fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Reykjavík – borg á landfyllingum

Egill Helgason
Þriðjudaginn 15. maí 2018 16:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðismenn kasta fram hugmynd um byggð á landfyllingum í Örfirisey – og þá spretta upp spekingar sem finna landfyllingum allt til foráttu. Svo er því bætt við að Grandinn og Örfirisey séu mestu rokrassgöt þar sem ekkert þrífist.

Nú held ég reyndar að nokkuð langt sé í að reist verði íbúabyggð í Örfirisey – kannski er álíka langt í það og að Miklabrautin verði lögð í stokk. Hins vegar er ansi skrítið að heyra fólk tala af slíkri vanþekkingu um landfyllingar.

Staðreyndin er nefnilega sú að langstærstur hluti af húsum í Örfirisey og á Grandanum eru á landfyllingum. Þetta er auðvelt að greina á gömlum ljósmyndum, þar sem Grandinn er ekki nema ræma og Örfirisey pínulítil.

Við þetta má bæta að hafnarsvæðið í Miðborginni er meira og minna á uppfyllingum líka – ef ekki væru uppfyllingar væri fjaran upp við Hafnarstrætið. Sæbrautin er á löngum kafla á uppfyllingu, annars væri sjórin eins og forðum tíð svarrandi utan við gamla útvarpshúsið – hann varð Jóni Múla ærið umræðuefni á sinni tíð.

Eins er þetta með Eiðisgrandann – þegar ég var að alast upp var sjórinn skammt undan KR-svæðinu. Nú stendur þar heilt hverfi.

Hluti af hinni fyrirhuguðu Vogabyggð verður líka á landfyllingu í Elliðaárvogi.

En það er nóg landrými í Reykjavík, segja sumir. En nei, svo er ekki. Við höfum farið illa með landið, bruðlað með það, lagt alltof mikið pláss undir bíla. Víða er alltof langt á milli húsa.  Og svo eru líka stór græn svæði sem má alls ekki snerta, ekki fyrir nokkra muni.

Eins og ég segi, það verður ekki byggt í Örfirisey á næstunni. En það er alls ekki slæmur kostur. Hins vegar ber að gæta að einu – og það er að gera ekkert sem raskar starfsemi hafnarinnar. Í Reykjavík er ein stærsta fiskihöfn í heimi – hún er okkar dýrasta djásn í borginni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt