fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Þangað til krónan fellur næst

Egill Helgason
Laugardaginn 12. maí 2018 19:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fækkun ferðamanna væri kannski ekki alvarleg ef svo margir hefðu ekki gert plön miðað við mikinn vöxt. Það hefur verið fjárfest í hótelum, veitingastöðum, bílaleigubílum eins og vöxturinn yrði áfram mældur í tugum prósenta.

Þetta getur þýtt ýmislegt. Þeir sem hafa byggt hótel og hafa gert ráð fyrir að geta selt herbergin á ákveðnu verði sjá nú fram á lélegri nýtingu – og að máski verði ekki hægt að fara fram á gestir borgi verðið sem var gert ráð fyrir í áætlununum.

Það má búast við að einhverjir muni eiga í erfiðleikum með að borga bankalánin sín – og lífeyrissjóðirnir, sem eru alltof fyrirferðarmiklir í fjárfestingum á Íslandi, gætu farið að tapa fé.

Skýringarnar á fækkunninni – og við skulum muna að spárnar hafa gert ráð fyrir verulegri fjölgun – eru ekkert sérlega flóknar. Það er verðlagið númer 1, 2 og 3. Og meginskýringin á því að verðið er svona út úr korti er íslenska krónan. Við erum enn einu sinni búin að missa stjórn á henni. Lítið dæmi:

Hamborgari á Café París sýndist mér á matseðli kosta 2990 krónur. Þetta er meðalstaður – verðlagið ætti að vera í meðallagi hátt. (Hægt að fá ódýrara á Búllunni). Þýðir að fyrir t.d. fjögurra manna fjölskyldu kostar 11.9060 krónur að borða hamborgara. Svo bætast drykkir við. Tveir bjórar, samanlagt 2500, og gos 2 x 470. Samansem 15.400 krónur. Það eru 150 dollarar.

Ég held ekki að veitingastaðurinn sé að okra. Ég er ekki viss um að hann geti boðið miklu lægra verð miðað við hráefnis-, launa og fjármagnskostnað. En það er gengi gjaldmiðilsins sem er alltof hátt.

Ég var með bandaríska gesti hér á landi nýskeð. Þeir höfðu heyrt tröllasögur af því hvað Ísland er dýrt. Svo þegar þau sáu verðlagið þorðu þau varla að taka upp veskið. Voru guðslifandi fegin í hvert skipti sem þau náðu að henda pasta í pott og borða með tómatsósu.

En það verður veisla fyrir okkur Íslendinga sem förum til útlanda í sumar. Við eigum eftir að upplifa okkur sterkefnuð. Er á meðan er – þangað til krónan fellur.

Svo er að verða breyting. Dýrmætu ferðamennirnir sem komu hingað frá Evrópu, þeim fækkar verulega. Þetta er fólkið sem ferðaðist vítt og breitt um landið, fór um fjöll og firnindi, dvaldi lengi og skoðaði af áhuga. Í staðinn hafa íslensku flugfélögin komið sér upp  viðskiptamódeli sem byggir á að flytja farþega milli Bandaríkjanna og Evrópu, með viðkomu á Íslandi. Þetta eru „ódýrir“ ferðamenn, staldra stutt við, kíkja aðeins á Reykjavík og helstu staði sunnanlands.

Hérumbil enginn býður lægra verð milli Evrópu og Ameríku en íslensku félögin. Þetta eru gríðarlegir fólksflutningar, en það er eftir minna að slægjast fyrir ferðaþjónustuna en æskilegt væri.

(Myndin hér að ofan er af vef Íslandsbanka um ferðaþjónustuna. Þar má lesa nokkrar skýrslur um þróun hennar.)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“