknar í kennaranám. Þessi vandamál eru beinar afleiðingar markaðshyggjunnar, og þau verða því ekki leyst með áframhaldi hennar. Brauðmolarnir sem hrynja af borði auðvaldsins eru fáir og smáir. Metafkoma borgarsjóðs á einu ári hrekkur skammt til að leysa samfélagsleg vandamál, þegar ekki er tekið á orsökum þeirra. Þá getur að óbreyttu komið upp sú staða, t.d. með afturkipp í ferðaþjónustu, að húsnæði standi autt, en húsnæðisvandi fátæks fólks verði áfram óleystur.

Annar valkostur

Fyrir um það bil áratug fór fjöldi byggingarverkefna í þrot vegna kreppunnar. Í kjölfar þess hefði Reykjavíkurborg verið í lófa lagið að yfirtaka nokkurn hluta þeirra og ljúka þeim. Þannig hefði mátt draga verulega úr atvinnuleysi og koma í veg fyrir þann húsnæðisskort sem skapaðist á næstu árum þar á eftir. Einnig hefði verið hægt að grípa fyrr í taumana og takmarka útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna. Þá gætum við í dag verið í þeirri stöðu að Reykjavíkurborg hefði nægilegt húsnæði til félagslegrar útleigu til að hafa áhrif á markaðinn og koma í veg fyrir okur.

Það gæti stuðlað að auknum jöfnuði, minni streitu og kvíða. Minni kostnaður væri við fjárhagsstuðning til borgarbúa og því meiri peningar til að standa undir rekstri skólanna og og öðrum samfélagslegum verkefnum. Enn fremur gæti borgin skipulagt verðmætaskapandi atvinnurekstur á ýmsum sviðum til að tryggja atvinnutækifæri fyrir alla, og einnig til að skapa tekjur til að standa undir samfélagslegum verkefnum á sviði velferðar, samgangna, sorphirðu, o.fl.

Reykjavíkurborg ber lagaleg skylda til að tryggja íbúum sínum þak yfir höfuðið og bærilega afkomu. Þá skyldu hefur borgin ekki rækt vegna þess að markaðsöflin hafa ráðið ferðinni. Það er því nauðsynlegt að breyta um stefnu til að losa borgarbúa undan oki fátæktar og þeim áhyggjum og streitu sem því fylgir.

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin hefur markað stefnu sem byggist á félagslegum lausnum til að tryggja jöfnuð og réttlæti í samfélaginu. Þessi stefna verður þó ekki að veruleika með því einu að kjósa R-lista Alþýðufylkingarinnar í komandi kosningum. Til þess er nauðsynlegt að fjöldinn fylki sér til baráttu fyrir aukinni félagsvæðingu og einstökum markmiðum sem beinast í þá átt. Ýmsir munu beita sér hart gegn því að minnka svigrúm fyrir ofurgróða auðmagnsins, en fleiri munu taka undir kröfu um réttlátara samfélag, sem byggist á sanngjörnum hlut fyrir sanngjarnt framlag.

Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður

Oddviti Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 21 klukkutímum

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin

Reykjavíkurborg leysir leikskólavandann: Kostar fimm milljarða næstu fimm árin
Eyjan
Fyrir 22 klukkutímum

Segir tryggingarfélögin „mergsogin“ af eigendum: „Má ekki kvikna í húsi án þess að félögin sendi frá sér afkomuviðvörun“

Segir tryggingarfélögin „mergsogin“ af eigendum: „Má ekki kvikna í húsi án þess að félögin sendi frá sér afkomuviðvörun“
Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Furðulegt frumhlaup sendiherra

Furðulegt frumhlaup sendiherra
Eyjan
Í gær

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“

Gylfi stígur til hliðar um áramótin. „Nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma“
Eyjan
Í gær

Kvika kaupir GAMMA á lækkuðu verði

Kvika kaupir GAMMA á lækkuðu verði