fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Þórunn Ólafsdóttir: Sniðgöngum Evróvisjón í Ísrael

Egill Helgason
Sunnudaginn 13. maí 2018 15:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Ólafsdóttir hefur getið sér góðan orðstír fyrir hjálparstörf sem hún hefur stundað bæði í Palestínu og meðal sýrlenskra flóttamanna á grískum eyjum. Reynsla hennar og þekking er slík að þegar hún talar hlýtur maður að leggja við hlustir.

Þórunn skrfar hér áskorun um að  Íslendingar sniðgangi Eurovisjón ef keppnin verður haldin í Ísrael á næsta ári, færir rök fyrir því og lýsir aðförum Ísraelshers og ísraelskra landránsmanna í Palestínu. Það satt að segja ansi langsótt að segja að á þessu svæði sé hægt að skilja á milli stjórnmála og popptónlistar.

— — —

Kæra íslenska tónlistarfólk!

Mig langar að biðja ykkur um svolítið. Nú er ljóst að Eurovisionkeppnin 2019 verður haldin í Ísrael. Ég er nokkuð viss um að Ríkissjónvarpið mun ekki hafa frumkvæði að því að sniðganga hana, en það er mikilvægt minna á að án ykkar er þátttaka ekki Íslands ekki möguleg. Ef þið takið ykkur saman, öll sem eitt, og neitið að taka þátt, munu það verða sterk skilaboð til ríkis sem hefur í sjö áratugi níðst á palestínsku þjóðinni í formi ólöglegs hernáms.

Mörgum kann að finnast þetta óttaleg dramatík. Mörgum finnst við eiga að aðskilja þátttöku í skemmtun eins og Eurovision frá pólitík og skoðunum okkar á þeim ríkjum sem taka þátt eða halda keppnina. Í þessu tilfelli er málið mun flóknara en svo. Allt sem ýtir undir jákvæða ímynd Ísraelsríkis á alþjóðavettvangi grefur undan réttindum Palestínumanna. Við sem höfum dvalið í Palestínu og séð hvað gengur þar á, hvernig ísraelski herinn gerir daglegt líf íbúa landsins oft að algjöru helvíti, höfum örugglega öll upplifað sama vanmátt og óskað þess heitt að geta beitt forréttindum okkar á einhvern hátt til að stöðva óréttlætið sem þar á sér stað alla daga. Á meðan við svífum um áhyggjulaus með snakk og ídýfur, tilbúin að kjósa okkar lag, er ísraelski herinn að öllum líkindum að ryðjast inn á heimili palestínskra fjölskyldna, ræna fjölskyldumeðlimi frelsinu og grípa með sér verðmæti í leiðinni. Ég hef séð það gerast með eigin augum oftar en einu sinni og les nánast vikulega frásagnir af slíkum atburðum hjá palestínskum vinum og kunningjum. Síðast í gær myrti ísraelski herinn 15 ára palestínskan dreng og vikurnar á undan hafa verið þær blóðugustu í langan tíma.

Við sjáum fréttir af þessum alvarlegustu atburðum í fjölmiðlum en það sem við sjáumst sjaldnast er hversdagsáreitið sem herinn stundar inni á hernumdu svæðunum. Reglulega mæta þungvopnaðir hermenn inn á palestínsk yfirráðasvæði til að sýna vald sitt. Til að ögra og áreita. Skemma og hræða.

Eitt fjölmargra hlutverka samtakanna sem ég starfaði með þegar ég dvaldi á Vesturbakkanum var að vakta eftirlitsstöðvar sem skólabörn þurftu að fara í gegnum til að komast í og úr skóla. Börnin köstuðu oft grjóti í eftirlitsstöðvarnar og þá brugðust þungvopnaðir hermenn, oft barnungir Ísraelar með risastórar byssur, ókvæða við. Nánast hver einasti dagur í Hebron (Al Khalil) hófst og endaði á táragasi, hljóðsprengum og stundum gúmmíhúðuðum stálkúlum sem rigndi yfir allt niður í sex ára gömul skólabörn. Mörg þeirra voru alltaf með laukbita í vasanum því að anda að sé sterkri lykt getur dregið úr áhrifum táragass á öndunarfærin. Suma daga voru pínulítil börn handtekin og dregin öskrandi af vettvangi af þungvopnuðum, fullvaxta hermönnum. Fólki sem svo augljóslega leit á þessi börn sem eitthvað allt annað en börn. Engin heilvita manneskja sem ekki hefur farið í gegnum strangan heilaþvott allt lífið gæti komið svona fram við fólk, hvað þá börn. Út á það gengur ísraelski herinn.
Ísraelum er innrætt frá blautu barnsbeini að herinn verndi landamæri ríkisins og tilvist hans byggist á því að verja landið fyrir hinum hættulegu aröbum sem búa handan múrsins, örfáum kílómetrum í burtu, en fæstir hafa hitt því það er ólöglegt fyrir almenna borgara í Ísrael að fara inn á svæðið af “öryggisástæðum”. Ég á ísraelska vinkonu sem er andstæðingur hernámsins en var í sjokki þegar ef sagði henni sögur af Vesturbakkanum. Hún hafði einfaldlega aldrei heyrt af því sem þar gengur á, þó fædd og uppalin í Jerúsalem.

