fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Verðhækkanir á bílum framundan

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 11. maí 2018 17:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sala á nýjum bílum með þróuðustu og sparneytnustu bensín- og dísilvélunum mun dragast verulega saman vegna fyrirséðra verðhækkana frá og með 1. september 2018 grípi stjórnvöld ekki til mótvægisaðgerða gagnvart nýja alþjóðlega mengunarstaðlinum WLTP (Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Procedure) sem tekur við hlutverki eldri staðla við mælingar á eyðslu eldsneytis og útblæstri koldíoxíðs (CO2).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Innleiðing á WLTP í Evrópu verður í tveimur skrefum, fyrst með uppreiknuðu gildi núverandi NEDC staðals 1. september 2018 og svo að fullu þann 1. september 2019. Fyrirséð er að CO2 gildi bifreiða munu hækka og leiða til hærri vörugjalda og þar með útsöluverðs á nýjum bílum. Einnig mun taka gildi uppfærður mengunarstaðall, EURO6c, þann 1. september næstkomandi með hertum kröfum um útblástur sótagna og nituroxíðs (NOx).

Kröfurnar kalla á uppfærðar vélar sem munu að sögn framleiðenda hækka í innkaupum um á bilinu 1500- 3000 evrur. Allir bensín- og dísilbílar auk tvinn- og tengitvinnbíla munu verða fyrir áhrifum af breytingunum.

Samkvæmt heimildum Bílgreinasambandsins er talið útilokað að íslensk stjórnvöld hafi ráðrúm til að koma í veg fyrir hækkanirnar 1. september. Hins vegar er afar mikilvægt að stjórnvöld grípi til ráðstafana sem komi í veg fyrir sambærilegar hækkanir 1. september 2019 þegar WLTP tekur gildi að fullu.

WLTP tímabær staðall

Tekið skal fram að samtök evrópskra bílaframleiðenda og söluaðilar eru sammála um nauðsyn nýs, alþjóðlegs og neytendavænni staðals. Til útskýringar hefur eyðsla og útblástur nýrra bensín- og dísilbíla í Evrópu verið mæld samkvæmt staðlinum NEDC (New European Driving Circle). Hann var innleiddur árið 1980 og er að flestra mati úreltur enda sýnir hann ekki rauntölur um orkunotkun og útblástur við hversdagslega notkun bíla. Það gerir WLTP hins vegar, neytendum til mikilla hagsbóta.

Færast upp um tollflokk

Hér á landi og víðar ræður útblástur C02 tollflokki nýrra bíla. Þegar WLTP tekur gildi munu bensín- og dísilbílar færast upp um tollflokka á grundvelli raunverulegra C02-gilda sinna. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að útblásturinn er sá sami og jafnvel minni í nýjustu vélunum og ef stuðst væri við NEDC. Því er ekki verið að tala um aukna mengun, heldur breyttar mæliaðferðir sem leiða til hærri tolla og þar með mikilla verðhækkana verði ekki gripið til mótvægisaðgerða sem vegi upp á móti hækkuninni. Sú óeðlilega staða kemur einnig upp að bifreiðagjöld meira mengandi bíla á markaðnum verða lægri en nýjustu bílanna þar sem óheimilt er að breyta CO2 gildum afturvirkt.

ESB varar við verðhækkunum og Danir lækka vörugjöld

Evrópusambandið birti nýlega leiðbeiningar í reglugerð (Commission recommendation of 31.5.2017) sem aðildarlöndum ESB og EES er ætlað að styðjast við án þess að í reglugerðinni felist ákveðnar tilskipanir. Tekið er skýrt fram að meginmarkmiðið sé að löndin upplýsi neytendur um WLTP-staðalinn til að unnt sé að samhæfa hvenær og hvernig bílaframleiðendur og endursöluaðilar kynni nýju eyðslu- og útblásturstölurnar. ESB varar beinlínis við því að breytingarnar leiði til verðhækkana á bílum. Það sé ekki og hafi aldrei verið markmiðið. Þess vegna eru nú flest nágrannalöndin að skoða mögulegar mótvægisaðgerðir. Dönsk stjórnvöld hafa t.d. þegar ákveðið að lækka vörugjöld um sem nemur verðhækkunum sem ella hlytust af tollflokkabreytingunum.

Svíar fresta

Frá 1. september næstkomandi verða nýir bílar að uppfylla EURO6c staðalinn sem gerir meiri kröfur um útblástur en EURO6b sem nú er í gildi. Bílaframleiðendur hafa margir tilkynnt að aðlögun nýjustu bensín- og dísilvélanna að staðlinum muni leiða til verðhækkana auk framleiðslu- og afhendingartafa. Ef til vill er það af þeim ástæðum sem sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að fresta innleiðingu WLTP til 1. janúar 2020 eins og heimilt er, í þeirri von að bílaframleiðendur nýti tímann til að endurhanna vélarnar.

Hvað hyggjast íslensk stjórnvöld að gera?

Að mati Bílgreinasambandsins er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til mótvægisaðgerða sem hamli gegn stórfelldum verðhækkunum á nýjustu bensín- og dísilbílunum. Það væri mjög í þágu ríkissjóðs og ekki síður umhverfisins. Bílar eru afar verðteygin vara og markaðurinn bregst við með leifturhraða eins og raunin varð í efnahagshruninu 2008 þegar verðhækkanir um 25-30% höfðu í för með sér um 50% samdrátt í sölu nýrra bíla. Tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum og virðisaukaskatti af nýjum bílum nema milljörðum króna á ári hverju.

Verði ekki gripið til mótvægisaðgerða mun hægjast verulega á endurnýjun bílaflotans, þar sem meðalaldurinn er um 12 ár um þessar mundir, vegna þess að neytendur munu í ríkari mæli velja notaðan bíl í stað nýs. Það mun hægja á endurnýjun flotans og lengja líftíma meira mengandi bíla. Að mati Bílgreinasambandsins er ekki ólíklegt að árið 2019 muni sala á nýjum bílum verða á bilinu 40-50% þess sem hún var árið 2017 grípi stjórnvöld ekki til raunhæfra aðgerða með hagsmuni neytenda og umhverfisins að leiðarljósi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“