fbpx
Eyjan

Byssur bannaðar þegar Trump mætir hjá NRA

Egill Helgason
Laugardaginn 5. maí 2018 10:39

Það er varla hægt að hugsa sér meiri hræsni. Donald Trump mætir á mikla hátíðarsamkomu hjá bandarískum byssueigendum. Hann hrópar um að Lundúnir séu eins og stríðssvæði vegna hnífa. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Trump ögrar Bretum með svipuðum hætti, það varð milliríkjamál síðastliðinn vetur þegar Trump deildi Twittersíðu sína áróðri frá bresku öfgasamtökunum Britain First.

Og fyrr á þessu ári tvítaði Trump um breska heilbrigðiskerfið, NHS, að það væri ónýtt.

Þannig að Trump heldur áfram að gera Bretum lífið leitt, en breska stjórnin mótmælir eða lætur sér nægja að malda í móinn. Þetta er heldur óþægilegt fyrir Theresu May, en í flokki hennar eru öfl sem reiða sig á að hægt verði að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin þegar Bretland gengur úr ESB. Sá samningur gætir reyndar orðið vandræðamál, því Bretar myndu líklega þurfa að sætta sig við bandarískt regluverk, þar á meðal um efni í matvælum. Líklegt er að það mæti mikilli andspyrnu.

Trump er væntanlegur í heimsókn til Bretlands 13. júlí. Þetta er ekki stór opinber heimsókn, honum verður ekki ekið í vagni um Lundúnir eins og May lofaði honum í upphafi forsetaferilsins, heldur er talað um vinnuheimsókn. Trump fær samt að hitta drottninguna – fyrir hann er það stórmál. En maður getur velt því fyrir sér hvernig Elísabetu líði með það?

Búist er við gríðarlegum mótmælum í borginni þegar Trump kemur. Þetta verður ekki eins og þegar Trump heimsótti Frakkland á Bastilludaginn og horfði á hersýningu með Emmanuel Macron.

En aftur að hræsninni. NRA-samtökin eru gríðarlega öflugur þrýstihópur sem borgar stjórnmálamönnum stórfé. Þau eru á móti öllum takmörkunum á byssueign. Að þeirra mati er lausnin á byssuárásum í skólum og kvikmyndahúsum að hreinlega vígvæða skólana og bíóin. Að sem flestir séu með byssur til að skjóta hugsanlega árásarmenn.

Þetta virkar náttúrlega algjörlega galið. Og það kannski grefur aðeins undan þessu að á fundi NRA þar sem Trump mætti og hélt þessa kröftugu ræðu – meðal annars um hnífa – voru byssur bannaðar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns

Leigjendur segja að borgin hafi ekki sinnt ábendingum Umboðsmanns
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Unnur Brá verður fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum