fbpx
Eyjan

„Ætla ekki að gefa henni stjörnur eða hausskúpur, en þetta er engin heimildarmynd“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 14. maí 2018 11:27

Talsmenn fiskeldis á Íslandi eru afar óánægðir með heimildarmyndina Undir yfirborðinu sem sýnd var á RÚV í gærkveldi. Er myndin sögð áróðursmynd gegn fiskeldi, hún hafi verið einhliða í umfjöllun sinni og sé á engan hátt fullnægjandi heimild um það fiskeldi sem eigi sér stað á Íslandi, þar sem dæmi um það sem miður hafi farið í fiskeldi voru flest erlendis frá.

Einar Kr. Guðfinnsson er formaður Landssambands Fiskeldisstöðva. Hann segir myndina áróður, í samtali við Eyjuna:

„Ég ætla ekki að gefa henni stjörnur eða hausskúpur, en þetta er engin heimildarmynd. Það er augljóst. Það var aldrei tilgangurinn hjá þessum aðilum að gera slíka mynd. Þetta er áróðursmynd í þágu ákveðins málsstaðar og þeir sem hana gera eru andstæðingar fiskeldis og hafa ekki farið neitt dult með þá skoðun sína. Útkoman var því í samræmi við það sem ég bjóst við,“

segir Einar. Hann segir það eðlilega kröfu að gagnstæðum sjónarmiðum verði gerð skil á RÚV:

„Það hlýtur að vera eðlileg krafa að það fari fram umræður sem gefi kost á gagnstæðum sjónarmiðum. Þarna var mynd sýnd í klukkutíma á besta tíma. Ég fékk tuttugu mínútur á Bylgjunni í morgun og kortér á RÚV en ég þekki auðvitað ekki ritstjórnarstefnu RÚV að þessu leyti og geri engar athugasemdir við að þeir sýni áróðursmyndir. Kannski lítur RÚV svo á að það sé hluti af þeim fjölbreytileika sem þeim er ætlað að endurspegla.“

Einar segir að ekki sé ekki ráðgert að láta framleiða mynd um fiskeldi af hálfu Landssambands Fiskeldisstöðva:

„RÚV lét ekki framleiða þessa mynd og því býst ég við að ef við framleiddum mynd um fiskeldi tækju þeir henni opnum örmum. En auðvitað stendur ekkert slíkt til hjá okkur, fyrirtækin eru upptekin við að byggja upp sinn rekstur og setja fjármagn sitt þangað, en ekki í áróðursmyndagerð.“

Einar segir að myndin hafi gefið upp ranga mynd af fiskeldi á Íslandi:

„Almennt er það þannig að fiskeldi er stundað á Íslandi með allt öðrum hætti en gefið er í skyn í myndinni. Strax árið 2004 var ákveðið að loka stærstum hluta strandlengju Íslands fyrir laxeldi, sem er sá hluti sem helstu laxveiðiár okkar er að finna. Þá hefur Hafró þróað líkan þar sem metin er áhættan af fiskeldi gagnvart villtum laxastofnum og er það eindregin niðurstaða að áhættan við fiskeldið sé bundin að hámarki við þrjár til fjórar ár. Þá er vakin athygli á því í skýrslu Hafró að það sé allt öðruvísi staðið að eldinu í Skotlandi og Noregi en hér. Samkvæmt áhættumatsskýrslu Hafró kemur fram að laxeldi í Noregi og Skotlandi fer fram meðal annars við ósa laxveiðiáa, en það er ekki hér. Þá er búnaðurinn sem notaður er hér á landi allt öðruvísi en áður var og tölur frá Noregi sýna að hættan á að fiskar sleppi úr sjókvíum hefur hrunið. Þá má ekki gleyma því að langstærstur hluti þess fisks sem þó sleppur, tortímist í sjónum og gengur ekki upp í árnar. Sá hluti sem það gerir er hinsvegar ekki mjög hæfur til að hrygna, um það eru allir vísindamenn sammála.“

Í myndinni kom fram að mun skynsamlegar væri að stunda fiskeldi í landi heldur en á sjó. Það segir Einar vera alrangt:

„Því er best svarað þannig að í fyrra var framleitt 2.5 milljónir tonna af eldislaxi í heiminum. Innan við eitt prósent af því var framleitt á landi. Þeir aðilar sem stundað hafa landeldi hér á landi eru fljótir að benda á að það geti aldrei komið í stað sjókvíaeldis. Það er fjárhagslega óhagkvæmara, þar sem það kostar mikla orku. Þá þarf að koma úrganginum einhversstaðar fyrir og gríðarlegt landflæmi þyrfti fyrir tankana ef svo bæri undir. Því er allt slíkt tal afar óraunhæft, líkt og reynslan sýnir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum