fbpx
Eyjan

Stúdentar krefjast svara

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 15. maí 2018 20:31

Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur ályktað um fyrirhugaða uppbyggingu stúdentaíbúða í Skerjafirði og húsnæðismál stúdenta. Þar er sagt að skólinn hafi ekki staðið við gerða samninga og engin umræða hafi farið fram um Dunagareitinn. Þá sé ekkert að frétta af deiliskipulagi við Gamla Garð.

Ályktunin er svohljóðandi:

Í gær, mánudaginn 14. maí klukkan 14:00, var undirrituð viljayfirlýsing fyrir uppbyggingu 160 stúdentaíbúða í Skerjafirði og þá sérstaklega fjölskylduíbúða. Tillagan var lögð fram í borgarráði og samþykkt þar. Stúdentaráð fagnar auðsýnilegum áhuga borgaryfirvalda á húsnæðismálum stúdenta og frumkvæði þeirra. Uppbygging stúdentaíbúða er mikilvægt hagsmunamál stúdenta þar sem um 800 stúdentar eru á biðlista eftir íbúðum og Félagsstofnun Stúdenta (hér eftir FS)  nær einungis að þjónusta um 9% háskólanema í Háskóla Íslands, þegar Norðurlandaþjóðir þjónusta að meðaltali 15% nemenda og stefna að því að geta þjónustað 20% fyrir árið 2020.

Ekki sýna allir uppbyggingu stúdentaíbúða slíkan áhuga né frumkvæði í starfi að mati ráðsins. Á háskólasvæðinu sjálfu hefur uppbygging stúdentaíbúða á reit Gamla Garðs staðið til í um tvö ár. Í mars 2016 var undirritaður samningur þar sem kom fram að lóð Gamla Garðs myndi nýtast í uppbyggingu stúdentaíbúða og yrðu íbúðirnar undir forsjá FS en Háskólinn er ábyrgur fyrir uppbyggingu á lóðinni. Síðan þá hefur heilmikið vatn runnið til sjávar, en FS efndi til samkeppni um skipulag og grunnhönnun, deiliskipulagstillaga lá fyrir en henni var mótmælt af Minjastofnun.

Eftir gagnrýni Minjastofnunar í fyrra var ákveðið að stofna starfshóp sem myndi fjalla um málefni Gamla Garðs. Sá starfshópur samanstóð af fulltrúum Háskólans, FS, borgarinnar og stúdenta og skilaði af sér niðurstöðum í byrjun febrúar 2018, undirrituðum af rektor Háskóla Íslands. Í því samkomulagi kom meðal annars fram að Háskóli Íslands myndi leiða vinnu við endurskoðun deiliskipulags á lóð Gamla Garðs og tillagan unnin í breiðri sátt. Samhliða þeirri vinnu átti að fara fram nánari skoðun á reit við Dunhaga, og var ákveðið að niðurstaða ætti að liggja fyrir 1. maí 2018.

Í dag er 15. maí og stúdentar hafa ekkert heyrt um reitinn við Dunhaga. Engin umræða hefur farið fram í skipulagsnefnd Háskólaráðs um reitinn, né innan Háskólaráðs þrátt fyrir að fulltrúar stúdenta hafi ítrekað kallað eftir því. Samningurinn, sem er undirritaður af rektor, hefur því verið brotinn. Sömuleiðis eru engar fréttir af nýju deiliskipulagi við reit Gamla Garðs og ekki hefur enn verið fjallað um það innan Háskólaráðs.

Fyrir fulltrúum stúdenta lítur þetta svo út að Háskóli Íslands sýnir aðstæðum stúdenta í húsnæðismálum lítinn skilning. Aðrir sem hafa komið að borði varðandi uppbyggingu stúdentaíbúða hafa staðið við sitt. Vísindagarðar standa fyrir mikilli uppbyggingu núna við Sæmundargötu, borgin er áfram að úthluta lóðum til stúdenta og FS hefur lagt til nýja deiliskipulagstillögu fyrir Gamla Garð, sem Háskólinn hefur enn ekki fjallað um.

Stúdentaráð krefst þess að Háskólinn standi við undirritaða samninga og fari að vinna að deiliskipulagstillögu við Gamla Garð. Stúdentar eru að missa þolinmæðina.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á meðal húseigenda sem hafa tekið sér land í heimildarleysi og stækkað lóðir sínar

Fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á meðal húseigenda sem hafa tekið sér land í heimildarleysi og stækkað lóðir sínar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Fjölgun borgarfulltrúa kostar hundruð milljóna

Fjölgun borgarfulltrúa kostar hundruð milljóna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsóknarmenn allra flokka hafa komið í veg fyrir lægra matvöruverð hér á landi

Framsóknarmenn allra flokka hafa komið í veg fyrir lægra matvöruverð hér á landi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Óánægja innan Viðreisnar vegna Braggamálsins – Telja flokkinn vera að svara fyrir klúður annarra

Óánægja innan Viðreisnar vegna Braggamálsins – Telja flokkinn vera að svara fyrir klúður annarra