Táragasregnið í Hebron gátum við alþjóðaliðar ekki stöðvað. Eina hlutverk okkar á eftirlitsstöðvunum var í raun að vera til frásagnar og reyna að sýna börnunum samstöðu. Láta vita ef barn var handtekið og djöflast í valdinu í krafti forréttinda okkar. Við hvíta fólkið áttum nefnilega síður á hættu að vera drepin eða handtekin. En lykilatriðið var að segja frá. Ég mun halda þvi áfram svo lengi sem ég hef rödd.

Eftir því sem ég varð oftar vitni af óréttlætinu varð erfiðara að koma því í orð. Mér fannst ég stöðugt vera að bregðast, ekki nógu dugleg að segja frá. En upplifanirnar hlóðust upp og mörkin teygðust í allar áttir. Skyndilega var það orðið daglegt brauð að ganga í flasið á vopnuðum hermönnum og lyktin af táragasi var einhvern veginn bara alltaf í vitunum. Upplifunin af því að heimurinn væri ekki að hlusta varð sterkari og sterkari. Meðvitundin um að ég yrði að gera eitthvað var alltaf og er enn til staðar, en fólk leggur síður við hlustir en mig hafði grunað þá. Margir reyna að útskýra að þetta sé nú ekki svona svart og hvítt, Ísraelar séu ágætis fólk og séu svo dugleg að vinna að réttindum hinsegin fólks til dæmis. Sem er rétt. En það að ríki standi sig vel á einu sviði mannréttindabaráttu býr ekki til leyfi til að svívirða mannréttindi á öðrum vettvangi.

Og þar komum við aftur af Eurovision. Í gær sigraði ísraelsk kona, nokkuð töff bara og með lag fullt af mikilvægum boðskap. Það breytir því bara ekki að Ísraelsríki rekur harða aðskilnaðarstefnu og stundar svívirðileg mannréttindabrot aðeins hársbreidd frá tónleikahöllinni sem mun hýsa næstu keppni. Og ekki segja mér að ekkert ríki sé fullkomið og að við ættum þá bara aldrei að taka þátt í neinu ef við viljum sniðganga slíkt. Það er útúrsnúningur. Raunin er sú að ekkert annað ríki sem kemur nálægt þessari keppni hefur stundað ólöglegt hernám á landi annarar þjóðar í meira en sjö áratugi. Afleiðingin er stöðug dráp, mannréttindabrot og sú staðreynd að fyrrum íbúar Palestínu er stærsti hópurinn á flótta í heiminum og hefur verið frá stofnun Ísraelsríkis. Rúmar fimm milljónir flóttafólks, margar kynslóðir og stór hópur ríkisfangslaus. Svo stór að til er sér stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem fer með málefni palestínsks flóttafólks.

Við sem eigum hjörtu sem slá með Palestínu upplifum oft máttleysi gagnvart þessu ógnarstóra skrímsli sem hernámið er. En sniðganga veikir það. Íbúar Palestínu hafa kallað eftir henni lengi. Að Ísrael finni á eigin skinni að heimurinn allur eða einstök ríki samþykki ekki ofbeldið og óréttlætið. Sniðganga er friðsamleg leið til þess og hefur virkað áður.

Þess vegna biðla ég til ykkar, elsku íslenska tónlistarfólk. Þið munuð eiga síðasta orðið í ákvörðun okkar um þátttöku á næsta ári. Samstaða ykkar gegn hernáminu myndi höggva í það lítið en mikilvægt skarð. Fordæmi sem vonandi fleiri þjóðir munu fylgja.

Viljið þið vera svo væn?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins