fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

NATO getur ekki brugðist nægilega hratt við innrás Rússa

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 13. maí 2018 17:00

Kanadískir hermenn á æfingu Nató í Litáen. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á tíma kalda stríðsins var stundum grínast með að sókn sovéska hersins í gegnum Vestur-Evrópu myndi stöðvast þegar skriðdrekarnir kæmu að stóru gatnamótunum á þýsku hraðbrautunum. Þá myndi öll umferðin stöðvast og allt fara í hnút. Eins og staðan er í dag á þessi brandari vel við en hins vegar í hina áttina því nú á hann við um hernaðartól NATO. Umferðarmannvirki á meginlandi Evrópu eru einfaldlega ekki í stakk búin til að taka við umferð skriðdreka, fallbyssna og hermanna og koma þessari umferð hratt og örugglega á áfangastað. En það er ekki nóg með að umferðarmannvirkin geti seinkað för hernaðartóla NATO í austurátt, til að verjast Rússum, því landamæraeftirlit og skriffinnska er ekki til að hraða för hernaðartólanna.

Þýskur Leopard 2 skriðdreki á æfingu. Mynd/Getty

Þessu fengu liðsmenn frægustu skriðdrekasveitar Bandaríkjahers að kynnast á eigin skinni þann 18. júlí á síðasta ári. Þá tafðist löng lest ökutækja frá 2. riddaradeild á landamærum NATO-ríkjanna Rúmeníu og Búlgaríu. Í vefritinu Defense One er haft eftir Patrick Ellis, ofursta og stjórnanda deildarinnar, að í hálfan annan tíma hafi deildin setið föst á landamærunum í brakandi sólskini og beðið eftir að einhverjir skriffinnar stimpluðu skjölin þeirra.

Rússneskir hermenn á Krímskaga. Mynd/Getty

Í nýrri leynilegri NATO-skýrslu, sem margir alþjóðlegir fjölmiðlar hafa vitnað í, kemur fram að auk skriffinna á landamærum Evrópuríkja  séu umferðarmannvirki ein stærsta hindrunin þegar kemur að hröðum flutningi herliðs. Margir vegir og brýr, sem þarf að fara um, geta ekki borið þung farartækin og mikla skotfæraflutninga. Sem dæmi má nefna að þýskur Leopard 2 skriðdreki vegur 64 tonn og því enginn hægðarleikur að koma slíku farartæki á milli staða ef umferðarmannvirkin eru ekki nægilega traust.

Það eru aðallega Eystrasaltsríkin sem NATO og ESB hafa áhyggjur af. Í kjölfar innlimunar Krímskaga í Rússland telja Eistland, Lettland og Litháen sig vera í skotlínu Rússa. NATO hefur sent fjórar herdeildir til þessara ríkja og Póllands en þær eru ekki í stakk búnar til að hrinda rússneskri árás. Ef Rússar byrja að ógna Eystrasaltsríkjunum þarf NATO að bregðast við með miklum hergagnaflutningum og flutningi á hermönnum. Til þess að það verði unnt þarf að leysa úr vandanum með umferðarmannvirkin og tafir á landamærum.

Efasemdir um að hægt verði að mæta rússneskri árás

Steven Shapiro, hershöfðingi og yfirmanna birgðamála bandaríska hersins í Evrópu.

Í skýrslunni koma fram ákveðnar efasemdir um hvort það sé raunverulegt að halda að hersveitir NATO geti brugðist við rússneskri árás, til dæmis á Eystrasaltsríkin, nægilega hratt og árangursríkt eins og kveðið er á um í sáttmála NATO.

NATO myndi ekki geta komið liðsauka nægilega hratt á áfangastað segir í skýrslunni, brýr myndu hrynja undan þungum skriðdrekum og aðrar væru ekki nægilega háar til að herbílar gætu ekið undir þær. Göng væru of þröng. Þá segir að flutningar með járnbrautarlestum væru áhættusamir.

Við þetta bætist síðan skriffinnska á borð við þá sem fyrr er getið. Eins og staðan er í dag þurfa allir hergagnaflutningar að fá samþykki í hvert sinn sem farið er yfir landamæri. Fylla þarf út fjölda skjala í hverju ríki þar sem skrá þarf raðnúmer allra skriðdreka og annarra ökutækja.

Der Spiegel hafði nýlega eftir Steven Shapiro, hershöfðingja og yfirmanna birgðamála bandaríska hersins í Evrópu, að þótt að stríð brjótist út hafi það ekki sjálfkrafa í för með sér að allar þessar kröfur á landamærunum leggist strax af.

Framkvæmdastjórnin skoðar málið

Framkvæmdastjórn ESB ætlar nú að láta skoða þessi mál ofan í kjölinn. Markmiðið er að búa til einhvers konar hernaðarlegt Schengen-svæði þar sem hermenn og hernaðartól NATO geta farið nær hindrunarlaust yfir landamæri. Staðla á pappírsvinnuna og draga úr henni.

Einnig á að hrinda í framkvæmd umfangsmikilli greiningu á umferðarmannvirkjum sem getur þurft að nota við hraða flutninga vopna, hermanna og birgða í austurátt. Þessari greiningu á að ljúka á næsta ári.

2020 á síðan að hefjast handa við að betrumbæta umferðarmannvirkin og það mun hafa í för með sér mikil fjárútlát úr sjóðum ESB. Einnig á að hafa flutning hernaðartóla meira í huga við hönnun umferðarmannvirkja í framtíðinni.

Allt þetta er einnig liður í fyrirætlunum um að mynda evrópskt varnarbandalag sem á að starfa með NATO. 25 aðildarríki ESB taka þátt í þessu samstarfi, sem nefnist Pesco, en Danmörk stendur utan þess.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun