fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Þegar danskan var á undan enskunni

Egill Helgason
Fimmtudaginn 10. maí 2018 23:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mín kynslóð lærði dönsku líkt og kynslóðir sem undan komu vegna þess að danska var hvarvetna í málumhverfi okkar. Núorðið er nær ómögulegt að kenna börnum dönsku vegna þess að þau heyra hana aldrei né sjá – nema farið sé með þau til Kaupmannahafnar.

Almennt þurfa Íslendingar ekki að dvelja lengi á Norðurlöndunum til að læra norrænu málin. Ég var að horfa á norska kvikmynd um daginn. Hún gerðist í Norður-Noregi í stríðinu. Ég held að hafi ekki verið eitt einasta orð í myndinni sem er ekki líka til í íslensku. Slíkur er skyldleikinn.

Það er reyndar hugsanlegt að við ættum frekar að kenna norsku í skólum en dönsku. Kannski meðal annars vegna þess að töluð danska er orðin svo skringilega óskýr. Þetta er ekki danskan sem var töluð í íslenskum kaupstöðum á landshöfðingjatímanum þegar Ísland var hvað danskast – eða sú danska sem heyrðist í sjónvarpsþáttunum Matador.

Það var haldið málþing í vikunni um Andrés Önd á Íslandi, vakti nokkra athygli. Mín kynslóð las Andrés á dönsku, lærði þannig málið án fyrirhafnar. Þetta var eitthvað sem maður vildi lesa – og þegar svo er kemst maður yfirleitt á endanum í gegnum textann. Það rofnaði þráður þegar Andrés Önd fór að koma út á íslensku. Þá var varla neitt eftir af dönsku lesefni. Íslensk tímarit fóru líka að koma út og leystu af hólmi Hjemmet, Familie Journal, Alt for damerne og Se & hör

Danskan kom á undan enskunni. Ensku fór ég fyrst að lesa þegar ég komst yfir grínblöðin Mad. Og það var fleira sem maður las á dönsku en Andrés. Teiknimyndasögublaðið Fart & tempo var vinsælt, svo voru það sögurnar um Rasmus Klump. Tinnabækurnar bárust fyrst hingað á dönsku. Þegar ég var þrettán ára gerðist ég áskrifandi að dönsku unglingablaði sem hét Vi unge. Þar var aðallega skrifað um popptónlist og kvikmyndir.

Samt er blaðið eftirminnilegast fyrir annað. Á þessum árum var mjög lítið klámfengið efni að hafa. Íslensku blöðin Tígulgosinn og Glaumgosinn voru mjög ólystug með sínum klippimyndum. En Vi unge birti auglýsingar af plakötum sem áskrifendurnir gátu keypt. Þar vorumeðal annars pínulitlar myndir, þumlar heita það í dag, þar sem sást í konubrjóst.

Þetta var nú allt og sumt af kláminu.

 

 

En ég var orðinn svo ágætur í dönskunni af þessu að þegar ég fór að hafa áhuga á bókmenntum las ég þær ekki síður á dönsku en ensku. Það gerir varla nokkur maður lengur. Ég las Kafka á dönsku. Svo frétti ég að danskar þýðingar á Dostojevskí þættu einstaklega góðar. Þýðandinn hét Ejnar Thomassen. Það fór svo að ég las allar stóru sögurnar eftir Dostojevskí á dönsku, Glæp og refsingu. Fávitann, Karamazov-bræðurna og Hina andsetnu.

Á sama tíma las ég Hans Scherfig sem ég held að sé eini rithöfundurinn sem ég uppgötvaði í skóla. Mér finnst hún alltaf jafn fyndin tilhugsunin um Blomme lektor í fínasta latínuskólanum í höfn, Metropolitanskólanum, sem dó þegar hann stakk upp í sig eitruðum maltbrjóstsykri úr öskju sinni. Hið glataða vor eftir Scherfig er morðsaga og spurt er hvaða nemandi eitraði fyrir hinum sadíska kennara mitt í hinum skelfilega prófskrekk vorsins. Þann tíma sem ég var í MR man ég eftir kennurum sem höfðu vott af Blomme.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun