fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Spá hækkandi húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 16. maí 2018 09:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Spáð er að leiguverð muni fara hækkandi á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum og nálgist kaupverð fasteigna. Rætt er við þá Ara Skúlason, sérfræðing hjá Landsbankanum og Ólaf Heiðar Helgason hagfræðing hjá Íbúðarlánasjóði í Morgunblaðinu í dag. Ólafur segir að hægt hafi á fjölgun Airbnb íbúða í skammtímaleigu:

„Væntingar fólks til ferðaþjónustu hafa áhrif. Við sjáum merki um að það sé að hægja talsvert á ferða- þjónustu. Væntingar um hægari vöxt í ferðaþjónustu geta einar og sér valdið minni kaupþrýstingi á Airbnb-íbúðum. Við eigum eftir að sjá hvernig sumarið verður. Það er háannatíminn. Ef það dregur úr uppkaupum á íbúðum fyrir Airbnb mun það leiða til minni hækkana á íbúðamarkaði en ella.“

Vísitala leiguverðs hjá Þjóðskrá segir leiguverð á uppleið. Ólafur segir að greiningaraðilar geri ráð fyrir 6-9 % hækkun á nafnverði fasteigna að meðaltali hérlendis á þessu ári:

„Almennt séð er samband á milli íbúðaverðs og leiguverðs. Við sáum íbúðaverð hækka talsvert hraðar en leiguverð í fyrra. Því þarf ekki að koma á óvart að leiguverð hækki nú tímabundið hraðar en íbúðaverð.“

Ari Skúlason segir við Morgunblaðið að leiguverðið hafi ekki haldið í við fasteignaverðið síðan 2016:

„Verðþróun á fjölbýli er töluvert undir væntingum. Síðustu sex mánuði hefur nafnverðið hækkað um rúmlega 1%. Það koma nýjar tölur um þróunina seinna í vikunni. Ef staðan verður svipuð erum við að horfa til hækkunar fasteignaverðs undir 5 prósentum milli ára. Ef sú þróun heldur áfram held ég að leiguverðið muni nálgast þróun kaupverðsins. Ástæðan fyrir því að leiguverðið hefur ekki haldið í við fasteignaverðið er væntanlega hinar miklu hækkanir á kaupverði. Hraðinn í hækkunum er svo mikill.“

Þá nefnir Ari einnig að söluverð nýrra íbúða per fermetra á höfuðborgarsvæðinu sé 12% hærra en í gömlum íbúðum, það sem af er ári. Því meira sem selst af nýjum íbúðum ætti því að leiða til hærra kaupverðs. Þau áhrif muni því ekki koma fram fyrr en með þinglýsingu eignanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt