fbpx
Eyjan

Leggur til nýja lausn um staðsetningu Landspítala

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 15. maí 2018 17:15

Séð yfir Elliðaárvoginn Mynd-reykjavik.is

Opinn fundur Samtaka um betri spítala á betri stað fór fram í síðustu viku. Þar var málefni nýs Landsspítala rætt af fulltrúum stjórnmálaframboðanna í borginni, ásamt fagfólki. Ræddir voru kostir þess og gallar að byggja spítalann við Hringbraut eða á öðrum stað.

Meðal framsögumanna var Ólafur Sæmundsson, byggingarverktaki, sem fór yfir nokkur praktísk atriði er varða byggingu nýs Landspítala ef hann rísa skuli við Hringbraut. Ólafur talaði tæpitungulaust og skildi ekkert í mönnum að ætla að byggja spítalann við Hringbraut.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og talsmaður þess að færa spítalann, bendir á framsögu Ólafs á Facebooksíðu sinni í dag:

„Hann er með þrjátíu ára reynslu úr byggingarbransanum og hefur litla þolinmæði fyrir vitleysu,“

segir Sigmundur.

Í framsögu Ólafs kemur fram hvað myndi fylgja því að slík uppbygging færi fram í miðborginni. Meðal þess sem Ólafur nefnir er að 18 hjóla vörubílar með tengivagna þyrftu að fara 13.500 ferðir með jarðefni, tíu hjóla steypubílar þyrftu að fara 10.000 ferðir með steypu og gámabílar þyrftu að fara 1000 ferðir með stál, allt í gegnum miðborg Reykjavíkur, með tilheyrandi sliti á gatnakerfinu, svifryki og díselmengun.

„Og svo á að banna mér að keyra Skodann minn, af því að hann er með díselvél!“

sagði Ólafur og uppskar lófaklapp í kjölfarið.

Þá víkur Ólafur að Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra:

„Svo talar borgarstjórinn, læknirinn, um það líkt og hann hafi fengið hugljómun, að setja Miklubraut í stokk á sama tíma og fara á að byggja þetta nýja sjúkrahús. Ég bara skil ekkert í þessu! Hafa þessir menn bara ekkert keyrt um bæinn ?“

spyr Ólafur.

Sjálfur vill hann staðsetja nýtt sjúkrahús við Sævarhöfða við Elliðaárvog.

Þar sé skurðpunktur allra helstu umferðargatna og leiða inn í borgina. Sú staðsetning myndi einnig þurfa minna af jarðefni og hægt væri að flytja jarðveginn og allt byggingarefni með umhverfisvænni hætti, þar sem engir þungaflutningar þyrftu að fara um gatnakerfið, heldur væri hægt að leggja veg frá höfninni, sem og nota færibönd til flutninga.

Það er þó ekki ný uppástunga, en í skýrslu KPMG frá 2015 er Sævarhöfðinn nefndur sem möguleg staðsetning. Það kosti þó 21 milljarð aukalega að byggja á nýjum stað.

Sjá má myndbandið með framsögu Ólafs hér að neðan. Sjón er sögu ríkari:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum