fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Hvað á ég að éta?

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 11. maí 2018 23:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhver myndi kannski segja að sár fátækt finnist ekki á Íslandi í dag en það er nefnilega tilvera margra íslenskra fjölskyldna. Margir foreldrar þurfa að vinna úr sér vitið til að geta greitt leigu og haft í sig og á. Einstætt foreldri með 300.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur sem leigir íbúð á 200.000 kr. á mánuði líður skort á öllum öðrum sviðum. Þessi fjölskylda er fátæk.

Flokkur fólksins býður nú fram í Reykjavík í fyrsta sinn. Í stefnuskrá hans er lögð höfuðáhersla á fjölskylduna sem byggir borgina og að allar fjölskyldur hafi öruggt húsaskjól og nóg að bíta og brenna. Allir, þ.á.m. börn, öryrkjar sem og eldri borgarar skulu aldrei svelta á vakt Flokks fólksins.

Í aðdraganda síðustu kosninga lofaði Samfylkingin að byggja 3000 íbúðir. Þetta loforð hefur ekki verið efnt. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum. Það eru margir til að fjármagna byggingarframkvæmdir í Reykjavík. Íbúðalánasjóður og Lífeyrissjóðir en í lífeyrissjóðskerfinu liggja þúsundir milljarðar. Það er á ábyrgð borgarinnar að úthluta lóðum í óhagnaðardrifin byggingarverkefni þannig að nægt framboð verði til staðar svo húsnæðismarkaðurinn komist í eðlilegt horf.

Í starfi mínu sem sálfræðingur hef ég hitt mörg börn sem líða skort. Þessi börn fara ekki varhluta af áhyggjum foreldra sinna. Fátæk börn bera sig saman við börn sem búa við betri kjör. Skilningur þeirra á erfiðleikunum byggist vissulega á þroska og aldri. Mörg spyrja af hverju eru foreldrar mínir fátækir?

Mismunun og ójöfnuður laða iðulega fram tilfinningu vanmáttar og óöryggis hjá ungum börnum. Það hefur áhrif á sjálfsmat og sjálfsvirðingu barns að hafa ekki sömu tækifæri og önnur börn. Þau upplifa sig á jaðrinum meðal jafningja og tekst oft ekki að samlagast jafnöldrum sínum. Tilvik eru um að fátækum börnum sé hreinlega hafnað og þeim strítt vegna fátæktar sinnar. Ég þekki af eigin raun tilfinningu vanmáttar, minnimáttarkenndar og óöryggis við það að búa við bágbornar aðstæður sem barn. Og það er ömurlegt!

Flokkur fólksins líður ekki að börn skuli þurfa að lifa í fátækt Í Reykjavík og setur málefni fjölskyldunnar efst á forgangslista sinn í komandi kosningum 26. maí. Þak yfir öll höfuð og matur á diska skal það vera. Sé grunnþörfum einstaklings ekki sinnt er varla mikils að njóta. Fólkið fyrst!

Kolbrún Baldursdóttir, skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt