fbpx
Eyjan

200 ára Marx – Vélmenni allra landa sameinist!

Egill Helgason
Sunnudaginn 6. maí 2018 20:43

Það eru tvö hundruð ár frá fæðingu Karls Marx. Það vantar ekki að hann hafi haft áhrif – líklega er enginn heimspekingur jafn áhrifamikill. Sums staðar var það svo að hugmyndum Marx var hampað eins og þær væru óhrekjanlegur sannleikur – var kallað díalektísk efnishyggja. Um tíma var ástandið þannig í veröldinni að í nánast hálfum heiminum trónuðu myndir af Marx – og þær voru bornar af fólki á fjöldafundum.

 

 

Það er spurning hversu langt við göngum í að kenna Karli Marx um fylgjendur sínar. Það er býsna skrautlegur hópur og ekki sérlega geðslegur: Lenín, Trotskí, Stalín, Maó, Ulbricht, Gottwald, Ceausescu, Tito, Kim Il-Sung, Hoxha,  Castro, Guevara, Pol Pot, Mengistu, Maduro,  Þarna eru innan um afskaplega stórtækir morðingjar sem notuðu marxíska kenningu  til að réttlæta gjörðir sínar.

Spár Marx rættust ekki. Að minnsta kosti hefur verið mjög löng bið á því. Kapítalisminn gerði verkamenn ekki fátækari og fátækari. Hann reyndist þvert á móti vera ansi góður í að dreifa gæðunum. Þeir sem fengu að búa við áætlanabúskap, sem var stefnt gegn kapítalismanum, upplifðu stöðugan skort á lífsnauðsynjum. Almenningur í hinum kapítalísku löndum eignaðist ískápa, þvottavélar, sjónvörp og bíla og búðir voru fullar af varningi. Kommúnismanum tókst aldrei að finna neitt sem líktist lausn á þessu. Það vantaði einföldustu hluti.

En hugmyndastraumar maxisma runnu líka í gegnum hreyfingar sósíaldemókrata sem ekki töldu rétt að ná völdum með byltingu. Blandaða hagkerfið fór að líta dagsins ljós (reyndar er einn af upphafsmönnum þesss Bismarck járnkanslari), en þar voru teknir þættir úr jafnaðarstefnu og blandaðir við kapítalismann. Markaðurinn skyldi vera frjáls, en ríkið skyldi með nokkuð háum sköttum annast velferð þegnanna, heilbrigði og menntun. Þannig urðu til þjóðfélögin sem við þekkjum á Vesturlöndum, en líka í Japan, Ástralíu og víðar um heiminn.

En það sem hefur verið að gerast síðustu áratugina er að þessi mynd er að skekkjast. Ójöfnuður fer hvarvetna vaxandi. Auðurinn á Vesturlöndum færist sífellt á færri hendur. Ástæðurnar eru einkum þríþættar: Gríðarleg fjármálavæðing hagkerfisins, tæknibylting sem hefur kollvarpað gömlum iðngreinum og mjög agressíf markaðshyggja sem hefur beint spjótum sínum að blandaða hagkerfinu. Á svona tíma er Marx aftur dreginn fram og sagt að hann hafi nú verið búinn að spá þessu á sínum tíma. Kenningin sé þrátt fyrir allt góð og rétt  – og kannski bara lögmál.

En á sama tíma höfum við séð fjölda Asíubúa hefjast upp úr fátækt í kerfi sem má kalla ríkiskapítalisma. Í Kína er þessu stjórnað af samtökum sem kalla sig Kommúnistaflokk. Hann flaggar enn myndum af Marx gamla. Ljósmyndin hérna að ofan er af hátíðarsamkomu Kommúnistaflokksins vegna afmælisins.  Þetta er náttúrlega ekki kommúnismi, heldur afar miðstýrt form af kapítalisma þar sem ríkið heldur fast um taumana og vinnandi fólk þarf að hlýða skilyrðislaust.

Það er dálítið fróðlegt að lesa grein eftir Feng Xiang, kínverskan lagaprófessor, í Washington Post. Hann klikkar ekki á því að vitna í Marx í grein sinni. Feng segir að gervigreind muni ganga af kapítalismanum dauðum, ef gervigreindin verði undir stjórn markaðsaflanna muni afleiðingin verða ofurríkur hópur auðmanna sem sópi til sín arðinum meðan alþýða manna búiv við stórfellt atvinnuleysi. Markaðurinn muni ekki skapa atvinnutækifæri heldur atvinnuleysi.

Feng heldur því fram að hinn „sósíalíski markaðsbúskapur“ eins og hann er stundaður í Kína gæti verið lausn á þessu. Þannig verði hægt að koma reglum yfir gervigreindina og láta alla njóta afraksturs hennar. Hún muni frelsa verkafólk undan striti – sem var eitt markmið kommúnismans – en ekki aðeins færa vaxandi auð til hinna ofurríku. Kommúnismi framtíðar ætti að taka upp nýtt slagorð (sem er náttúrlega ættað frá Marx): „Vélmenni allra landa sameinist!“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum